Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Fjölskylduerjur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölskylduerjur eru algengar og þær koma í allskonar myndum þrátt fyrir að uppsprettan oftast er sú sama. Þessi kynslóð fólks á Íslandi í skugga stríðs og kreppu fór út í heiminn með ríka tilfinningu skorts. Við sem erum í dag miðaldra skiljum oft ekki foreldra okkar, það er sem við tölum ekki sama tungumál kynslóða á milli enda bakgrunnur okkar gjörólíkur. Ég horfi á uppeldi foreldra minna og foreldra vina minna og maður á erfitt með að ímynda sér aðstæðurnar sem þessir einstaklingar voru oft að koma úr. Alkóhólismi var mikill, fátækt var mikil meðal margra og á sama tíma voru barneignir miklar. Flæði upplýsinga var af skornum skammti og mikil óvissa ríkti. Það samt sem áður má alveg segja að nútíminn sé líka ruglingslegur með gríðarlegu flæði upplýsinga. Erfitt er að greina á milli sannleika og villu og því óöryggið kannski alveg jafn mikið hvort sem fólk sé að horfast í augu við það eða ekki.

Ég hef það á tilfinningunni að sókn foreldra í efnahagslegt öryggi geti auðveldlega fyllt of mikið. Foreldrar leggja ofuráherslu á hið efnislega með mikilli vinnu og þessari skorts tilfinningu er mætt með peningum, dugnaði og metnaðargirnd. Húsið, bíllinn, bílarnir, útbúnaðurinn, fatnaðurinn, ímyndin er vandlega valdir þættir í leikmynd þessara leikrita sem við sýnum hvort öðru.

Nú á ég bara eitt barn og ekki einu sinni á það. Hún á sig svo klárlega sjálf en mér hefur verið falið að ala hana upp, sjá um hana. Ég er á margan hátt sjálfhverfur einstaklingur, ég er með allskonar áhugamál og umheiminum sýni ég leikmyndina sem ég hanna stöðugt af mikilli natni. Einmitt hús og bílar og utanlandsferðir og allskonar. Sjáðu mig, sjáðu hvað ég er með mikla stjórn á lifinu og hvað ég lifi í miklum velistingum. Hálf kómískt sem í raun sýnir ekki raunverulegt öryggi heldur bara óöryggi þó svo að sannleikur þessa leikrits sé einhver. Ég hef gaman af hlutum, fallegum línum og réttu litavali á allskonar járni og timbri sem skapa híbýli og fararskjóta. Draumurinn um rauða Broncoinn og fallegt bárujárnshús á stórri hornlóð, algjört Kodak móment sem ég hef haft mikið fyrir og eytt mikilli orku í.

Þrátt fyrir allan tímann og orkuna sem ég eyði í óöryggið mitt og sýndarmennsku þá nota ég mikla orku í samveru með barninu mínu. Þar næst ákveðið flæði og tengsl sem er ekkert annað en hráefni og vinna við sökkul eða grunn að heilbrigðu sambandi míns og barnsins míns.

Ég sé hana og hún sér að ég sé hana, hún veit að hún er séð og hún sér og finnur að allar hennar hreyfingar skipta mig máli. Þetta er svo dýrmætt því ég get leikið mér út í eitt í allri minni sjálfhverfu en næringin kemur frá því að þjónusta þetta barn og upplifa með henni samkennd. Næringin felst í óeigingjarnri þjónustu. Ég segi henni að ég elska hana og að ég treysti henni. Ég sýni henni hvar mörkin liggja og ég tek samtalið með henni um viðeigandi hluti. Ég ræði við hana um hvernig samfélag er uppbyggt af einstaklingum og í því samhengi ræðum við um uppbyggingu vitundar. Ég forða henni ekki frá sársauka heldur stíg ég inn í búrið með henni og gef henni leiðbeiningar. Ég segi henni frá drekanum eða einna heldur drekunum sem hún mun þurfa að berjast við ævina á enda. Ég segi henni frá guði eða hinum skapandi krafti sem umlykur okkur og örlögum okkar sem einhver skrifaði einhverntíman. Hvernig að karma´ið okkar bíður úrlausnar og engin annar en hún ber ábyrgð. Ég segi henni frá missioninu sem er það eina sem skiptir máli þessu lífi.

Það að ég og barnið mitt eigum þetta ferli saman mun gera líf hennar mun auðveldara. Hún mun ekki þurfa að eiga við tilfinningar tengslarofs og skorts. Hún mun ekki þurfa að eiga í útistöðum við mig seinna meir því við leyfum engri spennu að myndast. Ég mun ekki verða þjakaður af skömm yfir ábyrðarleysi mínu sem eflaust myndi lýsa sér þannig að ég sem foreldri sem brugðist hefur skyldum mínum ásaka hana fyrir að vera vanþakkláta og sérplægna. Við munum ekki þurfa að beita hvort annað ofbeldi með þögn og fýlu því við höfum lært í sameiningu að sjá mistökin okkar og gangast við þeim. Við höfum kennt hvort öðru að biðjast fyrirgefningar á dólg og dónaskap í samskiptum við hvort annað.

- Auglýsing -

Keðjan er slitin, ég finn það. Alveg eins og Járn Hans hef ég slitið þessa keðju sem annars lét mér líða eins og ég ætti eitthvað inni og að aðrir höfðu brugðist mér. Engin skuldar mér neitt og það eina sem ég skulda er þjónusta í garð komandi kynslóða, restin er óskilyrt. Þessari vissu fylgir léttir og neonskiltið blikkar stöfum sem segja að ég ber ekki ábyrgð á þjáningu fortíðarinnar. Aðrir mér eldri verða að fá að glíma við sína eigin dreka og ef örlög þeirra er að tapa orrustunni á næfuþunnri hengibrú þá er það bara svoleiðis.

Skömminni hefur verið skilað og fyrir vikið hef ég orðið skilvirkur, skilvirkur kjáni sem elskar að segja sögur.

Höfundur: Gunnar Dan Wiium

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -