Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Furðuljós á himni – Þegar geimverur heimsóttu Fellabæ

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar ég var 16 ára sá ég eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Sýnin var svo skýr og svo furðuleg að það er ekki nokkur leið fyrir mig að gleyma því, ekki nema ég greinist síðar með heilabilun, 7, 9, 13. Svo furðuleg var þessi sýn mín að ég ætti kannski ekkert að segja frá henni. En ég ætla nú samt að gera það, þannig að þú, lesandi góður, er óhætt að lesa áfram.

Þetta gerðist í október 1996, að mig minnir á sunnudeginum 20. október, og rétt eftir klukkan 01:00. Nærri Fellabæ. Ég átti daginn eftir að halda smá tölu í Samfélagsfræði, nú Lífsleikni, í Menntaskólanum á Egilsstöðum, þar sem ég átti, eins og allir hinir í áfanganum, að segja frá sjálfum mér, eða eitthvað sem tengdist mér. Þetta var gert til þess að busarnir myndu kynnast hvort öðru. Ég vissi ekki hvernig í ósköpunum ég ætti að kynna mig fyrir framan allan þennan hóp og þegar ég lagðist til hvílu, seint á sunnudagskvöld, var ég ekki tilbúinn með eitt orð í þessari kynningu.

Ég var sem sagt nýlagstur í rúmið heima í Brekkubrún í Fellabæ þegar vindhviða feykti gluggatjöldunum upp. Ég stóð upp og huggðist loka glugganum en þegar ég leit út um hann blasti við mig stórfurðuleg sjón. Í þó nokkurri fjarlægð frá Fellabæ, í norðurátt sveif á himni egglaga grænblátt ljós eða túrkís-litað. Ljósið sveif um og fór fram og til baka í einhverskonar áttu eða áttu sem lá á hlið, sem sagt í hringi fram og til baka. Þarna stóð ég frosinn, með galopinn munn og sturlunarglampa í augum. Eftir dágóðan tíma fór egglaga fyrirbærið snögglega upp í loftið og skaust svo niður á bakvið fjöll í fjarska.

Hjartað ætlaði að rifna úr bringunni á mér en ég ákvað að segja mömmu frá þessu. Hún sat inni í stofu og drakk kaffi og hlustaði á útvarpið sem var í gangi í gegnum stillimyndina á RÚV. Þarna stóð ég, grindhoraður, síðhærður auli með spangir, í engu nema brók og baðaði út höndunum og reyndi að koma einhverju upp úr mér. Mamma byrjaði að hlæja og spurði hvað í ósköpunum ég væri að reyna að segja. Þegar ég loksins náði að segja henni að ég hefði séð túrkís-litað egglaga fyrirbæri á himni, hætti hún að hlæja. Ekki komumst við að niðurstöðu um það hvað þetta gat hafa verið.

Daginn eftir ákvað ég að kynna mig í Samfélagsfræðitímanum með því að segja frá þessari furðusýn sem ég sá. Í stuttu máli gerði ég mig að athlægi. Ég gat gleymt því að ég yrði tekinn alvarlegur aftur í skólanum og ekki sjens að stelpurnar litu við mig það árið. Alla vikuna leið mér eins og hálfvita, hvað var ég að spá? Í vikulok var ég farinn að halda að ég hefði séð ofsjónir og þyrfti að kíkja til geðlæknis. En svo gerðist svolítið sem róaði huga minn, að minnsta kosti að miklu leyti. Samfélagsfræðikennarinn kom til mín og sagði að samnemandi minn hefði sagt honum frá vörubílstjóra sem hann þekkti, sem hafði séð túrkís-litað ljós yfir Héraðinu, þar sem hann keyrði á Fagradalnum (milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða), sömu nótt og ég sá ljósið. Ég var sem sagt ekki klikkaður. Eða ég var að minnsta kosti ekki sá eini klikkaði.

Hvað þetta var hef ég aldrei fattað en tvennt hefur mér alltaf þótt koma helst til greina. Að þetta hafi annað hvort verið Urðarmáni eða geimskip. Miðað við þau myndskeið sem ég hef séð af Urðarmánum, finnst mér geimskipið vera líklegra, þó ég myndi ekki endilega veðja hesti mínum og hnakki upp á það. Ég get þó sagt að ég vona að við séum ekki ein í þessum endalausa alheimi, það væri svolítið klikkað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -