Skoðun
Eftir / Grím Atlason
Landsamtökin Geðhjálp gegna mikilvægu hlutverki í þjónustu og hagsmunagæslu fyrir þá sem glíma við geðrænar áskoranir í samfélaginu og aðstandendur þeirra. Á þeim tímum sem við nú upplifum hafa samtökin fundið fyrir aukinni þörf fyrir þjónustu en að sama skapi hafa margir aðilar sem sinna málaflokknum þurft að loka starfsemi sinni. Í upphafi Covid-19 var dregið verulega úr þjónustu geðsviðs Landspítalans og þjónusta sveitarfélaganna raskaðist verulega. Þá dró úr þjónustu SÁÁ o.fl. sem sinna meðferð við fíknisjúkdómum. Heilbrigðiskerfið setti allt á bið, sem ekki taldist til bráðatilfella, og voru biðlistarnir þó langir áður en faraldurinn skall á. Til að bæta gráu ofan á svart standa nú yfir sumarlokanir á ýmsum deildum Landspítalans þ.á.m. geðdeildum. Afleiðingar þess eru að mörgum sem leita sér aðstoðar er vísað frá. Staðan er grafalvarleg.
Samkvæmt óbirtri grein Héðins Unnsteinssonar formanns Geðhjálpar og MSC í alþjóðlegri stefnumótun og stefnugreiningu, Þórhildar Elfu Þórisdóttur MA í félagsráðgjöf til starfsréttinda og Ástu Snorradóttur lektors við félagsráðgjafadeild HÍ, þá er umfang geðheilsu innan heilbrigðiskerfisins 30% en fjármagnið aðeins um 11%. Árið 1990 voru öryrkjar á Íslandi samtals 7.506 og af þeim 2.296 vegna geðrænna áskoranna eða 30,6% af heildinni. Árið 2019 voru öryrkjar orðnir 21.959, það er aukning um 193%, og af þeim 8.015 vegna geðrænna áskoranna eða 36,5% af heildinni. Hlutfallsleg aukning öryrkja með geðrænar áskoranir er 249% en eins og áður sagði fjölgaði bótaþegum í heildina um 193%. Landsmönnum fjölgaði á sama tíma úr 255.866 (lok árs 1990) í 356.991 (lok árs 2018) eða um 39,5%. Þetta var staðan áður en þeir fordæmalausu tímar hófust sem við nú upplifum.
Það hefur verið ljóst frá því að faraldurinn hófst að hann myndi hafa veruleg áhrif á geðheilsu fólks. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gaf strax út í mars að huga þyrfti sérstaklega að geðheilbrigðismálum í tengslum við faraldurinn. Reynsla okkar frá hruninu 2008 gefur ákveðnar vísbendingar um hvernig áföll koma fram í tengslum við geðheilsu. Covid-19 er hins vegar talsvert öðruvísi áfall en hrunið var. Við efnahagsþrengingarnar bætist einangrun og barátta við vírus sem sér ekki fyrir endann á.
Í ljósi þessarar stöðu leggur Geðhjálp til að ráðist verði í eftirfarandi verkefni án tafar:
- Setja skal á laggirnar nýtt geðráð að fyrirmynd þess sem gert er í Kanada og Nýja Sjálandi. Fulltrúar verði settir með erindis- og skipunarbréfi sem móti stefnu og leggi til aðgerðir. Í því sitji aðilar frá ríki, sveitarfélögum og félagasamtökum (notendur m.a.). Helsta hlutverk þess verði að samþætta aðgerðir ráðuneyta, sveitarfélaga og samfélagsins í heild í geðheilbrigðismálum. Hér má sjá það sem Nýja Sjáland hefur verið að gera: https://www.mentalhealth.inquiry.govt.nz/
- Gerð verði úttekt á geðheilbrigðiskerfinu. Það er svo sannarlega þörf á slíkri úttekt og í ljósi aðstæðna og kólnunar hagkerfisins er skynsamlegt að fjárfesta í þessari úttekt núna.
- Mikilvægt er að sálfræðiþjónusta falli undir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Tryggja þarf án tafar að fjármagn fylgi nýlegri samþykkt Alþingis um málið.
- Stórefla skal heilsugæsluna þannig að hún geti sinnt verkefnum tengdum geðheilsu í auknum mæli.
- Ráðast skal í byggingu nýrrar geðdeildar sem taki mið af þörfum fólks á 21. öldinni. Geðdeildum Landspítalans við Eilliðaárvog og Hringbraut tilheyra liðnum tíma og ber að loka.
- Kortleggja þarf stöðuna í búsetumálum þeirra sem glíma við geðrænar áskoranir og ráðast strax í framkvæmdir. Það færi vel á því að mannaflsfrekar framkvæmdir fælu í sér uppbyggingu innviða í kerfinu t.d. búsetuúrræða þar sem herbergjasambýli yrðu aflögð.
- Kalla skal eftir hugmyndum frjálsra félagasamtaka – þau eru mörg hver að gera frábæra hluti og geta lagt til verkefni sem gæti verið skynsamlegt að ráðast í núna.
- Undirbúa þarf geðfræðsluverkefni fyrir grunn- og framhaldsskóla sem hrint yrði í framkvæmd í haust. Mörg börn glíma við geðrænar áskoranir eða eiga nána ættingja sem gera það. Mikilvægt er að grípa þessi börn áður en það verður um seinan. Geðhjálp hefur að undanförnu verið að undirbúa verkefni í tengslum við „Útmeða“ sem er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Rauða krossins. Farið verður með þetta verkefni í skóla í kringum landið í haust og gæti nýst mörgum.
Geðheilsa er undirstaða hvers samfélags. Það ætti því að vera í algjörum forgangi að nýta þessa erfiðu tíma til þess að leggja mun meiri áherslu á geðheilbrigðismál á breiðum grunni.
Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.