Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Glissa svo fögur og gleið – Fjall bernskunnar klifið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eitt magnaðasta fjall Stranda er Glissa sem stendur á mörkum Reykjarfjarðar og Ingólfsfjarðar. Glissa var lengst af fáfarið fjall að sumri til. Fáir göngumenn höfðu farið á topp þess. Að vetri var þó algengt að fólk ferðist með fjallinu á vélsleðum á milli Djúpavíkur og Norðurfjarðar. Vélsleðamenn fóru þó ekki á efsta tind Glissu sem er um 714 metrar.

Gönguleiðin á Glissu varð upphaflega til þegar frænkurnar og fermingarsysturnar Unnur Pálína Guðmundsdóttir frá Munaðarnesi og Guðrún Gunnsteinsdóttir frá Bergistanga létu þann draum sinn rætast á ganga á fjallið sem blasir við frá Munaðarnesi. Frænkurnar héldu af staða frá Eyrarhálsi og gengu sem leið liggur meðfram Haugsfjalli og upp á Trékyllisheiði eftir svonefndum Smalavegi. Gangan hefst í rúmlega 300 metra hæð. Gengið er meðfram snarbröttu Eyrarfjalli. Þegar komið er upp á hálsinn blasir norðurendi Glissu við með hambrabelti sem ekki virðist vera árennilegt. Þær héldu þó ótrauðar áfram og gengu um mela og hæðir með stefnu á hamrana. Þegar þær komu þangað sem virtist vera illkleift opnaðist skarð upp í gegnum klettabeltið. Þaðan er leiðin á toppinn greið. Skarðið hlaut síðar nafnið Unnarskarð til heiðurs heimasætunni knáu frá Munaðarnesi sem fann leiðina á fjall æsku sinnar. Skarðið er ekki fyrir þá allra lofthræddustu. Lína er þá sett upp til að tryggja þá sem finna til óöryggis.

Ferðafélag Íslands kallaði til öflugan hóp sjálfboðaliða og lét stika leiðina að Glissu.

Eftir að frænkurnar ruddu brautina héldu þær í aðra ferð þá Glissu en þá með fulltrúa Ferðafélags Íslands. Þríeykið toppaði Glissu á sólbjörtum degi með útsýni sem seint verður metið. Í norðri sást Kálfatindur á Hornbjargi og þar sunnar Geirólfsgnúpur og svo Drangaskörðin, sannkallað augankonfekt. Í austri sjást fjöllin á Skaga. Spákonufell rís þar hvað hæst og suðri blasir við konungurinn sjálfur, Lambatindur, hæsta fjall á norðanverðum Ströndum. Á efsta tindi Glissu er stallur sem fjallagarpar geta staðið og notið þess að vera í hæstu hæðum. Lofthræddum er þó ráðið frá því að koma sér fyrir þar því stallurinn er þverhnýptur. Ekki þarf að binda um nein sár hjá þeim sem þar fellur fram af.

Frænkurnar og frumherjarnir, Unnur Pálína og Guðrún.

Ferðafélag Íslands tók ákveðnu ástfóstri við Glissu. Í þoku getur verið villugjarnt af Smalaveginum um melana og á topp fjallsins. Það var því ákveðið að stika leiðina á efsta tind. Hópur sjálfboðaliða félagsins lagði á heiðina og merkti vegfarendum leið að Unnarskarði og síðan upp eftir hryggnum. Síðan hafa margir hópar á vegum félagsins lagt á fjallið. Þokan er landlæg fyrir norðan. Því hafa margir farið á fjallið í þoku. Þá er dulúðin ríkjandi. Stundum ná göngumenn að fara upp úr þokunni. Þá er eins og baðmullarbreiða þekji landið en stöku tindar skjóta upp kollinum. Kálfatindar í Norðurfirði, Vaxtrarhyrna og Nónhyrna eru á meðal þeirra sem ná að brjótast upp úr Strandaþokunni. Göngumaðurinn er sem bergnuminn í sólskini eftir að hafa gengið hátt í 5 kílómetra leið í svartaþoku þar sem klettar taka á sig kynjamyndir og vekja hroll. Skyndilega er svo sólin allsráðandi.

- Auglýsing -

Sá sem er efst á Glissu eftir 5 kílómetra göngu og 400 metra hækkun upplifir himneska ró. Það er eins og töfrar leggist yfir göngumanninn sem situr vegamóður í faðmi skessunnar, drekkur kaffið sitt og borðar nestið sitt. Þarna er auðvelt að gleyma sér um stund og finna þreytuna líða úr lúnum beinum. Þá reikar hugurinn gjarnan til liðinna tíma þegar þjóðleiðin í Árneshrepp lá um Trékyllisheiði, meðfram Glissu og niður að Melum. Það fer hrollur um göngumanninn þegar hann hugsar til slíkra ferða um fjallið að vetri til þegar snjóar og ofviðri hamla gjarnan för og harðneskjan er við hvert fótmál. Slík ferðalög hafa kostað mannslíf. Seinasta harmsagan á heiðinni átti sér stað veturinn 1908 þegar Samson Jónsson gekk norður heiði með 12 ára son sinn. Samson hlustaði ekki á varnaðarorð um að veður færi vaxandi og gekk inn í sortann. Feðgarnir villtust og grófu sig í fönn í grennd við Djúpavík á Ströndum. Þar dó drengurinn.

Gæðastund á toppnum í sólskini. Kálfatindar í Norðurfirði í baksýn.

Af Glissu er í bjartviðri frábært útsýni yfir Ófeigsfjarðarheiði þar sem ótal vötn mynda fallega heild. Vatnalautarvötnin eru þeirra stærst. Svo eru þarna Hvalárvötn og sjálf Hvalá sem rennur kraftmikil um fossa og flúðir niður í Ófeigsfjörð. Allt þetta og himininn líka, eins og skáldið sagði. Neðan við Glissu er Reykjarfjörður, annar tveggja á Ströndum. Fyrir botni fjarðarins er bærinn Reykjarfjörður sem áður var býli. Jörðin er nú í eyði en með sumarbústað í eigu fyrrverandi bankastjóra. Við sunnanverðan fjörðinn er rómað sveitahótel í Djúpuvík.

Nafnið Glissa á sér ekki einhlítar skýringar. Í gömlum kortum er fjallið nefnt Glifsa. Gunnsteinn Gíslason, fyrrverandi kaupsfélagsstjóri í Norðurfirði, er manna fróðastur um örnefni og sögu á svæðinu. Hann telur að nafnið þýði gleið skessa. Skýringin liggur í formi fjallsins sem er V-laga. Ein kenning er sú að nafnið komi úr gelísku. Aðrar skýringar á nafninu eru ekki á takteinum. Eitt er þó á hreinu. Þetta er eina fjallið á Íslandi sem heitir Glissa.

- Auglýsing -

 

Glissa er tignarleg. Gönguleiði upp er vinstra megin á myndinni.
Mynd: Guðrún Gunnsteinsdóttir

Heimleiðin er léttari en gangan á fjallið. Göngumaðurinn stingur sér niður í þokuna aftur og fylgir stikum Ferðafélags Íslands að Smalaveginum. Í hrollkaldri þokunni er gott að hugsa til sundlaugarinnar og heita pottsins í Krossnesi. Leiðin liggur meðfram Haugsfjalli sem fyrr á árum var vinsælt að ganga á frá Eyri í Ingólfsfirði. Sagan um hvítvoðunginn á vörubílspallinum og hrafnana er gjarnan sögð.

Fyrr en varir lýkur göngunni. Banki minninganna geymir upplifun dagsins og maðurinn lofar að koma aftur við tækifæri. Í heita pottinum í Krossneslaug lygnir göngumaður aftur augunum og fer yfir upplifanir dagsins. Inni í sortanum bíður Glissa þess með opinn faðm að taka á móti fleiri gestum.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -