Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Vinur minn jarðsunginn í dag: „Guðmundur er ekki smali, hann er fjallkóngur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það var þungbært að fá þá harmafregn að Guðmundur Jón Sigurðsson væri látinn. Hann hafði glímt við krabbamein en vonir stóðu til þess að hægt væri að halda þeim vágesti í skefjum. Það fór á annan veg.

Við Gummi Sig, eins og hann var jafnan kallaður, vorum aldavinir um áratugaskeið. Aldrei bar skugga á þá vináttu. Við heyrðumst oft í viku og hittumst þegar aðstæður leyfðu. Ef eitthvað bjátaði á var Gummi ævinlega til staðar og veitti ráðgjöf eða stuðning. Eitt sinn var ég að kaupa íbúðarhús og það vantaði nokkrar milljónir króna upp á að ég gæti staðið við útborgunina á tilsettum degi. Gummi hringdi í mig á þeim tímapunkti sem ég var að vandræðast með málið og velti fyrir mér hvernig ég gæti greitt úr því. Hann sagðist, mér til undrunar, þurfa að rjúka en kvaðst hringja í mig aftur eftir nokkrar mínútur. Eftir stutta stund hringdi hann og spurði um reikningsnúmerið mitt. „Ég er staddur í bankanum. Hvað á ég að leggja mikið inn á þig,“ spurði hann. Ég maldaði í móinn og sagðist ekki hafa verið að biðja hann um peninga. Hann sagðist þá ekki hafa tíma til að standa í einhverju þrasi um slíka smámuni. Peningarnir komu inn á reikninginn og útborgunin kláraðist. Ekki beðið um neinar tryggingar. Eftir nokkra daga greiddi ég honum til baka. Þessi greiði er lýsandi fyrir Gunma. „Þegar vinir manns eru í vanda kippir maður málum í liðinn,“ var viðkvæði hans. Ef drífa þurfti í einhverjum málum talaði hann um að „setja í sig hrygg“. Þetta er ágætis orðatiltæki sem ég hef síðan tileinkað mér.

Guðmundur ásamt vini sínum, Guðbergi Guðnasyni, sem lést fyrir hálfu öðru ári síðan.

Guðmundur átti sér fjölmargar hliðar. Hann var stríðinn og gamansamur með einstakt hjartalag. Þó verður ekki annað sagt en að hann hafi verið átakasækinn á köflum. Við höfum oft snúið bökum saman á lífsleiðinni og tekið slaginn. Margir geta vitnað um hjálpsemi Gumma og góðsemi. Hann var ævinlega tilbúinn að hlusta á fólk og koma því til hjálpar. Merkilegt er þó að hann leitaði sjaldnast eftir hjálp sjálfur. Mér er minnisstætt þegar hann frétti af því að brottflutt fjölskylda frá Flateyri átti í miklum fjárhagskröggum. Hann fór í heimsókn á aðventunni með jólakort. Hann laumaði 50 þúsund krónum í seðlum með í umslagið svo fjölskyldan gæti haldið gleðileg jól. Sælla er að gefa en þiggja.

Það gekk kraftaverki næst að Guðmundur skyldi lifa af slysið við Djúpmannabúð.

Gummi svaraði yfirleitt alltaf strax þegar ég hringdi. Eitt sinn brá svo við að hringingarnar urðu margar og ekkert svar. Ég vissi að hann var í Djúpmannabúð í Ísafjarðardjúpi að bíða eftir varahlutum í rútu sem hafði bilað. Eftir nokkrar hringingar var svarað í síma Guðmundar. Mér til undrunar var það rödd konu sem hljómaði vandræðaleg. Ég kynnti mig. Ég heyrði að hún kallaði að Reynir væri í símanum. Ég heyrði ekki svarið en hún sagði mér að Gummi hefði sagst vera upptekinn og kvaddi í snatri. Það sem ég vissi ekki var að Gummi var undir rútunni að vinna í haginn fyrir viðgerðina. Bíllinn stóð í brekku og þegar hann var búinn að losa drifskaftið rann bíllinn af stað og eitt hjól rútunnar lenti ofan á brjótskassa Gumma sem var fastur og sárkvalinn undir bílnum og sendi mér þau skilaboð, æðruleysið uppmálað, að hann væri upptekinn. Það tók óratíma að ná stórslösuðum manninum undan bílnum. Hann var fluttur suður með sjúkraflugi og var lengi að ná sér eftir slysið.

Frétt DV árið 1989.

Annað dæmi um slys var þegar hann lenti í snjólflóði í Kinninni á Breiðadalsheiði þar sem hann var á ferð með Gígju, þáverandi konu sinni. Snjóflóðið henti bílnum ekki út af veginum en þungi þess pressaði bílinn saman. Hjónin urðu að halla sér út á hlið á meðan bíllinn var að ganga saman. Fyrstu orð Guðmundar voru mælt fram af yfirvegun, miðað við hrikalegar aðstæður. „Nú, erum við í klandri,“ sagði hann. Björgunarsveitarmenn komu á staðinn og grófu sig niður á bílinn og björguðu hjónunum ósködduðum úr snjóflóðinu.

Guðmundur starfaði oft sem bifreiðastjóri.

Gummi var einstaklega mannblendinn og átti kunningja um allt land. Hann var sannfærður krati og hjálpaði sínum mönnum, Karvel Pálmasyni og Sighvati Björgvinssyni, við að sópa saman atkvæðum fyrir þingkosningar. Hann fékk á sig það orð að vera kraftaverkamaður á sviði atkvæðasmölunar. Þar kom að frambjóðendur annarra flokka vildu fá hann til liðs við sig. Hann var fús til þess en forðaðist lengst af frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins. En svo brustu þær hömlur þegar sveitungi okkar, Einar Oddur Kristjánsson framkvæmdastjóri, vildi komast á þing. Guðmundur ferðaðist með honum um allt kjördæmið og lagði þær línur sem dugðu til þess að frambjóðandinn varð þingmaður. Eitt sinn ræddum við Einar Oddur um frammistöðu Guðmundar sem þá var gjarnan kallaður „Smalinn“. Ég nefndi aðkomu Smalans að sigrinum. Einar Oddur brosti og sagði ákveðið: „Guðmundur er ekki smali. Hann er fjallkóngur“. Það eru orð að sönnu.

- Auglýsing -
Guðmundur og Björn heitinn Hafberg brölluðu margt saman.

Vinátta okkar Gumma hófst á Flateyri. Við þekktumst auðvitað frá því hann var barn en aldursmunurinn var sex ár. Vinskapurinn hófst í framhaldi af ritdeilu sem við stóðum í. Ég man ekki lengur efni deilunnar en þar var nefndur til sögu asnalegur hundur minn og fleira í þeim dúr. Það kætti einhverja í þorpinu að við værum komnir í hár saman. Sannleikurinn er hins vegar sá að við sýndum hvor öðrum greinarnar áður en þær fór í prentun. Og við urðum vinir.

Ég var um árabil fréttaritari DV á Flateyri en hann tók við því hlutverki þegar ég flutti suður. Eftir snjóflóðið flutti Guðmundur til Reykjavíkur ásamt fjölskyldu sinni. Við Gummi fórum saman nokkrar ferðir út á land til að afla frétta fyrir DV. Það voru óborganlegar stundir. Ég var með það hlutverk að taka myndir en hann sá um viðtölin. Hann hafði einstakt lag á að fá fólk til að tala og var algjörlega ófeiminn við að banka upp á þar sem við átti og fregna var að vænta. Texti hans var í senn litríkur og lipur. Um tíma annaðist hann ættfræðiskrif DV og gerði það með sóma og sparaði ekki sporin til að elta uppi afmælisbörnin. Seinna skrifaði hann stórgóð viðtöl fyrir Mannlíf. Blaðamennskan lá vel fyrir honum.

Guðmundur var með fróðari mönnum, víðlesinn og glöggur á samtíma sinn. Það var segin saga ef mig vantaði upplýsingar um eitt og annað þá hafði ég samband við Guðmund sem oftar enn ekki átti svarið. Seinast þegar ég átti slíkt erindi við hann var skömmu áður en hann lést. Þá skrifaði ég nokkur minningarorð um Jón Gunnar Stefánsson frá Flateyri og vantaði upplýsingar sem Guðmundur veitti umsvifalaust.

- Auglýsing -
Guðmundur Sigurðsson og greinarhöfundur nokkrum dögum áður en hann lést.
Mynd: Sigurdór Sigurðsson.

Við Gummi áttum saman góða stund nokkrum dögum áður en hann lést. Hann bjó heima hjá Sigurdóri bróður sínum og Sillu konu hans sem hlúðu að honum á seinustu metrum lífshlaupsins. Stríðið hafði harðnað. Dagarnir voru misjafnir hjá honum en ég var svo heppinn að honum leið bærilega þegar mig bar að garði. Við ræddum saman heima og geima eins og ævinlega. Dauðann bar á góma. Hann brosti, yppti öxlum og sagði eitthvað í þá veru að það þýddi ekkert að ergja sig á stöðunni. Þetta væri leiðin okkar allra. Æðruleysið var á sínum stað eins og ævinlega. Hann horfðist í augu við örlög sín.

Við leiðarlok er það huggun harmi gegn að hafa náð kveðjustund með mínum trausta vini. Takk fyrir samfylgdina, minn kæri. Farðu í friði. Ég votta fjölskyldu Guðmundar mína dýpstu samúð. Mikill er missir þeirra.

Reynir Traustason.

Athugasemd: Þessi grein birtist ekki í Morgunblaðinu sem gerir sér minningargreinar að féþúfu og rukkar jafnt syrgjendur sem aðra fyrir aðganginn. Hún verður aftur á móti birt á opinni síðu, minningar.is þar sem er að finna fleiri minningagreinar um Guðmund Jón. 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -