Föstudagur 25. október, 2024
1.5 C
Reykjavik

Gulldrengur í gildru Bakkusar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eiður Smári Guðjohnsen er einn af gulldrengjum Íslands. Um langt árabil hefur hann gert þjóðina stolta og gefið henni sterkari sjálfsmynd með sigrum sínum á heimssviðinu. Hann er sá Íslendingur sem náð hefur lengst í knattspyrnuíþróttinni. Ferill hans hjá stærstu knattspyrnuliðum heims er glæsilegur og hefur blásið mörgum eldmóð í brjóst. Hann var fyrirmynd ungra drengja sem komust að því að heimurinn stæði þeim opinn og ekkert væri ómögulegt.

En frægðinni fylgja skuggahliðar. Eiður er, eins og fjölmargir aðrir, veikur fyrir áfengi. Hann hefur gengið þann þyrnum stráða veg sem fylgir baráttunni við Bakkus. Eftir að hafa lagt skóna á hilluna sneri hann sér að þjálfun en það hallaði stöðugt undan fæti. Fréttir bárust af honum dauðadrukknum í niðurlægjandi aðstæðum í miðborg Reykjavíkur. Áður hafði hann verið slompaður í sjónvarpsþætti. Glíman við Bakkus og ósigrarnir voru fyrir allra augum. Vandi Eiðs er sá að hann er opinber persóna sem þjálfari landsliðsins og krafan til hans er ríkari en til almennings. Niðurlæging hans er því fyrir opnum tjöldum.

Áfengi er við hvert fótmál í samfélaginu. Freistingarnar eru alls staðar. Meira að segja Knattspyrnusamband Íslands stendur fyrir því að halda áfengi að leikmönnum eftir að mótum eða leikjum lýkur. Þetta er til skammar og fall Eiðs felst að hluta í þeirri freistingu sem vinnuveitendur hans stóðu fyrir. Vilhjálmur heitinn Hjálmarsson var á sínum tíma menntamálaráðherra. Hann lagði bann við því að ráðuneyti hans væri með áfengi á boðstólum í veislum. Þetta mættu fleiri gera. Þar með talið Knattspyrnusambandið sem elur á ómenningu. Þótt stærri hluti fólks kunni með áfengi að fara þá eru fjölmargir sem falla fyrir freistingum með tilheyrandi böli.

Bakkus dregur fólk inn í eymd og niðurlægingu

Eiður Smári er að fást við sjúkdóm sem lagt hefur líf fjölmargra í rúst. Hann er nauðugur á þessum stað í lífinu. Eins og rekald í bálviðri. Það er nauðsynlegt fyrir okkur, samborgara hans, að átta okkur á því að hann er að ganga í gegnum harmleik lífs síns. Hann vill ekki vera ranglandi um drukkinn og ruglaður. Það vill enginn, en Bakkus dregur fólk inn í eymd og niðurlægingu. Þetta er því spurning um að koma fólki í þessum aðstæðum til hjálpar.

Við eigum að virða það sem Eiður Smári hefur gefið þjóðinni og hafa hugfast hversu mikilvægur hann hefur verið okkur. Forðumst að fordæma hann en reynum frekar að leggjast á árarnar með honum og öðrum þeim sem glíma við fíkn. Eflum forvarnir og leggjum meiri fjármuni í hjálparstarfið sem unnið er af SÁÁ og öllum þeim sem vinna gegn einu stærsta meini mannkyns. Munum að fíklum er ekki sjálfrátt. Við getum svo sameinast í þeirri von að Eiður Smári nái tökum á vanda sínum og snúi aftur tvíefldur sem þjálfari landsliðsins eða hvar sem þekking hans og kraftar nýtast.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -