Sauðkindin hefur um aldir verið lífsbjörg Íslendinga ásamt sjávarútveginum. En eins og í öllu lífríkinu þá verða uppákomur sem skilja á milli lífs og dauða. Riða er óhugnanlegur sjúkdómur sem veldur því að skera þarf niður allt fé sem hefur komist í snertingu við hina sýktu. Nýverið fengu Íslendingar enn eina áminningu um þetta skaðræði þegar riða kom upp í fé í Miðfirði. Bændur gengu í gegnum þann harm að þurfa skera niður fjárstofn sinn og byrja aftur á núllpunkti. Nokkur ár verða að líða áður en þeir mega hefja fjárskap á jörð sinni að nýju. Allt nágrenni hinna sýktu búa er í gjörgæslu og reglulega tekin sýni til þess að einangra vágestinn.
Hrollvekjan í Miðfirði undirstrikar mikilvægi þess að halda uppi svæðum sem eru ígildi sóttvarnarhólfa. Árneshreppur á Ströndum er dæmi um hreint svæði þar sem riða hefur ekki komið upp. Hreppurinn er afskekktur og að óbreyttu öryggishólf fyrir þjóð sem byggir stóran hluta afkomu sinnar á sauðfjárrækt.
Vandinn er hins vegar sá að stjórnvöld hafa látið það gerast að hvert sauðfjárbýlið af öðru hefur verið lagt niður í hreppnum. Nú er staðan sú að einungis eru fjögur býli með sauðfjárrækt í sveitinni. Innan við 1.500 kindur eru á svæðinu. Á undanförnum áratugum hefur orðið gríðarleg fækkun á sauðfé í sveitinni og nú hangir sauðfjárbúskapur þar á bláþræði. Sú staða lýsir taumlausri heimsku stjórnvalda.
Stjórnvöld gerðu réttast í því að snúa þessari þróun við og styrkja fólk til að hefja sauðfjárbúskap í Árneshreppi eða efla þau bú sem fyrir eru. Sú aðgerð þarf ekki að kosta háar fjárhæðir en ávinningurinn yrði tvímælalaust mikill og snýst í raun um matvælaöryggi þjóðarinnar. Samhliða mætti grípa til aðgerða til að efla sjávarútveg heimamanna með því að umbuna þeim sem vilja setjast að í sveitarfélaginu. Með því móti yrði skotið fleiri stoðum undir byggð á svæði sem gæti orðið líflína íslensks landbúnaðar. Miðfjarðarmálið þarf að verða til þess að stjórnvöld vakni og tryggi þjóðina til framtíðar.