Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Maðurinn minn er múslimi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég er gift manni sem fæddist flóttamaður, já það er hægt að fæðast sem flóttamaður. Hann er palestínskur en hefur þó aldrei til Palestínu komið. Hann fæddist í Líbýu ólst upp í Saudi -Arabíu en fluttist til Sýrlands um 17 ára aldurinn. Þaðan neyddist hann svo til þess að flýja hið hrikalega stríð sem geisað hefur þar í fjölmörg ár og er enn yfirstandandi. Hann er menntaður hugbúnaðarverkfræðingur og grafískur hönnuður. Hann hefur áralanga reynslu og farsælan feril að baki í Sýrlandi auk þess sem hann átti eigið fyrirtæki sem framleiddi osta og jógúrt. Hann átti hús, bíla og tvö börn sem vegna óvæntra atburða komu aldrei á eftir honum frá Sýrlandi. Hann hitti dóttur sína síðast þegar hún var þriggja ára og son sinn sá hann tæplega mánaðar gamlan síðast. Í dag eru þau tíu og sjö ára og búa enn í Sýrlandi því miður. Þrátt fyrir að hafa fæðst í Sýrlandi eru þau flóttamenn þar í landi og fæddust þannig alveg eins og faðir þeirra.

 

Moria búðirnar á Grikklandi. Þarna bjó maðurinn minn í 5 mánuði.
Það er hingað sem stjórnvöld senda flóttafólk og segja það nógu gott fyrir það
Myndir þú vilja búa þarna með börnin þín ?
Það er illa hægt að gera sér í hugarlund óskapnaðinn í þessum búðum
Ekki er ég hissa að fólk sem sent er aftur í þetta helvíti á jörðu, fyrirfari sér frekar en að lifa þarna

 

Ég hef, auk þess að vera gift múslima kynnst mjög mörgum slíkum í gegnum sjálfboðaliðastarf mitt hjá Rauða Krossinum. Fólkið sem ég hef kynnst er yndislegt í alla staði og á það allt sameiginlegt að vilja vinna fyrir sér sjálft og vera ekki upp á neinn komin. Mér lærðist það fljótt að í þeirra uppeldi þeirra þykir það skömm ef maðurinn getur ekki séð fyrir sér og sínum. Konurnar mega auðvitað vinna en þær þurfa þess ekki ef þær vilja það ekki sjálfar. Kjósi þær að vinna utan heimilis fara þau launin 100 prósent í þær sjálfar. Þvert á það sem vitfirringar eins og ISIS og Jabhat al nusra (hryðjuverkasamtök) halda fram svo fólk trúi í blindni, er konan samkvæmt Íslam í hávegum höfð og fyrir henni borin mikil virðing. Saudar hafa svo sem ekki hjálpað til með sinni framgöngu og eigin túlkun á Kóraninum sem er langt frá því að vera í líkingu við hinn sanna upprunalega Kóran. Hér að baki er löng saga sem ekki verður farið út í hér en það finnast svartir sauðir í mörgu fé, ekki bara því arabíska. Ég sjálf er ekki múslimi, ég tilheyri þvert á móti engu trúfélagi. Maðurinn minn þrífur heimilið, hann eldar, hann sinnir þörfum barnanna, það eru nú alls ekki allir íslenskir karlmenn sem gera það sama. Hann á mjög náið og fallegt samband við fjölskylduna sína og virðingin sem ríkir á milli þeirra er mögnuð. Við hlutum eins ólíkt uppeldi og hugsast getur á, hvort á sínum staðnum í heiminum en samt eigum við margt sameiginlegt. Við höfum klárlega bætt hvort annað og frætt.

Hann fær ekki svo mikið sem eitt atvinnuviðtal og alls ekki vinnu. Því miður er hann ekki eini arabinn í þessarri stöðu né eini útlendingurinn ef út í það er farið. Hann hefur leitað og sótt um gjörsamlega öll störf og honum er nákvæmlega sama við hvað hann fær vinnu, hann vill bara vinna. Það er engin vinna fyrir neðan hans virðingu, ólíkt því sem hrjáir marga samlanda mína. Já það er búið að vera óvenjulegt og slæmt ástand í þjóðfélaginu í rúmt ár EN þetta er ekkert nýtt því miður.

Maðurinn minn eldar besta mat sem ég hef smakkað

Þekkt er að þeir sem sjá um að fara í gegnum atvinnuumsóknir fái þau fyrirmæli að einfaldlega henda umsóknum umsækjenda sem ekki hafa íslenskt nafn sem teljast má fáránlegt og að auki heimskulegt því ég hélt að allir vissu að Íslendingur getur borið erlent nafn. Ég veit um Íslendinga og útlendinga sem hafa breytt nöfnum sínum til þess að minnka líkur á að umsókn þeirra verði sniðgengin og hafi því ef til vill von um að reynsla þeirra, menntun og hæfileikar ráði því hvort þau fái yfirhöfuð viðtal. Þetta er allt annað en í lagi ! Annað sem einnig  líðst líka er að ef fólkið fær vinnu er brotið á því hægri vinstri og því borguð algjör lágmarkslaun. Það þykir oft á tíðum sjálfsagt að brjóta á flóttafólki eða fyrrum flóttafólki því það fólk vill alls ekki vera með vesen og er í stöðugum ótta við Útlendingastofnun og að því verði refsað. Fólkið lætur oftar en ekki yfir sig ganga alls konar ósæmilega hegðun því það veit að það var þó heppið að fá einhverja vinnu og vill alls ekki missa hana.

- Auglýsing -

Þannig er mál með vexti að ég hef komist að því að hér á Íslandi viðgengst töluvert kynþáttahatur. Það þarf ekki að leita lengi til þess að finna miður falleg ummæli fólks um flóttafólk, sem sett eru sem ,,komment“ undir fréttir og bara hvar sem glufa er til að troða inn mjög ógeðfelldum ummælum um fólk sem hefur gengið í gegnum hræðilega hluti sem fæst okkar geta varla ímyndað sér. Til eru svo ofan í kaupið hópar sem gefa sig sérstaklega út fyrir það að vera á móti því að Ísland taki við flóttafólki og einnig hópur sem opinberast undir þeim formerkjum að vera á móti byggingu mosku á Íslandi. Það þarf ekki að skoða lengi til þess að sjá að megnið af þeim sem tjá sig eru hreinir og klárir kynþáttahatarar. Megnið af öllum þessum fordómum snúa að fólki sem kemur frá arabalöndunum eða múslimum.

 

Kynþáttafordómar er eitt það ljótasta sem til er

 

- Auglýsing -

 

Ég dauðskammast mín fyrir hegðun margra samlanda minna auk þeirra sem hafa hátt um kynþáttafordóma sína. Þeir sem segja ekkert bera einnig sök, sá hópur er all fjölmennur. Mig langar að minnast á svo margt og útskýra svo margt en það mun ekki rúmast í einum pistli, því miður. Það, að árið 2021 séum við hér á Íslandi ekki betur stödd hvað varðar mannréttindi og mannúð, er ofar mínum skilningi.

Það sem ég hef upplifað sjálf er margt, iðulega er glápt á okkur og sjaldnast með fallegum svip og oft heldur fólk að við séum öll útlendingar því við tölum saman á ensku yfirleitt og þar að auki talar yngsti sonurinn ensku við manninn minn. Ég læt ógert að hafa eftir það sem ég hef heyrt fólk segja, það nægir að segja að það sé síður en svo fallegt. Ég hef ekki einu sinni sagt manninum mínum frá í öll skiptin, vegna þess að ég dauðskammast mín og hann verður mjög leiður. Ég hef líka verið spurð af fólki sem ég þekki hvort hann sé ekki góður við mig og þá í meiningunni, er hann nokkuð að lemja þig eða annað í þeim dúr. Ég tek þannig spurningum fagnandi því þá get ég frætt fólk og sagt því, að í hans uppeldi er hreinlega stranglega bannað að lemja kvenfólk og að það sem fólk haldi, vegna hluta sem dynja á okkur í fjölmiðlum, eigi sér yfirleitt ekki stað nema um sé að ræða öfgasinna og hafa túlkað Kóraninn á sinn eigin hátt.

Að lokum langar mig að segja að fordómar eru sprottnir af vanþekkingu en sá sem er með opinn hug og fallegt hjartalag getur losað sig við fordóma einfaldlega með því að gleypa ekki allt hrátt sem kemur fram í fjölmiðlum eða halda að þar sé allt sannleikanum samkvæmt. Kynþáttahatur er svo annað og verra viðureignar því fólk sem það aðhyllist er sjaldnast tilbúið til að hlýða rödd skynseminnar né leita sér fræðslu. Þetta er fólkið sem leitar sérstaklega eftir öllu sem styður eigin brengluðu hugsun og  leitarniðurstaðan er ávallt sú sama. Hún er sönn ef hún endurspeglar ljóta eða neikvæða hluti. Ég vorkenni svona fólki mjög mikið því það hlýtur að vera eitthvað mikið að. Viljum við Íslendingar vera þekktir fyrir það að láta kynþáttahatur og slíkan ófögnuð skilgreina okkur sem þjóð ? Viljum við halda áfram að útskúfa harðduglegu fólki og oft sprenglærðu sem vill vinna ? Viljum við ala börn okkar upp í því að hata ákveðna hópa ? Ég segi nei, nei og nei.

 

Öll erum við manneskjur, einstaklingar sem eiga rétt á því að lifa í öruggu umhverfi

 

 

Hér að neðan má sjá örfá dæmi af mjög mörgum þar sem sumir Íslendingar  tjá sig um múslima. Tekið skal fram að stafsettning og orðalag er óbreyt.

 

Lýstu Ìslam ì einu orði. Èg skal byrja: Langsòtt.

Raða stöfunum uppá nítt þá er það Mísla. Út meðð Íslam.

Níð

Ógeð

Viðbjóður..

Öfgar

Evil

Morð !

Mannréttindabrot

Landssótt

Rasismi, mannréttindabrot.

Alveg sama aðferðarfræðin og nákvæmlega eins og hjá hinum katþólsku fyrir um 1300 árum. Halda öllum niðri í eymd og fáfræði og ótta. Eyðileggja allt sem forn menning hafði upp á að bjóða og allar menjar um hana. Brenna bókrollur sem tengdust ekki Biblíunni. Hjá Múslimum Kóraninn. Auðsöfnum á fárra manna hendur og þeir sem vildu ekki játast kristni voru hreinlega drepnir. Samanber Ólafur Tryggvason Noregskonungur. ( 964 – 1000 ). Einkennandi fyrir Abrahamstrúarbrögðin. Djöfuldómur helvískunnar.

Menn sem ætla sér að bera saman íslam og önnur trúarbrögð þurfa að fara að opna bók.

Útskúfun

Niður Drepandi ….

Júðakústur.

Sandnegri

Fáfræði

Íllt

Kvennakúgun

Viðbjóður

 

Oj allsstaðar reynir þessi óþverri að troða sér að

 

Mokum múslimum í gíginn….

 

Eg skil samhengið, hendið öllum islamistum á hraunið ef þeir komast til baka mega þeir lifa áfram.

 

Þeir trúa báðir á sama djöfulinn og kalla hann Drottinn! Sá skratti vill hatur, ótta, sundrung og ófrið.

 

HRÆSNARAR OG MORÐINGJAR.

 

Kvartvitar

 

Það er ekkert nýtt að trúir vilja stjórna fólki og hvað það segjir og gerir, það kemur hinsvegar miklu skýrara út í Islam og eins og þessi tappi segjir ef þú ert ekki innan Islam’s gætiru alveg eins verið dauður í þeirra augum

 

Stopp Íslam

 

Banna íslam í evropu

 

That’s awesome vel gert Sviss, engar moskur og burt með barnaníðinga, og ógeðis barnabrúðkaup ég meina hvað er það eiginlega? leyfisbréf fyrir pedo ? Oj viðbjóður

 

Allt sem viðkemur múslímum ætti að bannfæra það veit evrópa vel.

Lestu og reyndu að skilja. Trúarbrögð hafa kúgað konur frá uphafi. Það er ekki verið að vernda konur með þvi að vernda trúarbrögð. Það er verið að viðhalda því sem venju að fara illa með konur.

 

Mér finnst að það ætti að senda alla til baka sem geta ekki þulað upp Kóraninn!

 

Ekki kemur þetta á óvart. Svona eru múslimar upp til hópa því miður

 Fjölmenningin er frábær og í boði góða fólksins.

Finnum tetta góða fólk, tölum adeins við tau og snúum tessarri tróun við.

Ekki meira skítapakk til landssins og rekum restina til heimalandsins.

Hafa allir gleymt fjölskylduföðurnum og glæpahyskinu hans ?

 

 Þetta virðist leitt en er þetta ekki stefna Katrínar Jakobsdóttur með innblástri Dags B.Eggjertsonar að fylla megi allt af múslímum á Íslandi þar sem vitað er frá nágranna löndunum að hið sterkara kynið gerir akkúrat það sem það vill gagnvart veikara kyninu þá þegar þeir eru búnir að beisla sína eiginkonu fasta á heimilinu og hún vogar eingu vegna hræðslu um sinn eigin dauða. Haldið þið Íslendingar áfram að flytja inn múslíma gef ég ykkur 10.ár að þá er þjóðinn öll. Góða skemtun.

 

 Hvers vegna er þessum óvelkomnu hælisleytendum ekki vísað samstundis úr landi.?

Þetta fólk í ráðherrastöðum og innflytjendamálum, er gjörsamlega þekkingarlaust og ónýtt.!

Og Píratarnir með George Soros, vilja flytja þetta skíta-pakk til landsins.

Til fjandans með alla þessa hælisleytendur.! Burt með alla múslima.!

Vonandi fær hann almennilega lexíu af islenskum föngum sem aðrir muslimaskrattar frétta sem viðvörun.

 Rauði krossinn á nógan pening til að verja litlu mússana sína

 Hvað margir af þessum fjandans svokölluðum flóttamönnum eru í fangelsi á    Íslandi í dag svar óskast strax: Of margir og þeim fer óðum fjölgandi! Hlutfallslega er þetta orðin „stór grenjandi minnihluti.“

 Vandinn er að þeir sem aðhyllast íslam hafa allt annað kerfi gilda en við. Þetta snýst ekki um hatur á einum eða neinum.

Á Vesturlöndum trúum við á jafnrétti. Ekki svo innan íslam.

Á Vesturlöndum er lýðræði. Ekki svo innan íslam enda lýðræði manngert kerfi sem er síðra íslam – segja íslamistar.

Á Vesturlöndum trúum við á málfrelsi. Ekki svo innan íslam.

Í t.d. kóraninum segir ýmislegt miður gott um þá sem ekki eru múslimar. Múslimar telja sig betri en aðra og hafa við súru úr kóraninum að styðjast í þeirri trú sinni.

Fáfræði fólks varðandi íslam er mikið vandamál.

það er greinilegt að innleggshöfundur veit mjög lítið um málefni sem hann er að tala um... muslimar eiga að vingast við okkur „þessi trúlausu“ (eins og við sem ekki erum islam erum kölluð í fræðum þeirra) … en mega ekki eiga okkur að vinum… þetta virðist eitthvað flækjast fyrir fólki sem gerir ekki greinarmun á smjaðri og vináttu… þeim er einnig kennt að ljúga að okkur „þessum trúlausu“ ef það er málstað þeirra til hagsbóta…. af þeim sökum veit maður aldrei hvar maður hefur muslimann… það er hægt að halda endalaust áfram ….

ertu viss um að þú sért með opin augun? þú veist ekkert um islam nákvæmlega ekkert … það er vandamál við fólk eins og þig … þið segist ekki hata neinn .. en eruð að verja þá sem hafa fengið hatursfullt uppeldi og fræðin þeirra banna þeim eitt og annað sem þú hefur alist upp sem sjálfsögðum hlut… og kolfallið svo fyrir smjaðrinu og haldið að það sé vinátta…. ég er með reynslu af þessu sjálf….

Ég þarf ekki að lesa kúranin til að vita að þetta er enn ein abrahmisk viðbjoðsleg trú sem toppar allar hinar þegar það kemur að kvenna hatri og öfgafullum trúarlegum hugmyndum. Afhverju ætti ég að lesa þá bók þegar hún kennir ekkert nema illsku og hatur?

 

 

Líf allra skiptir máli

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -