Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Heilsupistill þunglyndissjúklings í yfirþyngd

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það súpa sjálfsagt margir hveljur þegar þeir sjá að ég er með heilsupistil. Það er að segja það fólk sem þekkir mig vel. En þetta er nú samt staðreyndin.

Byrjum á smá forsögu um mína yfirþyngd. Ég var feitt barn, þybbinn krakki og grindhoraður unglingur. Ég var alltaf í íþróttum, spilaði fótbolta, körfubolta og bandý og var í hinu þokkalegasta formi. Ég var líka í íþróttaráði í menntaskólanum og mikið viðriðinn íþróttirnar, þótt ég hafi aldrei náð neinum sérstökum árangri, fyrir utan brons í borðtennismóti Trékyllisvíkur í kringum 1987 og nokkra Austurlandsmeistaratitla í sveitaskák. Þegar ég var tvítugur var ég 68 kíló en ég er 178 sentimetrar á hæð, þó að ég stefni á að ná 180 sentimetrum með því fá sigg á iljarnar. Núna er ég 126 kíló. Látið það sökkva í vitund ykkar. Ég var meira segja orðinn 134 kíló þegar verst var, en með hjálp sykursýkislyfsins Saxenda, náði ég að missa 10 kíló á stuttum tíma, en hef svo bætt tveimur við aftur. En af hverju fitnaði ég svona mikið á rúmum 20 árum?

Það er vísindalega sannað að við sitjum uppi með þær fitufrumur sem við fæddumst með, þótt við getum minnkað þær með stífum æfingum og bættu mataræði. Og ég fæddist með stórar fitufrumur og má því hvergi slaka á. Þegar ég finn lykt af súkkulaði bætist á mig kíló. Þegar ég var 26 ára byrjaði ég í ástarsambandi við barnsmóður mína, en eins og svo margir sem byrja í sambandi þá bætti ég á mig hægt og bítandi, enda miklu meira freistandi að hanga uppi í sófa með snakk í vinstri og kærustuna í hægri, en að mæta í ræktina eða á fótboltaæfingu. En svo skall þunglyndið á með látum upp úr hruninu og þá sótti ég meira í óhollan mat en áður. Eftir að sambandinu lauk, skánaði þunglyndið ekkert, en ég gat þó stundað mínar körfubolta-, fótbolta- og bandýæfingar, til að létta lundina, allt þar til ég var um 36 ára, en þá tognaði ég svo illa í baki á körfuboltaæfingu, að ég þurfti að skríða á fingrunum af vellinum. Ég lét aldrei kíkja á bakið og hef verið bakveikur síðan. Ég hætti í körfubolta og fótbolta, en hef pínt mig áfram í bandýæfingunum, en er alltaf viku að jafna mig. Áður en ég vissi af var ég orðinn 134 kíló og kominn með of hátt kólesteról og alvarlegan kæfisvefn.

En af hverju er ég að segja frá þessu? Af því að við sem erum í yfirþyngd eigum okkur flest ástæðu fyrir þyngdinni. Við erum ekki bara löt og gráðug og alveg sama um heilsuna. Það er fátt leiðinlegra en að fá ráð frá grönnu fólki sem ekki þjáist af þunglyndi eða bakmeiðslum, en virðist vita upp á hár hvað er best fyrir mann að gera til að léttast.

Í byrjun árs ákvað ég að skrifa færslu á Facebook þar sem ég tilkynnti að ég ætlaði mér að missa heil 20 kíló á þessu ári, með hjálp Saxenda, aukinni hreyfingu og betra mataræði. Ég tók líka fram að ég ætlaði mér ekki að ná þeim árangri með einhverri sturlun eins og að hætta alfarið að borða sykur og hveiti eða fara á lágkolvetna, ketó eða hvað þetta allt heitir. Nei, ég ætla að gera þetta á mínum forsendum og öfgalaust, því ég vil ekki að þetta heltaki huga minn og taki alla gleði sem eftir er úr lífinu. Planið er að mæta í ræktina tvisvar til þrisvar í viku til að byrja með og auka það svo jafnt og þétt og borða minna, nokkuð reglulega og bara frá klukkan 12.00 til 20.00. Og forðast sykur og hvítt hveiti, ekki sleppa því, en forðast það. Já, og borða meira grænmeti og ávexti. Þegar þetta er skrifað er tæpur mánuður liðinn í þessari lífsstílsbreytingu minni, en mér gengur ekkert voðalega vel. Mér gengur samt ekki heldur neitt sérstaklega illa miðað við aðstæður. Saxenda hefur ekki fengist á landinu síðan um jólin, kom í einn dag í janúar en seldist upp um leið. Og svo er það bölvuð lundin sem hefur verið þung í þessum dimma mánuði og það hefur verið erfitt að rífa sig upp og mæta í ræktina. Þegar svarti hundurinn er plássfrekur í huganum er ansi erfitt að finna til löngunar til þess að láta sjá sig í ræktinni og maður lætur minnstu hluti koma í veg fyrir að maður mæti. Vítahringurinn er algjör: Ég er feitur af því að ég er þunglyndur og verð þunglyndari af því að ég er feitur.

En ég veit að þetta er bara tímabil, ég mun koma mér í ræktina og á fleiri bandýæfingar og ná af mér þessu þunga hlassi sem aukakílóin eru fyrir mína heilsu. Ég er í grunninn íþróttamaður, þótt ég líti ekki út sem slíkur lengur og ef ég held áfram að trúa því, veit ég að ég mun detta í gírinn. Sem barn níunda áratugarins, sé ég alltaf fyrir mér Rocky-senur þar sem Stallone dettur í rosalegan gír og æfir og æfir og æfir, til að koma sér í toppform fyrir einhvern bardagann, og sé sjálfan mig gera slíkt hið sama. Ég átta mig nú samt alveg á því að ég verð aldrei eins og Rocky í vextinum og vil það ekki. Það dugar fyrir mig að geta aftur klæðst bolum í stærð L en ekki XXL og líða vel í skinninu.

- Auglýsing -

Pistill þessi birtist fyrst í Vín og mat, sem hægt er að lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -