Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

Hempunnar menn og húmor Guðs og vegir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mín skoðun er sú að guð hafi húmor,“ var haft eftir leikaranum góðkunna, Karli Ágústi Úlfssyni, árið 1997. Þá höfðu Spaugstofumenn lent í kröppum dansi við biskup Íslands og fleiri vegna páskaþáttar Spaugstofunnar á RÚV. Ásteitingarsteinninn var grein hegningarlaga, númer 125, þar sem segir: „Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“

Biskupi Íslands, Ólafi Skúlasyni, þótti Spaugstofumenn fara helsti frjálslega með frásögn í Biblíunni þar sem fjallað er um síðustu kvöldmáltíðina og fannst „hvorki fyndið né viðeigandi“ að flimtað væri með frásögnina, og þá allra síst á laugardegi fyrir páska, „þegar vitað er að fermingarbörnin eru að horfa“. Auk kvöldmáltíðarinnar matreiddu Spaugstofumenn fleiri kristilegar frásagnir eins og þeim einum var lagið.

Spaugstofumenn voru kærðir og á bak við kæruna voru fyrrnefndur Ólafur Skúlason og sr. Þórir Stephensen.

Ríkissaksóknari lét til sín taka vegna málsins og Spaugstofumenn, einn af öðrum, voru teknir á teppið og yfirheyrðir. Rannsóknin tók hátt í fimm mánuði og því má ætla að öllu hafi verið til tjaldað og öllum steinum velt við. Allt kom þó fyrir ekki og í ágúst 1997 ákvað Ríkissaksóknari að ekki yrði ákært í málinu.

Nú tíminn leið, eins og hann gerir gjarna, og hann leiddi í ljós að því fór fjarri að þeir sem köstuðu fyrstu steinunum í þessu máli væru syndlausir. Reyndar hafði gustað aðeins um kufl Ólafs biskups árið 1996 þegar þrjár konur stigu fram og sökuðu hann um að hafa áreitt þær kynferðislega.

Þessi tíðindi voru þó engin nýlunda fyrir Biskupsstofu enda hafði ein kona tilkynnt Ólaf áður, þá þegar hann var prestur í Bústaðakirkju. Kirkjan svaraði ásökunum kvennanna þriggja með brugðnum bröndum og studdi Ólaf í hvívetna meðan fennti yfir málið.

- Auglýsing -

Sannleikurinn hefur þá tilhneigingu að koma upp á yfirborðið og sú varð raunin hjá Ólafi Skúlasyni biskupi. Málalyktir urðu þær að konunum voru boðnar „sanngirnisbætur“, reyndar að Ólafi Skúlasyni gengnum, en betra er seint en aldrei.

Sr. Þórir Stephensen fór einnig mikinn í orrustunni gegn Spaugstofumönnum. Þjóðkirkjan hafði lítt aðhafst vegna ábendinga um að hann hefði, á sínum yngri árum, brotið kynferðislega á barnungri stúlku, en það mál var ekki til lykta leitt fyrr en á sáttafundi á Biskupsstofu, þá eftir japl, jaml og fuður til margra ára.

Sagan segir að í Danmörku nú um stundir sé ekki gerð sú krafa, til þeirra er vígjast til prests, að þeir trúi á Guð – séu trúaðir. Sé það rétt þá væri gaman að vita hvort Guð hafi húmor fyrir því.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -