Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Hundurinn sem elskaði fjöll – Tinni lifði af 10 metra fall

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég hélt undir höfuð hundsins á meðan líf hans fjaraði út. Dýralæknirinn var með hlustunarpípu og fylgdist með hjartslætti hans. Svo var allt yfirstaðið. Barón Tinni var allur, rúmlega 9 ára gamall. Krabbamein hafði lagt hann að velli. Lokadagurinn í lífi hans var 20. nóvember 2023. Alla sína hundstíð hafði hann fylgt mér eins og skugginn. Hann svaf inni hjá mér. Kom með mér í vinnuna og mætti í allar fjallgöngur. Blindaður af tárum kvaddi ég líflausan hundinn og flýtti mér út í bíl. Ég skammaðist mín hálfpartinn fyrir viðkvæmnina. Karlar af minni kynslóð gráta ekki.

Ég sat undir stýri fyrir utan Dýralæknastofuna. Veðrið var í samræmi við líðan mína. Regnið buldi á framrúðunni. Ég kreppti hendur um stýrið og beið þess að ná stjórn á tilfinningum mínum til að geta ekið heimleiðis, hundlaus.

Hann Tinni var ekkert venjulegur hundur. Hann kom í heiminn 13. apríl 2014. Hann kom undan tíkinni Jasmín sem var í eigu fjölskyldu minnar. Tvisvar var hann seldur, en jafnoft skilað. Á endanum var ákveðið að við myndum halda dýrinu. Það var gæfuspor. Á umbrotatímum í lífi mínu var hann alltaf til staðar. Þegar flest sund virtust lokuð færði hann birtu og yl inn í líf mitt. Á leiðinni heim reikaði hugurinn til baka og ég fór yfir samleið okkar. Minningarnar voru óteljandi.

Við Rauðsgil. Tinni á einum af okkar uppáhaldsstöðum.

Tinni var allt fram í dauðann fjallahundur. Hann bókstaflega elskaði að þvælast með húsbónda sínum um fjöll og firnindi. Fyrsta gangan hans var á Festarfjall þegar hann var rétt tæplega tveggja mánaða. Síðan komu fjöllin eitt af öðru. Hann gekk á Búrfell í Hálsasveit með mér og fjölskyldunni, líklega þriggja mánaða. Þá munaði minnstu að hann léti lífið. Hvolpurinn hafði fylgt mér eftir á leiðinni niður Sökkur. Allt í einu uppgötvaði ég að hann var hvergi sjáanlegur. Hópurinn sneri við til að leita. Einhver heyrði ámátlegt væl sem virtist koma úr iðrum jarðar. Við nánari skoðun kom í ljós að hann var ofan í gjótu sem gras huldi. Þar var hvolpurinn dauðhræddur í sjálfheldu. Hann varð lausninni feginn. Eftir þetta vék hann sjaldnast frá mér á ferðum okkar um fjöllin.

- Auglýsing -

Hrapaði 10 metra

Annar og stærri háski steðjaði að Tinna þegar við gengum sem leið lá úr Skálavík og að Galtarvita í Keflavík. Á bakaleiðinni um Bakkaskarð dundi ógæfa hundsins yfir. Hópurinn hafði klofnað á niðurleiðinni um klettasnös. Tinni hafði, aldrei slíku vant, dregist aftur úr. Hann tók á sprettinn en áttaði sig ekki á því hvorum hópnum hann ætti að fylgja og æddi beint fram af klettinum. Ég sá mér til skelfingar að hann hrapaði allt að 10 metrum og lenti á bakinu. Svo harkalegt var fallið að hann kastaðist aftur upp eins og bolti. Ég var beinlínis skelfingu lostinn þar sem ég hraðaði mér til hundsins sem lá grafkyrr. Mér þótti líklegt að hann væri að minnsta kosti stórslasaður, ef ekki dauður. Skyndilega hreyfði hann sig og brölti á lappir mér til óskaplegs léttis. Hann var í fyrstu vankaður, en náði áttum og þáði kjötbita. Mér fannst það vera kraftaverki líkast að hann skyldi lifa fallið af.

- Auglýsing -

Þvaglát í tjaldi

Tinni var ekki gamall þegar hann rölti með mér og nokkrum Sófistum 25 kílómetra leið á fjallið Krák sem trónir yfir Arnarvatnsheiði. Þegar við komum í tjaldið eftir þá göngu var hann örþreyttur eins og ég. Við steinsofnuðum báðir. Í botni tjaldsins var álteppi til að einangra sem best frá kuldanum. Um miðja nótt vaknaði ég við undarlegt hvisshljóð. Mér til skelfingar sá ég að Tinni var að hafa þvaglát inni í tjaldinu. Mér var ekki skemmt en ég hafði ekki brjóst í mér til að skamma örþreytt dýrið. Ég brölti út í nóttina með teppið og skolaði það í nærliggjandi læk. Tinni fylgdist lúpulegur með, vitandi að það er ekki til siðs að míga inni í tjaldi.

Við Tinni gengum saman á Úlfarsfell að minnsta kosti 1.200 ferðir. Hann var alltaf jafn ánægður þegar hann sá mig taka til göngufötin og fara í skóna. Gleði hans var takmarkalítil þegar lagt var upp í göngu og viljinn endalaus. Þetta voru sólskinsstundirnar í lífi hans. Og þær voru margar. Tinni var friðsamur hundur sem gelti sjaldan og veittist aldrei að öðrum hundum að fyrra bragði. Undantekningin var þegar aðrir hundar voru að abbast upp á hann. Hann hafði ekki mikið þol gagnvart því að aðrir hundar væru að hnusa af rassinum á honum. Hann átti það til að snöggreiðast. Gagnvart fólki var hann afskiptalaus. Undantekningin var þegar hann fann lykt af kræsingum. Þá horfði hann sínum brúnu hundsaugum á matráðinn og vonaðist eftir bita.

Árás sauðkindar

Eitt sinn lenti Tinni beinlínis í háska í samskiptum sínum við sauðkind sem varð á vegi okkar. Við höfðum gengið frá Ingólfsfirði og yfir í Ófeigsfjörð um Brekkur. Þegar niður kom sá ég kind með tvö lömb fjarri gönguleið okkar. Mér til undrunar tók kindin strikið í áttina til okkar. Það skipti engum togum að hún renndi á hundinn og stangaði hann. Tinni rak upp hræðsluvein. Kindin tók sér aftur stöðu og virtist ætla að stanga mig á viðkvæman stað. Ég hvæsti á kindina og stappaði niður fæti. Hún hrökklaðist á brott. Ég leit á Tinna sem var enn með skottið á milli lappanna. „Mundu það svo lengi sem þú lifir, að kind hefur misþyrmt þér,“ sagði ég og hló framan í hann.

Við Tinni áttum saman yfir 3.000 daga. Hann var sem skugginn minn. Alltaf til staðar en gerði engar kröfur umfram það að fá að vera nærstaddur mér og skjótast á fjöll. Þá sjaldan sem ég skildi hann eftir einan heima kom hann sér fyrir í hægindastólnum mínum og beið. Hann fór aldrei í stólinn þegar ég var heima. Þegar ég sneri aftur fagnaði hann mér með gleði blandinni ásökun. Síðustu árin glímdi hann við ofnæmi og þurfti lyf til að halda niðri einkennum. Heyrnin var að mestu horfin og hann glímdi við eyrnabólgu. Sá grunur hafði læðst að mér undanfarna mánuði það væri farið að styttast í endalokin hjá honum. En ég átti engan veginn von á því að þetta myndi gerast svo snöggt sem raun bar vitni.

Venjulegur dagur

Dagurinn sem hann dó var ósköp venjulegur og enginn fyrirboði um það sem varð. Ég hleypti Tinna út og gaf honum lyfin sín. Svo héldum við á vinnustaðinn. Ég tók eftir því að hann átti erfitt með stigana. Það vakti áhyggjur mínar og ég fékk neyðartíma hjá dýralækni um miðjan dag. Klukkustund síðar féll dómurinn. Krabbamein í brisi og lifur. Tinni var þjáður. Aðeins dauðinn gat líknað honum.
Við Tinni áttum saman hálftíma einir á dýralæknastofunni. Ég hvíslaði í eyra hans og rifjaði upp ævintýrin okkar saman. Manstu Strandirnar og manstu Úlfarsfell? Það féllu tár í feld míns góða vinar sem aldrei krafðist neins en gaf endalaust. Svo kom dýralæknirinn og sendi hann í sína hinstu för. Ég hélt harmi lostinn um höfuð Tinna þegar líf hans fjaraði út. Óreiðukenndar minningar um hundinn minn streymdu um hugann.

Daprir dagar

Dagarnir eftir brotthvarf Tinna úr þessum heimi eru í senn skrýtnir og dapurlegir. Mér finnst hann enn vera við hlið mér, en þar er enginn lengur. Öll dagleg rútína er úr skorðum. Göngufélagar og vinir senda samúðarkveðjur á Facebook. Hundlaus veröld blasir við mér. Ég horfi á tómt bælið hans og matardallana sem eru engum til gagns lengur. En ég finn fyrir honum alls staðar og stend mig að því að skima eftir honum. Minningarnar um Tinna lifa og hlýja mér um ókomna tíð. Farðu í friði, kæri Tinni og takk fyrir allt sem þú gafst mér.
Pistillinn um Tinna er að finna í nýjasta tölublaði Mannlífs. Lesa má blaðið hér að neðan í heild:

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -