Sunnudagur 9. mars, 2025
-0.5 C
Reykjavik

Hvað gerðist Gylfi?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Friðrik Atlason skrifar:

Hvað gerðist Gylfi?

Í dag er 8. mars sem er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Til hamingju konur með daginn. Þetta er ykkar dagur. 

Þessi pistill er þó ekki um konur, en ég held að hann sé samt gott innlegg í kvennabaráttuna. Ein baráttan sem þarf að halda á lofti er baráttan gegn hvers kyns ofbeldi gegn konum. Því alltof algengt er að karlar beiti konur ofbeldi, fyrirlíti konur eða horfi á konur sem kyn(lífs)verur, að minnsta kosti hluta þeirra. 

Einn hópur karla hefur verið fyrirferðamikill undanfarin ár í ákærum og ásökunum um kynferðisofbeldi, en það eru íslenskir landsliðsmenn í knattspyrnu, núverandi og fyrrverandi. Má þar nefna Aron Einar, Kolbein Sigþórsson, Albert Guðmundsson og Gylfa Sigurðsson. 

Sumar ásakanirnar hafa verið mikið rannsakaðar, aðrar hafa ekki fengið eins mikla athygli lögregluyfirvalda. Sumar hafa haft mikil áhrif á atvinnumennsku viðkomandi knattspyrnumanns á meðan aðrar ásákanir virðast ekki hafa haft mikil áhrif. 

- Auglýsing -

Flestir sem hafa orðið fyrir ásökunum hafa svarið fyrir brot í fjölmiðlum en einn hefur þó staðið fast á sínu um að segja ekkert til um ásakanir á hendur sér, en það er Gylfi Sigurðsson. Hann var sakaður um brot gegn ólögráða einstaklingi og var hann kyrrsettur í Englandi í 1½ til 2 ár vegna rannsóknar á þessu broti. Rannsóknin leiddi þó ekki til ákæru.  

Margar misalvarlegar sögusagnir um hvað á að hafa gerst hafa gengið á milli fólks og ég ætla ekki að tíunda þær til. En eitt hefur mér fundist vanta. Það er að Gylfi annaðhvort neiti þessum sögusögnum og segi okkur að ekkert brot hafi átt sér stað eða hann segi frá broti sínu.  Ef það hafi verið minniháttar getur hann sýnt iðrun og beðist afsökunar á framferði sínu, Ef það hefur verið það alvarlegt að hann geti ekki greint frá því þá getur hann ekki látið eins og ekkert sé.

Gylfi gekk til lið við Víking fyrr á árinu, en hann var keyptur frá Val fyrir metfé. Hann á ekki að geta spilað óáreittur sem dýrasti leikmaður milli íslenskra félaga og verið á hæstu launum sem greidd hafa verið í íslenskum fótbolta ef hann ætlar sér að þaga áfram. (Ég get reyndar ekki staðfest hvort hann sé dýrasti og launahæsti leikmaðurinn en nokkuð ljóst er að miklir peningar eru í spilinu).

- Auglýsing -

Mér skilst líka að Gylfi eigi líka að taka að sér það hlutverk í Víkinni að vinna með börnum. Í það minnsta á hann að taka að sér það hlutverk að vera fyrirmynd fyrir börnin okkar. Mér finnst það ekki í lagi á meðan hann getur ekki sagt af eða á um meint brot.

Ég er mikill aðdáandi Víkings og hef farið mjög mikið á völlinn undanfarin 30-40 ár. Ég er einn þeirra sem hafa haldið tryggð við liðið í gegnum sært og súrt. Víkingur er að upplifa sína gullöld og hefur aldrei átt jafnt sigursælt lið og núna. Og þetta hefur smitast út í kvennaboltann líka en stelpurnar í Víkinni hafa verið á mikilli uppleið undanfarin ár. 

Og nú er svo komið að eftirspurn eftir miðum á leiki hefur aukist gríðarlega og er nokkuð ljóst að koma Gylfa mun auka eftirspurnina. Vegna þessarar eftirspurnar getur Víkingur leyft sér að vera með dýrasta ársmiðann í Bestu deildinni. Mér sýnist að sambærilegur ársmiði og í fyrra sé tvöfalt dýrari í ár (innifalið er forgangur á miðakaup í öðrum keppnum en Bestu deildinni) Ég get haft rangt fyrir mér hér og biðst ég þá afsökunar. En alveg er ljóst að mun dýrara verður á völlinn í sumar en í fyrra.  

Og það er ekkert óeðlilegt, mér finnst allt í lagi að borga vel á þessa leiki, mér finnst líka allt í lagi að borga vel fyrir treyjur, húfur, trefla og annan varning. Mér finnst allt í lagi að borga vel fyrir besta vallarborgarann í Bestu deildinni. Því það kostar að vera besta liðið. 

En þar sem ég borga laun og annan rekstur félagsins, ásamt þúsundum annarra aðdáenda, finnst mér Gylfi skulda Víkingum það að segja frá því sem gerðist og hvaða brot var verið að rannsaka í að verða tvö ár. Ef hann ætlar að verða fyrirmynd barnanna í Fossvogi og þó víðar væri leitað verður hann að vera góð fyrirmynd. Ekki láta allar sögusagnirnar fá að fljóta áfram þannig að enginn viti hvað gerðist í raun. Og ef þetta voru of alvarleg brot, þá þarf hann bara að hætta, skila peningunum og fara. 

Því vondar fyrirmyndir viljum við ekki, það er löngu kominn tími til að knattspyrnuhreyfingin taki á þeirra menningu sem hefur viðgengist í fjöldamörg ár og sést meðal annars á fyrrgreindum ásökunum. Því þessar ásakanir eru bara toppurinn á ísjakanum. 

Ég skora á fjölmiðlamenn að hætta að vera meðvirkir knattspyrnumönnunum og spyrji þá út í þessar ásaknir, því orðið á götunni er þeir haldi að þeir komist upp með hvaða hegðun sem er, meðal annars vegna þess að fjölmiðlamenn spyrji ekki erfiðra spurninga og fórnalömb ofbeldisins eiga erfitt með að koma fram þar sem það lítur út fyrir að brotamenn komist yfirleitt upp með brotin, nánast óáreittir.

Kynferðisbrot eru alltaf erfið í umfjöllun en við megum ekki taka þátt í að þagga þau niður. Og ef ásakanirnar eru ekki réttmætar þá þarf að ræða það líka. Og það er hægt að fyrirgefa, það er hægt að njóta virðingar þó manni verði á. En þá þarf að sýna iðrun á einhvern hátt og biðjast fyrirgefningar.

Ég veit að með þessum skrifum verð ég ekki vinsælasti Víkingurinn á vellinum í sumar. Ég verð samt áfram Víkingur og styð mitt lið áfram til góðra verka. En ég veit að það eru margir Víkingar sem hafa skoðun á þessu en fæstir þeirra vilja koma fram opinberlega með þessar skoðanir. Kannski hefur þessi pistill einhver áhrif þar á. 

Áfram Víkingur 

Lifi kvennabaráttan

Höfundur er Víkingur og kvenfrelsissinni

Athugasemd ritstjórnar; Rannsókn á meintu broti Gylfa Þórs Sigurðssonar var látin niður falla eftir tæplega tveggja ára ferli.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -