Laugardagur 28. desember, 2024
-1.4 C
Reykjavik

Hvar er Haukur?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í dag eru sex ár liðin frá hvarfi Hauks Hilmarssonar, hugsjónamanns og aðgerðarsinna en til hans hefur ekki spurst frá því að Tyrkjaher gerði loftárásir á Hauk og kúrdíska félaga hans í Afrin héraði í Sýrlandi. Haukur var á þrítugasta og öðru aldursárinu.

Ég var þess heiðurs aðnjótandi sem unglingur að fá að passa Hauk og bróður hans Darra, þegar þeir bjuggu í Fellabænum og að fá að fylgjast með honum í gegnum hans stuttu ævi. Hjarta hans brann af ástríðu og sló svo sannarlega með þeim sem minna máttu mega sín enda var hann alltaf þyrnir í augum yfirvalda.

Hér birti ég ljóð sem ég samdi í tilefni af minningarathöfn sem haldin var Hauki til heiðurs ári eftir hvarfið.

Hvar er Haukur?

Lýst er eftir Hauki Hilmarssyni, níu ára spekingi. Hann er ljóshærður, grannur og móeygður, klæddur í venjuleg nineties krakkaföt. Hann er mjög hlýðinn. Mjög líklega með bók í hendi. Smitandi hlátur.

Hefur einhver séð Hauk Hilmarsson, 12 ára nörd? Hann er ljóshærður, grannur og móeygður, klæddur í venjuleg nineties unglingaföt. Haukur sást síðast spila spunaspil fram eftir nóttu. Hann er með gríðarlega réttlætiskennd og má ekkert illt sjá.

- Auglýsing -

Leitað er að Hauki Hilmarssyni. Haukur er sautján ára umhverfisterroristi. Ljóshærður, grannur og móeygður og með stríðnislegt bros. Hann er talinn klæddur í týpískan hippaklæðnað. Angar mjög líklega af kannabis. Hann sást síðast hlekkjaður við vinnuvél við Kárahnjúka. Hann er talinn mjög óhlýðinn.

Lýst er eftir Hauki Hilmarssyni. Haukur er tvítugur aktivisti. Hann er grannur með ljósa dreddlokka, mólituð augu og táragas í vitunum. Klæddur í skítug aktivistaföt með palestínskan trefil um hálsinn. Síðast sást til hans yfirgefa fangelsi í Ísrael en þar sat hann eftir að hafa varið palestínsk börn gegn grjótkasti.

Hvar er Haukur Hilmarsson? Haukur er námsmaður á þrítugsaldri, talinn sérlega vinveittur flóttafólki. Hann er ljóshærður, með dreddlokka, móeygður og grannur. Haukur sást síðast hlaupa eftir flugvél sem flutti Paul Ramses úr landi. Ekki er vitað um klæðaburð Hauks.

- Auglýsing -

Haukur Hilmarsson er týndur. Hann er anarkisti á þrítugsaldri. Ljós yfirlitum, grannur með síða dreddlokka, mólituð augu og prakkaglott á andlitinu. Fer mjög í taugarnar á yfirvöldum. Það er gagnkvæmt. Sennilega er hann klæddur í svört anarkistaföt. Haukur sást síðast uppi á alþingishúsinu með bónusfána í höndunum. Mjög mikilvægt að ná tali af honum.

Lýst er eftir Hauki Hilmarssyni. Haukur er þrítugur gleðigjafi. Hann er ljóshærður, móeygður, grannur og brosmildur. Talinn sjá húmor í öllum aðstæðum. Hann er í hjarta þeirra sem hann þekkja en yfirvöld hata hann. Það er gagnkvæmt.

Lýst er eftir Hauki Hilmarssyni. Haukur er 31 ára gamall, með litað svart hár, móeygður og grannur. Appelsínugult andlit. Síðast sást til hans í febrúar í Afrin héraði í Sýrlandi. Talið er að hann hafi verið klæddur hermannagalla og með rifil í hendi. Ef þið hafið einhverjar upplýsingar um það hvar Hauk er að finna, ekki hafa samband við yfirvöld, þeim er alveg sama.

Haukur Hilmarsson lýsir eftir alvöru byltingu. Síðast sást örlítill keimur af henni á Íslandi fyrir áratug síðan en svo slökknaði sá neisti. Hann lýsir eftir fólki með alvöru þor, alvöru hugrekki og alvöru getu. Ef ekki hér á landi, þá hvar sem þörf er á. Og húmor, Haukur vill meiri húmor. Klæðnaður valfrjáls.

Höf: Lubbi klettaskáld

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -