Sunnudagur 27. október, 2024
1.4 C
Reykjavik

Katrín er heppnasta stelpa í heimi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vestur á fjörðum er ung kona, Katrín Björk Guðjónsdóttir, að glíma við örlög sem flestum þættu illbærileg. Hún hefur í tvígang fengið heilablæðingu sem hefur leitt til þess að hún er í dag bundin við hjólastól og getur ekki tjáð sig hjálparlaust. Fyrra áfallið fékk hún 21 árs, eða fyrir sjö árum. Fjallað var um Katrínu, sem býr á Flateyri, í þættinum Dagur í lífi í Ríkissjónvarpinu. Þar lýsti hún örlögum sínum af slíku æðruleysi að það vakti þjóðarathygli. Hún sagðist vera heppnasta stelpa í heimi og sá fegurðina í þorpinu sínu við hvert fótmál. Þá sagðist hún vera harðákveðin í því að ná heilsu aftur og syngja fyrir fólkið sitt. Hún berst áfram með vindinn í fangið. Mætir reglulega í sjúkraþjálfun og er í talþjálfun. Baráttuandi hennar er slíkur að það hreyfir við hverjum manni. Í stað þess að harma örlög sín þá lýsir hún lífsgleði sinni og hamingju yfir að eiga góða að. Foreldrar Katrínar hafa stutt hana með ráðum og dáð frá því áföllin dundu yfir. Örlaganornirnar höfðu þó ekki lokið sínu verki því fyrir nokkrum mánuðum fékk faðir hennar líka heilablæðingu og glímir nú við afleiðingarnar á sjúkrahúsi.

Látum bros Katrínar lýsa upp tilveru okkar

Við sem kvörtum undan gráum hversdagsleikanum, blankheitum, magakveisu eða búksorgum getum lært mikið af Katrínu sem þarf að kljást við aðstæður sem eru nánast óbærilegar. 21 árs, heilbrigð og glæsileg stúlka, er barin í gólfið á einu augabragði og tilveran fór öll á hvolf. En Katrín er kjarnakona með stálvilja. Hún einfaldlega neitar að gefast upp og berst áfram með bros á vör við grámyglu hversdagsins. Í stað þess að gráta sig í gegnum dagana þá hlær hún við lífinu og dansar við drauma sína. Hún heldur úti bloggi og er að skrifa bók. Hún er svo sannarlega heppnasta stelpa í heimi.

Við skulum öll taka Katrínu Björk okkur til fyrirmyndar í baráttu okkar við margbreytileg og misþung örlög. Sættum okkur við það sem ber að höndum og tökum lífinu af öllu því æðruleysi sem mögulegt er. Látum bros Katrínar lýsa upp tilveru okkar og mætum öllu því sem að höndum ber í lífinu.

Við sem erum aflögufær skulum leggja eitthvað af mörkum til að létta litlu fjölskyldunni lífið og hjálpa Katrínu til þess að ganga og syngja.

Reikningur: 0515-14-410407

Kennitala: 470515-1710

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -