Staða íslenskra stjórnmálaflokka gagnvart kjósendum er sífellt til umræðu hér á landi. Skoðanakannanir eru framkvæmdar sem sýna eiga raunfylgi hvers og eins og fara þá sumir flokkar með himinskautum en fylgi annarra er sem botnfall í annars tómri víntunnu.
Ríkisstjórnarflokkar fá alla gjarna slæma útreið í slíkum könnunum, enda er þeim kennt um allt sem miður hefur farið í heimilishaldi íslenska ríkisins. Tíðum er sú slæma gagnrýni verðskulduð en stundum er um að ræða stöðu sem er afleiðing aðgerða eða aðgerðaleysis fyrri ríkisstjórna.
Nú um stundir hampar Bjarni Benediktsson, nú utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, þeim vafasama heiðri að vera sá íslenskur stjórnmálamaður sem hvað fæstir bera traust til. Fylgi flokksins er í lægstu lægðum og samkvæmt orðinu á götunni er Bjarni á leið úr stjórnmálum. Samkvæmt sömu fiskisögu mundi það koma í hlut Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur fjármálaráðherra að rétta hlut Sjálfstæðisflokksins og koma honum til þess vegs og virðingar sem hans er með réttu, að mati Sjálfstæðismanna. Reyndar hefur Bjarni Benediktsson gefið það út að hann sé hvergi nærri hættur, en dæmin hafa sýnt að lítið er hægt að treysta orðum og gjörðum íslenskra stjórnmálamanna og því óhætt að taka fullyrðingum þeirra með fyrirfara.
En ef til þess kæmi að Bjarni Ben stigi til hliðar þá bíður fullmótaður forsætisráðherra á hliðarlínunni – bjargvættur flokksins til framtíðar litið; Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Hjá Framsóknarflokknum er staðan að mörgu leyti svipuð. Formaður flokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, er viðkunnanlegasti náungi, minnir einna helst á neftóbakskarl úr Tungunum. Hægur og ágætlega traustvekjandi, en lítt líklegur til stórra verka. Fylgi flokksins, sem rauk upp um skeið, hefur dalað verulega og nú dólar hann einhvers staðar undir tíu prósentunum.
Framsóknarflokkurinn nýtur þess að eiga í handraðanum bjargvætt sem gjarna hefur verið nefndur til sögunnar sem næsti formaður flokksins. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, er af mörgum talin vænlegur kostur hvað varðar formennsku í Framsóknarflokknum. Hún býður af sér góðan þokka, á það jafnvel til að svara spurningum og segja skoðun sína ef eftir því er leitað. Það er afar sjaldgæft hér á landi að ráðamenn svari spurningum sem þeir fá.
Lilja hefur reyndar orðið uppvís að gjörningum sem fallið hafa almenningi illa og að sumra mati hefur hún gengið helst til langt í sumum málum og nægir að nefna málshöfðun hennar á hendur konu sem úrskurðað var að Lilja hefði brotið gegn vegna ráðningar í stöðu ráðuneytisstjóra mennta- og viðskiptaráðuneytisins árið 2020.
Hvað sem því líður þá má segja að Lilja sé vonarstjarna Framsóknarflokksins hvað formannsstöðuna áhrærir.
Þá má nefna til sögunnar VG, flokkinn sem fer fyrir ríkisstjórninni. Staðan í honum er örlítið mótsagnarkennd. Fylgið er rjúkandi rúst, flokkurinn lafir á svipuðum slóðum og Sósíalistaflokkurinn, og þykir mörgum (fyrrverandi) fylgismönnum sem flokkurinn hafi selt gildi sín fyrir 30 silfurpeninga og að formaður flokksins og forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hafi verið Bjarna Ben helst til handgenginn.
Á sama tíma fer Katrín mikinn í könnunum og er sá stjórnmálamaður sem hvað flestir bera traust til.
Í því felst mótsögnin; Katrín virðist ekki bera skarðan hlut frá borði þrátt fyrir að flokkurinn sem hún fer fyrir skrapi nú tunnubotninn í könnunum.
Þrátt fyrir að það sé deginum ljósara að eitthvað þurfi að gerast svo VG heyri ekki sögunni til eftir næstu þingkosningar, hefur enginn verið nefndur til sögunnar sem eftirmaður Katrínar.
Ekkert hefur verið rætt um að nýrra vanda sé þörf, naflaskoðun sé nauðsynleg eða eitthvað í þá veruna. Fylgið reytist af flokknum, flokksmenn margir róa á önnur mið og snúa baki við flokki sem virðist nú um stundir hvorki vera vinstri né grænn, heldur eins konar leppflokkur fyrir Bjarna og félaga hans.
En enn sem komið er hefur enginn verið nefndur til sögunnar sem mögulegur rústabjörgunarmaður VG.
Ekki er seinna vænna, fyrir Katrínu, og reyndar Sigurð Inga og Bjarna líka, að huga að næstu kosningum, því eins og allir vita er það eina markmið sitjandi ráðamanna að þeir sitji enn við kjötkatlana að næstu kosningum yfirstöðnum.
Við spyrjum að leikslokum.