Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Kjaftasögur og aftaka hjá dómstól götunnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Eva Hauksdóttir lögmaður skrifar harðorða grein þar sem hún drepur á ákveðnu ófremdarástandi sem lýsir sér í því að dylgjað er um einstaklinga og þeir í framhaldinu sviptir mannorði sínu og sniðgengnir í samfélaginu.
Oft er um að ræða mál þar sem sakir eru óljósar en refsingin samt hörð. Málflutningur og dómur fer fram á netinu en dómstólar koma sjaldnast við sögu. Eva lögmaður segir dylgjur vera erfiðar viðfangs í réttarkerfinu. Það eru orð að sönnu. Nýverið auglýsti refsivöndurinn Edda Falak eftir sögum um ónefndan mann sem hefði keypt vændi. Lýsingin á áhugamálum mannsins gat átt við um Björn Inga Hrafnsson eða Kára Stefánsson. Eva telur að Björn Ingi og Kári séu hugsanlega sá „ónefndi“ sem braut lög um vændi og Edda Falak auglýsti eftir sögum um, og gætu farið í skaðabótamál vegna þess óræða áburðar.

Hún segir að menn sem verði fyrir óljósum ásökunum um kynferðisbrot verði að hætta að senda frá sér moðvolgar játningar. Þá verði löggjafinn og dómstólar að fara að bregðast við ófremdarástandi vegna rógs á netinu. Grein Evu, sem birtist á Vísi, hefur vakið mikla athygli en hún heitir „Aðdróttanir og dylgjur — auglýst eftir kjaftasögum“.

Til þess að taka af allan vafa skal fagna því framlagi sem hefur leitt til ákveðins uppgjörs undir gunnfána Metoo-byltingarinnar. Samfélagið hefur gagn af því að skerpa á mörkum varðandi siðferði í samskiptum fólks og uppræta eins og mögulegt er árásir, misnotkun eða kynferðisbrot. Það er öllum hollt að færa til mörkin á milli þess siðlega og ósiðlega. En byltingin má ekki gleypa börnin og efna til skálmaldar á þessu sviði.

Nú þegar eru vísbendingar uppi um að menn sem bera litlar sakir hafi orðið undir valtaranum og eigi sér vart viðreisnar von. Tónlistarmaðurinn Auðunn Lúthersson er einn þeirra. Hann var sakaður um að hafa farið yfir mörk kvenna. Það varð til þess að hann var sviptur afkomu sinni og nánast bannfærður. Enginn hefur getað upplýst hvað það var sem hann hafði unnið sér til þeirrar vanhelgi sem réttlætti að hann væri bannfærður. Engin kæra, ekkert dómsmál. Aðeins aftaka.

Auðunn Lúthersson

Mál Sölva Tryggvasonar er af sama toga. Hann er sakaður um að hafa farið yfir mörk tveggja kvenna. Yfirlýsing um að hann yrði kærður var gefin út síðastliðið sumar. Ekkert hefur gerst í hans málum annað en það að hann var sviptur lifibrauði sínu af dómstól Netsins. Hlaðvarpið hans er lokað og tilraun til þess að opna það aftur var kæfð í fæðingu. Hann er, rétt eins og Auðunn, utangarðsmaður í eigin samfélagi.

Sölvi Tryggvason

Helgi Jóhannesson lögmaður er á sama róli og þessir tveir. Hann var sakaður um að hafa misboðið samstarfskonu með orðfæri sem var vissulega ekki til eftirbreytni. Hann missti starf sitt hjá Landsvirkjun. Í framhaldinu var reifað mál um aðra konu sem hann hafði samskipti við á Lögmannsstofunni Lex árið 1999. Skilja mátti að konan hefði svipt sig lífi rúmum 20 árum síðar vegna samskipta þeirra. Það mál er vægast sagt langsótt. Örlög Helga eru þau að vera sniðgenginn í samfélaginu og í raun tekinn af lífi án dóms og laga.

Helgi Jóhannesson
Mynd: Viðskiptablaðið

Fleiri dæmi eru til um sniðgöngu af þessum toga. Ingólfur Þórarinsson tónlistarmaður er á sama báti. Hann er sakaður um brot gegn nokkrum fjölda kvenna en án þess að mál hans rati inn í dómskerfið. Þá má nefna Kolbein Óttarsson Proppé, fyrrverandi alþingismann, sem dró sig í hlé eftir ávirðingar um að hafa stigið yfir mörk gagnvart ónefndri konu.

Slúður getur ekki orðið grunnur að sakfellingu fólks.

- Auglýsing -

Nokkrir þeirra sem nefndir hafa verið hér að framan hafa beðist afsökunar á mögulegum sökum sínum. Einhverjir þeirra hafa leitað sér hjálpar til að átta sig á veikleikum sínum og teikna upp ný mörk. En þeir fá samt ekki tækifæri til endurreisnar.  Eva varar fólk við slíkum játningum.

„Menn eiga ekki að setja fram hálfvolgar játningar, yfirlýsingar um að þeir hafi kannski einhvern tíma gengið yfir einhver mörk einhvers. Ef þú ætlar að segja eitthvað, segðu þá söguna alla. Eða farðu í gegnum dómskerfið með það, farðu í ærumeiðingarmál eða eitthvað slíkt. Þú getur valið að þegja. Þú getur valið. Eða segja allan sannleikann en ekki segja eitthvað smávegis sem gefur internetinu tækifæri til að smella.“

Þetta er rétt metið hjá Evu. Samfélagið verður að finna þá leið sem dugir til þess að menn verði ekki sakfelldir án dóms og laga. Einhver sagði að við myndum ekki rata af villigötunum fyrr en fyrsti einstaklingurinn, sem borinn er sökum, sviptir sig lífi. Atlagan að Kára Stefánssyni, eða Birni Inga eftir atvikum, er skólabókardæmi um málsmeðferð sem má ekki eiga sér stað í nútímasamfélagi. Slúður getur ekki orðið grunnur að sakfellingu fólks. Jafnframt er okkur hollt að skerpa á mörkunum í samskiptum við hvert annað. Við verðum að hafa vit og þroska til þess að enda það miðaldamyrkur sem er ríkjandi í þessum málum.

- Auglýsing -

Nýtt Mannlíf er ókeypis í verslunum Bónuss, N1 og Hagkaupa. Vefútgáfu má finna hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -