Veiran sem herjar á heimsbyggðina veldur miklu fleiri áhrifum en sem nemur beinum veikindum og dauða. Fjöldi manns glímir við stöðugan ótta og lokar sig af. Sumir taka líf sitt.
Tölur lögreglunnar frá fyrrihluta ársins benda til þess að sjálfsvígum hafi fjölgað um tæp 70 prósent. Það þýðir að fleiri hafa fallið fyrir eigin hendi en þeir sem deyja beinlínis vegna sjúkdómsins. 30 manns hafa svipt sig lífi það sem af er árinu 2020 en 18 manns, samkvæmt skráningu lögreglu á sama tíma í fyrra. Þetta nemur nemur 67 prósenta aukningu. Sem dæmi um alvarleika málsins er mannfallið tveimur fleira en þeir sem dáið hafa af völdum Covid-19 hérlendis.
Mannlíf hefur þráspurt landlækni, lögregluna og heilbrigðisráðuneytið um þessa stórauknu sjálfsvígstíðni en engin svör fást og látið er sem almenningi komi þetta ekki við. Fundir þríeykisins eru á stundum með skrýtnum brag. Spyrlar, sumir án raunverulegs umboðs, endurtaka sig, fund eftir fund, og fátt stendur eftir annað en tölur dagsins og að við erum öll almannavarnir. Yfirvöld leyna almenning þeim veruleika sem snýr að hliðaráhrifum Covid og forðast opinbera umræðu. Þöggun ríkir. Þríeykinu, að þeim ólöstuðum, þykir farsælla að þylja upp tölur um hve margir hafi mælst með þetta og hitt en að ræða kjarna málsins. Mannfall og sjálfsvíg er ekki til opinberrar umræðu. Launung hefur einnig hvílt yfir smitberum, sem meðvitað brjóta sóttkví, og þeim stöðum sem hafa reynst vera gróðrastía fyrir veiruna.
Það sem blasir við öllum er að vísindaheimurinn stendur á gati yfir þessari veiru sem upphaf sitt á í Kína. Sóttvarnalæknar um allan heim vita fátt. Talað er um Frakkaveiru, Kínaveiru og ýmis önnur afbrigði en við eigum enn engin ráð og vitum eiginlega ekkert um faraldurinn og framvindu hans. Bóluefni er enn ekki komið en vonandi í sjónmáli. Að þessu leyti til eru yfirvöldum á Íslandi vorkunn þar sem þeir fálma sig áfram í myrkri og hafa fátt annað til málanna að leggja en að þylja upp tölur sem þó segja á endanum fátt. 30 sýktir í dag og 10 á morgun. Enginn mælikvarði er til á þjáninguna vegna aðgerða stjórnvalda.
Ríkisstjórnin hefur farið þá leið að hlýða lögreglu, landlækni og sóttvarnalækni í einu og öllu þar sem kemur að lokun á landamærum og sóttvörnum innanlands. Ekki er að sjá að fólk hafi áhyggjur af hliðaráhrifum vegna aðgerðanna. Einangrun leiðir til örvilnunar. Heil atvinnugrein, ferðamannaiðnaðurinn þurrkast út með gríðarlegu atvinnuleysi og tilheyrandi mannlegum harmleikjum. Enginn virðist horfa á heildarmyndina, sem á að vera hlutverk ríkisstjórnarinnar og alþingismanna en ekki embættismanna. Eina andófið kemur frá Pírötum sem hafa lagt til að rannsókn fari fram á aðgerðum yfirvalda á veirutímum og litið verði til persónuverndarsjónarmiða og mannréttinda. Það er kominn tími á pólitíska ábyrgð. Kannski verður höfuðáherslan að vera einstaklingsbundnar sóttvarnir og reyna að lifa sem eðlilegustu lífi við þannig aðstæður. Enginn veit hvenær þessu ástandi linnir. Heimsbyggðin öll er á sama báti.
Við okkur blasir sviðin jörð. Ferðamannaiðnaðurinn er í rúst. Listamenn eru margir hverjir á vonarvöl. Gríðarlegt atvinnuleysi er smám saman að færast yfir þjóðina í stærra mæli en nokkru sinni fyrr. Fólk er meira og minna aflokað og án samskipta við aðra en sína allra nánustu. Félagslega erum við komin á þann stað að ekki hefur sést um aldir. Kannski er ekkert til ráða til að milda þessi gríðarlegu högg. Kannski erum við í sömu sporum og mestöll heimsbyggðin og fylgjum feigðarstraumnum. Við þurfum að ræða þessi mál í stað þess að lifa í blindni. Við verðum að horfa á það sem er að gera án þess að fela sumt. Okkur farnast best með því að opna umræðuna upp á gátt og finna bestu leiðirnar út úr ástandi þar sem skelfingin og óvissan ríkir.
Þjóðin öll á að vera þátttakandi í því að móta stefnuna út úr kófinu og aftur til venjulegs lífs. Allar mögulegar upplýsingar um áhrif veirunnar, bein og óbein, eiga að vera uppi á borðum. Launungin þarf að víkja fyrir hreinskilni. Geislameðferðin sem þjóðin gengst undir má ekki verða til þess að deyða fleiri en sjálft meinið. Við verðum að fjarlægja kýlin, og hreinsa sárin til að geta grætt þau og fikra okkur svo út úr því miðaldramyrkri sem færst hefur yfir. Allt sem nú er að gerast mun ganga yfir. Þá þurfum við að gera upp málin.