Það er komið á daginn að megnið af þeim smitum sem hafa borist í fólk á Íslandi koma frá frönskum ferðamönnum sem brutu sóttkví. Farvegurinn hefur síðan reynst vera að mestu um öldurhús. Þessi uppákoma öll er grafalvarleg og hefur þegar kostað fjölda einstaklinga þjáningu og sett allt samfélagið í úlfakreppu, fátæktar, einangrunar og hafta með tilheyrandi veikindum og harmleikjum.
Það furðulega í öllu þessu máli er að lögregla og sóttvarnayfirvöld leyna því hverjir eru sökudólgar. Frakkarnir smitandi njóta skjóls hjá yfirvöldum þrátt fyrir afbrot sín. Það þykir sjálfsagt að uppljóstra um smáþjófa og aðra minniháttar glæpamenn. En þegar kemur að smitberum sem valda þúsund sinnum alvarlegra tjóni á heilsu fólks og lífi þá skal ríkja þögnin ein. Við skulum ekki búa til sökudólga, er margkveðin vísa. Ekki benda á neinn.
Það sama var uppi á teningnum þegar búið var að rekja smit til ákveðinna veitingastaða. Þá vildi þríeykið leyna því hvaða staðir áttu í hlut þrátt fyrir að augljósir almannahagsmunir séu undir í málinu. Það er mikilvægt að fólk í landinu átti sig á því hvort einhverjir snertifletir séu til staðar við þá staði sem hýst hafa smit eða það fólk sem laumast hefur inn í landið án þess að fylgja reglum um sóttvarnir. Fór ég á þennan stað? Komst ég í snertingu við Frakkana er spurt. En leyndin útilokar að fólk átti sig á því.
Leyndarhjúpinn um smitbera og smitstaði ber að rjúfa. Umburðarlyndi á ekki við gagnvart þeim sem valda fjölda manns veikindum og setja fólk í lífshættu að óþörfu og algjörlega með siðlausum hætti. Jafnframt þurfum við að minnka smitskömm og veita þeim skjól sem urðu fyrir veirunni án þess að vinna til þess sjálfir.
Við eigum að fá nöfn Frakkanna og annara smitbera sem brjóta reglur upp á borðið. Við skulum fordæma þá sem smita vegna sjálfselsku og siðleysis. Hlífum þeim sem hlífa ber og vörumst að dæma alla þá sem bera smit. Leitum að uppsprettunni og gerum það fyrir opnum tjöldum. Flettum ofan af öllum þeim sem brjóta sóttkví og herðum refsingar. Birtum nöfn og myndir. Þeir sem brjóta sóttkví eru sekir um tilraun til manndráps. Þeir eru hættulegir samfélaginu. Það á að vera leiðarljós yfirvalda í stríðinu við veiruna en ekki leynd og pukur.