Laugardagur 26. október, 2024
3 C
Reykjavik

Líf í skugga Geirfinns

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þrautaganga Erlu Bolladóttir hefur staðið síðan hún var 18 ára. Þá leiddist hún inn á braut fjársvika. Hún og Sævar Ciesielski, sambýlismaður hennar, sviku stórfé út úr Póstinum í gegnum svonefnt póstgíró. Þetta markaði upphafið að því sem síðan hefur litað líf hennar.

Þegar Geirfinnsmálið kom upp dróst hún inn í málið ásamt félögum sínum. Framganga rannsóknaraðila varð til þess að hún játaði að hafa orðið Geirfinni Einarssyni að bana í dráttarbrautinni í Keflavík. Aðrir sakborningar játuðu líka að hafa banað honum. Játningar fólksins lýstu að minnsta kosti þremur aðferðum við að bana manninum. Þau voru ákærð og loksins dæmd fyrir morð á Geirfinni og Guðmundi Einarssyni. Stærsta dómsmorð Íslandssögunnar varð að veruleika. Það þótti sjálfsagt að bæta svo sem einu tveimur morðum á sakaskrá fólks sem hafði fengist við smáglæpi.

Sárveik heldur hún áfram þrautagöngu sinni

Rannsókn á þessum málum var í skötulíki. Fólkið var beitt þrýstingi til að játa það sem lögreglunni hentaði. Stór hluti málsins var svokallað Klúbbsmál sem snérist um smygl á spíra og bókhaldsbrot. Lögreglunni var mikið í mun að tengja eigendur og starfsfólk klúbbsins inn í morðmálin. Þær tilraunir enduðu með þeim ósköpum að Erla vitnaði um sekt Klúbbsmanna, þeirra á meðal bróður síns Einars Bollasonar. Þeir voru fangelsaðir og sátu lengi í varðhaldi.

Eftirmál þessa urðu þau að mál fólksins var tekið upp aftur. Þau sem dæmd voru fyrir morð voru sýknuð og ríkið greiddi þeim háar bætur. Erla var þó undanskilin. Hún lýsir því að hafa verið í gæsluvarðhaldi og henni nauðgað af lögreglumanni. Hún hafði verið dæmd fyrir meinsærið sem kom bróður hennar í gæsluvarðhald. Henni einni var neitað um bætur eða sýknu þegar mál hópsins var tekið upp að nýju. Á dögunum hafnaði endurupptökunefnd beiðni hennar.

Erla segir sögu sína í hlaðvarpi Mannlífs og í forsíðuviðtali blaðsins. Hún glímir við ólæknandi krabbamein og á sér aðeins þá vonu að ná fram réttlæti gegn karlakerfi sem kramdi undir sér 18 ára stúlku og eyðilagði líf hennar.  En það er torsótt. Eftir úrskurð endurupptökunefndar virðast henni öll sund vera lokuð. Erla gefst þó ekki upp. Sárveik heldur hún áfram þrautagöngu sinni í von um að hún fái örlítinn skerf af réttlæti eftir að hafa lifað sínu lífi í skugga Geirfinnsmálsins. Lögregla og dómstólar þess tíma eru sek um siðblindu og vinnubrögð sem eru réttarkerfinu til skammar. Stúlkan sem sveik Póstinn á rétt á sakaruppgjöf. Það er nóg komið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -