Ég byrjaði sumarfríið á að bóka tíma í klippingu og litun (23.500 kr.). Skál (1.100 kr.)! „Ji – hvað ég hlakka til að komast út!“
Ég tíndi fram sólarvörnina (6.732 kr.) og glænýja bikiníið (20.990 kr.) og henti því í ferðatöskuna (27.799 kr.).
„Haha – Þá er ég með allt það mikilvægasta.“ Ég bókaði ferðina (135.000 kr.) spontant með stelpunum. „Nei, djók ég má ekki gleyma passanum.“
Við brunuðum af stað og fundum loksins stæði (15.610 kr.) Ég dýrka Fríhöfnina (35.688 kr.) og eftir örskamma stund vorum við vinkonurnar sestar á barinn (3.580 kr.) – látum samfélagsmiðlana vita.
Síðastliðin ár hef ég ekki verið ánægð í vinnunni minni (440.487 kr.), hún er alveg fín, en það vantar bara eitthvað. Mér finnst ég aldrei hafa neinn tíma og finnst ég alltaf vera að missa af einhverju. Þess vegna er svo geggjað að vera komin í gott frí.
„Ég er komin í frí, ég er komin í frí, ég er komin í frí – ég má fá mér hamborgara og annan bjór (3.240 kr.).“
Ú, þessi 400 grömm af Lindor-kúlum eru mín (2.399 kr).
Við vorum sestar út í vél og við ákváðum að verðlauna okkur fyrir að hafa þolað lengstu röð í heimi. Smá bubblur og hnetur til að maula (1.800 kr) – ég var samt enn þá södd. „En kommon, ég er í fríi!“
Flugið var ágætt, ég sat við ganginn og ég var ekki lengi að koma auga á sjúklega sexí hnakka á manni sem ég reyndi lengi að ná augnsambandi við. Það var alveg sama hversu hátt ég reyndi að hlæja eða hversu oft ég gerði mér ferð á klósettið. Gaurinn sá mig ekki. Pfft – dick.
Ég er ekki frá því að ég hafi fengið nett spennufall, því eftir þriðja glasið af bubblum (2.600 kr.) og geggjað hálsmen (15.600 kr.) lognaðist ég út af. Mig dreymdi fáránlegan draum. Jafnmikið og ég þoli ekki að heyra um drauma annarra að þá verð ég að segja ykkur frá þessum.
Ég var á krossgötum: Mér stóð annars vegar til boða gull og grænir skógar og að líða aldrei efnislegan skort, en eiga lítið af tíma, og hins vegar stóð mér til boða að fá tíma – tíma og ráðrúm sem ég gæti ráðstafað eins og mér einni hentaði, en minna af fjármunum.
„Dömur mínar og herrar, velkomin til …“ Ég vaknaði ringluð, vönkuð – og já, kannski ögn ryðguð við ávarp flugstjórans. „Rugl draumur, ég ætla að drífa mig að sækja handfarangurinn minn áður en allir standa upp.“ Ég vildi ólm drífa mig út úr þessari sardínudós – ég var að skrælna í munninum. Ég tætti í mig röðina þrátt fyrir illt augnaráð flugfreyjunnar. „Hún er pottþétt bara afbrýðisöm.“
Ég varð að fá mér vatn og tyggjó (730 kr.). Það gekk að mestu áfallalaust að finna töskufæribandið, en eftir 45 mínútur var ekki von á fleiri töskum – og ekkert bólaði á töskunni minni. Vonbrigði ferðarinnar voru klárlega mætt. „Fokk, hvað geri ég núna. Allt stöffið mitt.“ Vinkona mín hughreysti mig og sagði mér að nú gæti ég réttlætt að kaupa mér allt nýtt. Vúhú!
Þegar við vorum komnar upp á hótel tékkaði ég á heimabankanum mínum (144.119 kr.). Andskotinn, ég gleymdi að borga leiguna (170.000 kr.). (-25.881 kr. ) Ég gramsaði í veskinu mínu og fann kreditkortið mitt.
„Jæja, núna má fjandans fríið byrja, fyrir mér.“
11 mánuðum seinna kláraði ég að greiða upp yfirdráttinn. Það er kannski óþarfi að nefna það, en ég ætla að ferðast innan borgarmarkanna í ár.