Föstudagur 13. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Litla skilnaðar-jólabarn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég er skilnaðarbarn.

Foreldrar mínir skildu þegar ég var fjögurra ára, að verða fimm. Þau höfðu verið saman í um fjórtán ár, en svo þegar þau eignuðust mig liðu einungis nokkur ár þar til þau voru farin í sundur fyrir fullt og allt. Ekkert mál, ég reyni að taka þessu ekki persónulega.

Skilnaður er svo sem ekkert tiltökumál þannig séð – nokkurn veginn normið í íslensku samfélagi. Ég er ekki að kvarta.

Ég man hins vegar eftir því hvað jólin gátu verið mikið flækjustig í lífi skilnaðarbarnsins.

Fyrstu jólin sem ég man eftir að mamma og pabbi væru hvort í sínu lagi eyddi ég aðfangadagskvöldi hjá mömmu. Ég var þó sennilega stödd hjá pabba framan af degi, því hann keyrði mig heim til mömmu einhvern tíma seint um eftirmiðdaginn. Það var kveikt á sjónvarpinu og úr því ómaði einhver jólatónlist. Lykt af rjúpum í loftinu. Pabbi kyssti mömmu gleðileg jól og fór svo. Ég man að mér fannst það sætt. Ekki sætt eins og að ég vildi að þau myndu taka aftur saman. Ég vildi það aldrei sérstaklega og botnaði ekkert í því þegar vinir mínir spurðu mig svoleiðis spurninga. Ég man samt eftir því að hafa einu sinni kreist fram nokkur tár í skólanum þegar kennarinn fór að tala um hjónaskilnaði. Það virkaði ágætlega, ég fékk frí úr tímanum og mátti fara og taka því rólega í friði. En það er kannski önnur saga.

Næstu jól á eftir urðu aðeins snúnari, fyrir þær sakir að einhver fékk þá frábæru hugmynd að ég skyldi skipta aðfangadagskvöldi í tvennt. Ég yrði þá hjá öðru foreldrinu fyrri part kvölds og hinu seinni partinn. Algjört snjallræði – allir jafnir. Kannski var þetta mín hugmynd. Ég var mjög meðvirkur krakki.

- Auglýsing -

Ég man eftir einu svona aðfangadagskvöldi. Þá hafði ég eytt fyrri partinum hjá pabba; borðað jólamatinn, hlustað á upplestur úr jólakortunum og opnað þá pakka sem ég hafði fengið frá föðurfjölskyldunni. Því næst keyrði pabbi mig heim til mömmu. Þar voru mamma og eldri bróðir minn, bæði búin að opna sínar gjafir. Þá tóku pakkarnir við þeim megin.

Það er skemmst frá því að segja að þetta kvöld sofnaði ég ofan í einn pakkann. Mig minnir að það hafi verið Tannlækna-Barbí.

Eftir þetta tók ég málin í mínar eigin hendur. Ég tilkynnti foreldrum mínum það ákveðin, mörgum mánuðum fyrir jól, að þetta fyrirkomulag væri ekki sjálfbært. Nú skyldum við framkvæma jólin með eftirfarandi hætti:

- Auglýsing -

Ég yrði hjá öðru þeirra á aðfangadagskvöld og hinu á jóladag. Því foreldri sem ég yrði ekki hjá á aðfangadagskvöld myndi ég svo eyða gamlárskvöldi með og hinu yrði ég hjá á nýársdag. Þetta myndi svo skiptast ár frá ári og rúlla þannig áfram eins langt og ég gat hugsað. Foreldrarnir samþykktu þetta einróma.

En þá var það þetta með pakkana. Átti ég að opna gjafir frá mömmu þegar ég var hjá pabba á aðfangadagskvöld, og öfugt? Einhver ákvað að það gengi hreint ekki. Þá varð úr að pakkar frá móðurfjölskyldunni fylgdu heimili mömmu og gjafir frá fólkinu pabba megin voru undir trénu hjá honum. Þar af leiðandi opnaði ég pakka bæði á aðfangadagskvöld og jóladag. Það var dálítið skemmtilegt; að vita að ég ætti alltaf gjafir eftir öðru hvorum megin á jóladag.

Við hættum þessu samt á endanum. Ég man ekki alveg af hverju. Of mikið vesen líklega.

Það fylgja því kostir og gallar að vera skilnaðarbarn á jólum, eins og almennt í lífinu. Einn kostur er tvímælalaust þegar það kemur stjúpfjölskylda inn í myndina. Stjúpmamma mín kom til skjalanna frekar fljótt og eftir það bættist aldeilis í pakkaflóðið. Þetta hljómar kannski græðgislega þegar ég set þetta svona fram, en ég var nú samt ansi nægjusamur krakki. Sá sem vill meina það að börnum þyki ekki gaman að fá pakka er fastur í einhvers konar sjálfsblekkingu. Auðvitað var spennandi að opna fleiri pakka.

Ég var alltaf ansi ánægð með það sem ég fékk – sama hvað það var. Það var bara eitthvað við það að opna pakkana, forvitnin við að skoða eitthvað nýtt og spennandi, sem einhver hafði eytt tíma í að velja.

Máli mínu til stuðnings vitna ég í gamla stílabók sem mér áskotnaðist nýverið, frá því ég var átta ára gömul. Þetta er ein af þessum bókum sem ætluð var fyrir stíla, sögur, ljóð og þess háttar. Í þessu tilfelli hef ég greinilega fengið það verkefni að skrifa um „jólin mín“. Það er að minnsta kosti fyrirsögnin. Þar segir eftirfarandi:

Á aðfangadagskvöld borðaði ég rjúpu. Ég var með mömmu, pabba, Elsu, Möggu og Óskari [þarna grunar mig að um sé að ræða tvískipt aðfangadagskvöld]Eftir matinn opnum við pakkana [tvisvar]. Skemmtilegasta gjöfin var allt frá öllum.

Kær kveðja, meðvirka barnið sem elskar alla jafnt.

Á myndskreytingunni sem fylgir má sjá teiknaða mynd af sjálfri mér í vægast sagt ónáttúrulegri (og eflaust óþægilegri) stellingu á gólfinu, með pakka fyrir framan mig. Augntóftirnar eru tómar og ég hef gleymt að lita myndina. Til hliðar má sjá köttinn minn, horfandi vonaraugum á vígalegan pakkann.

Nú komum við hins vegar óneitanlega að ákveðnum ókosti við samsettar fjölskyldur – ef ókost skyldi kalla. Það er allavega ákveðin áreynsla fólgin í þessu fyrir manneskju sem kýs samneyti við annað fólk í skömmtum.

Þarna er ég að tala um öll jólaboðin. Sem eru frábær, ekki misskilja mig. Allavega flest. En þau verða ansi mörg, boðin, þegar um er að ræða móðurfjölskyldu, föðurfjölskyldu og stjúpfjölskyldu. Ég var oft orðin eins og útspýtt hundskinn eftir áramótin, alltof þreytt til þess að eiga að fara að mæta í einhvern skóla. Enginn skilningur á því að barnið þyrfti HVÍLD eftir jólin. Skrýtið.

Ekki fór þetta ástand sérstaklega batnandi þegar ég síðan eignaðist kærasta á unglingsárunum – samband sem entist árum saman. Þá bættist við ein fjölskylda í viðbót og ég sá stjörnur eftir hátíðarnar.

Þú spyrð kannski hvort ekki hafi verið hægt að skera niður jólaboðin, velja og hafna. Það var vissulega hægt, en það skyldi aldrei vanmeta mátt samviskubitsins.

Þessi einu jól sem ég var á lausu voru alveg merkilega róleg. Hefðu alveg mátt vera fleiri, svona upp á álag að gera, en það hefur aldrei verið mín sterka hlið að haldast einhleyp. Það eru allir með eitthvað.

Það tók endanlega steininn úr þegar pabbi minn og stjúpmanna tilkynntu svo um skilnað sinn fyrir rúmum tveimur árum. Nú er ég því orðin tvöfalt skilnaðarbarn.

Þegar ég horfði fram á að nú ætti ég þrjár aðskildar fjölskyldur, auk tengdafjölskyldu, fór ég að sjá fyrir mér að fá útbrot af stressi þegar kæmi að jólunum.

Ég ákvað því að gera það eina skynsamlega í stöðunni. Flýja upp í sumarbústað yfir jólin.

Þar mun ég fela mig yfir stærstu hátíðisdagana, alveg eins og í fyrra, og þeir sem vilja geta komið þangað. Hin fullkomna lausn.

Áður en ég fer að pakka mér saman fyrir flóttann mikla er hér að lokum jólahugvekja úr sömu stílabók og mér áskotnaðist um daginn, frá átta ára sjálfi mínu:

Í næsta mánuði koma jólin. Þá finnst mér skemmtilegast að finna ljósið og hamingjuna í hjartanu mínu. Snjórinn kemur vonandi.

Gott og vel, litla skilnaðar-jólabarn, gott og vel.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -