Hættulegustu lyfin á markaðnum er ópíóíðar, sterk verkjalyf. Notkun lyfjanna hefur leitt til fjölda harmleikja þar sem ungt fólk hefur fallið í valinn. Þessi lyf geta gert kraftaverk þegar um er að ræða mikinn sársauka, en vandinn er hins vegar sá að á skömmum tíma getur neytandinn orðið háður lyfinu. Þá er hann um leið orðinn stjórnlaus og kominn í lífshættu. Glæpir eru einnig fylgifiskur fíknarinnar. Í úttekt Mannlífs í dag kemur fram að á svörtum markaði kostar hver tafla af lyfinu 10 þúsund krónur.
Á Íslandi geisar faraldur á meðal ungs fólks þar sem þessi stórhættulegu lyf eru í forgrunni. Það sorglega við þetta er að lyfin eru lögleg, en stjórnvöld hafa misst tökin og líf þess unga fólks sem hefur ánetjast er í uppnámi. Á undanförnum misserum hafa sex manns hið minnsta fallið í valinn. Íslenskt samfélag hefur í gegnum aldirnar glímt við mannfall vegna sjósóknar eða í glímunni við önnur óblíð náttúruöfl. Við höfum náð að minnka þann skaða og nú er fremur sjaldgæft að fólk farist af þeim sökum. Þá færir nútíminn okkur heimatilbúinn vágest. Græðgi lyfjafyrirtækja verður til þess að fjöldi mannslífa glatast. Fólk á besta aldri deyr.
Varla er hægt að ímynda sér dýpri sorg en þá að þurfa að fylgja barni sínu til grafar
Magnús Andri Sæmundsson lést 12. febrúar eftir að hafa lent í sjálfheldu ópíóíðanna. Hann var aðeins 19 ára. Foreldrar hans, Guðrún Katrín Sandholt og Sæmundur Steindór Magnússon, ákváðu rúmum tveimur mánuðum eftir andlát sonar síns að segja þessu ástandi stríð á hendur og vekja fólk til vitundar um þann skaða sem sala og framleiðsla lyfjanna veldur. Varla er hægt að ímynda sér dýpri sorg en þá að þurfa að fylgja barni sínu til grafar. Þau lýsa í Mannlífi nístandi sorginni við að sjá á eftir efnilegum syni í gröfina og rekja sögu hans, sem er lýsandi fyrir það að enginn sér það fyrir hver hlýtur þau örlög að verða fíkninni að bráð. Hjónin ákváðu að segja sögu sonar síns til þess að forða sem flestum frá því að hljóta þau örlög að glata lífi sínu í þeim manngerða háska sem steðjar að. Ekkert er dregið undan í frásögninni og skýru ljósi varpað á örlög ungs drengs sem hefði með réttu átt að eiga langt líf fram undan. Þessi barátta hjónanna er aðdáunarverð og nær vonandi eyrum sem flestra. Það átakanlega er að Magnús þurfti ekki að deyja. Við sváfum á verðinum og það kostaði unga manninn og fjölmarga aðra lífið. Í dag hefur þó kviknað sú von að stjórnvöld séu að vakna af þyrnirósarsvefni og það verði gripið til aðgerða til að minnka skaðann.
Hefðbundin meðferð dugir engan veginn
Ópíóíðar grípa þann sem ánetjast gjarnan heljartökum. Hefðbundin meðferð dugir engan veginn til að losa þann sem ánetjast. Dæmi eru um að fólk sé 70 daga í fráhvörfum á meðan fíklar sem glíma við vanda vegna áfengis eða hefðbundinna fíkniefna geta losnað úr þeim klóm á örfáum vikum. Þessi fíkn er því mikið alvörumál og eitt það alvarlegasta sem nú steðjar að íslensku samfélagi. Úrræðin þurfa að innihalda stórefldan stuðning við samtök á borð við SÁÁ og gera þeim kleift að skilgreina leiðir til að lækna þá sem eru fastir í hættulegasta læknadópi í heimi. Við verðum að ná tökum á því hamfaraástandi sem eru ríkjandi og bjarga fólki frá skelfilegum örlögum.