Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Mann(eskju)líf Friðriks Agna – En hvað þýðir það að setja heilsuna í fyrsta sæti?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

En hvað þýðir það að setja heilsuna í fyrsta sæti?

Þegar nýja árið gekk í garð hrundu á okkur öll yfirlýsingar hvers annars um hvað við ætlum okkur margt og mikið á þessu herrans ári. Oftar en ekki snúast þessi heit um heilsuna og sjálfið. Við ætlum að setja okkur sjálf í fyrsta sæti. Þetta verður árið okkar. Ætlum svona oft í ræktina. Ætlum að missa svona mörg kíló. Taka út allan sykur. Taka út allt hveiti. Fá six pack. Vakna alltaf kl. 5 og fara út að hlaupa, fara í kalda sturtu, fasta til hádegis. Mastera to-do listana okkar alla. Bæta samskiptin okkar við fjölskyldu, vini, maka og samstarfsfélaga. Eyða meiri tíma með börnunum okkar. Hafa hreint heima alltaf. Duglegri að setja fleiri myndir á samfélagsmiðla. Duglegri. Semsagt.

Á kostnað hvers? Þíns kannski?

Heilsa okkar skiptir jú eiginlega lykilmáli til að tryggja vellíðan og velgengni í öllu. Heilsan er margþætt. Hún er andleg og hún er líkamleg. Spurningin er: Í hverju felst ÞÍN heilsa akkúrat eins og staðan er í dag? Ekki miðað við hvað Lísa og Stefán eru að deila á Instagram heldur miðað við það sem þú þarft?

Hefur þú staldrað við, lagt lófa við hjartað, andað, spurt þig og raunverulega hlustað? Hvað þarf ég að gera/breyta til að mér líði aðeins betur? Reyndar öskrar líkami okkar stundum mjög greinilega á okkur og þvingar okkur hér um bil í að hlusta en þó svo hann geri það eru sumir sem hunsa hróp hans samt (t.d. fyrrum keppnismanneskjan ég og aðrir).

Að fá sýnilegt six pack krefst mikillar vinnu í ræktinni í langan tíma, holls mataræðis í langan tíma, ásetnings og áreynslu fyrir okkur flest. En til hvers? Hvað gerist þegar þú færð six pack á magann? Mun lífið smella saman, mun sjálfsöryggið aukast, færðu betri prófílmynd á Tinder, verður þú heilbrigðari?

- Auglýsing -

Við þurfum að skilja af hverju heilsa okkar er mikilvæg fyrir okkur sjálfum. Og ennfremur skilgreina hvað heilsa er fyrir okkur. Í dag gæti það að setja heilsuna í fyrsta sæti fyrir mér verið að fara í sund og sleppa því að synda og fara heldur einungis í heitan og kaldan pott, í gufu og tjilla aðeins úti í brakandi vetrarloftinu. Þetta þarf ég í dag. Eða þetta þarf líkami minn í dag.

Stundum geta hugur og líkami ekki verið í flútti. Það gæti vel verið að hugurinn ætli sér, vilji og skal hlaupa þessa 5 km í ræktinni en verkurinn í bakinu þínu segir kælipoki, bólgueyðandi og hvíld, takk. Á hvað ættir þú að hlusta í því tilfelli? Það er rétt að það þarf oft að ýta sér aðeins út fyrir þolmörkin til að ná markmiðum. Ég þekki það vel á eigin skinni. En aftur, á kostnað hvers? Galdurinn liggur í jafnvæginu og skilningnum á því að greina hvenær er rétt að þenja mörkin og hvenær á að virða þau.

Heilsa þín getur líka falist í því hverskonar tegund af áreiti þú ætlar að leyfa þér að verða fyrir og hve mikið. Nútímaheimur býður okkur upp á allskyns upplýsingar frá ólíkum tækjum og tólum fyrir utan þær upplýsingar sem við fáum úr raunheimum. Með hverjum ertu að hanga? Hverjum ertu að fylgjast með á samfélagsmiðlum og hvernig áhrif eru þau að hafa á þig? Ekki allt þarf endilega að stuðla að bættri heilsu. Það er í lagi að fylgja einhverjum á samfélagsmiðlum bara af því viðkomandi er aðlaðandi og áhugaverð týpa. Svo lengi sem það er allavega ekki að ýta undir þína eigin vanlíðan.

- Auglýsing -

Ég varð einu ári eldri á aðfangadag og læstist í bakinu. Er með brjósklos og allskyns stoðkerfisverki. Dansa, þjálfa og æfi mikið. Ég þarf að hugsa mig aðeins um. Hugsa hvernig ég ætla mér að setja heilsuna í fyrsta sæti. Ástæða mín fyrir verkjum og vöðvalæsingum stafar einfaldlega út frá of miklu álagi á líkama og einnig út frá ofurkvíða taugakerfisins í allt of langan tíma. Þess vegna veit ég að í dag snýst mín heilsa ekki um að lyfta þungu á hverjum degi heldur um að róa taugakerfið mitt og koma svefni í betra form. Það er skref eitt. Sem einkaþjálfari vil ég sýna raunverulegt fordæmi þess að ég þekki allar hliðar heilsunnar. Bæði fyrir kúnna og fyrir mig sjálfan. Næsta skref minnar heilsu er svo að viðhalda fjölbreyttri hreyfingu, dansa og liðka mig. Þar á eftir kemur mataræðið. Á eftir því koma svo félagslegu samskiptin mín. Þetta eru kannski fjögur skref í mínu eigin átaki sem ég deili út á við sem dæmi. En þetta er bara fyrir mig. Og í raun hangir þetta allt saman þó ég leggi þetta upp í þrepum. Það er einungis til þess að ég aðgreini og forgangsraði. Ég set taugakerfið, svefninn og áhyggjurnar þarna efst því ég veit að fyrir mér er það undirstaða að ég ráði við hin þrepin.

Ætlar þú að taka þig í gegn? 

Frábært, ef það er það sem þú finnur að þú þarft. Er það líkaminn? Er það mataræðið? Eru það samskiptin þín? Ekki láta mig segja þér það. Ég get einungis sagt hvað ég mæli með út frá eigin lífi. Sumt af því hjálpar kannski einhverjum en kannski ekki þér.

Hvernig lítur ÞITT líf út, með þig í fyrsta sæti?

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -