Mann(eskju)líf Friðriks Agna er nýr dálkur um lífið, fólk, samskipti og sjálfið sem mun birtast vikulega hvern sunnudag.
Myndir þú tala svona við vin þinn?
Á leiksýningu einni sem ég sá fyrir skömmu rak leikarinn sögu sína sem endaði á hans uppgötvun á eigin sjálfshatri. Það hafði ekkert svo vont gerst á lífsleiðinni að hans eigin sögn. Hann hafði allt, vini, fjölskyldu, frama, stuðning. Samt þessi vanlíðan. Þegar á botninn var hvolft þá var óvinurinn innra með honum að segja honum alls kyns ljóta hluti sem hann auðvitað gleypti við og trúði. Hvernig hunsar maður rödd sem býr innra með okkur? Sú rödd berst ekki inn um eyrun heldur fer frá heila í hjarta og yfir í allan líkamann.
Í þessu tilfelli í leiksýningunni snerist sjálfshatrið um það hver hann raunverulega er og getur ekki breytt. Óvinurinn inn í honum dæmdi hann harkalega fyrir að vera eins og hann er og þar af leiðandi fór alvöru sjálfið að trúa dómaranum og taka allskyns ákvarðanir út frá þeirri trú.
Ég tengdi við það að líða illa en finnast ég ekki eiga neina innistæðu fyrir því. Sérstaklega miðað við það sem er í gangi í okkar heimi í dag. Þó að vissulega nokkur slæm atvik hafi komið fyrir mig á lífsleiðinni þá hef ég í raun búið við allsnægtir, haft ástríka foreldra, menntun, fjölskyldu og vini, hef fengið að rækta hæfileikana mína, hef ferðafrelsi, bý við náttúruauðlindir, starfa þar sem ég get sinnt áhugamálum mínum og hæfileikum til fulls.
Ég fór að hugsa: Af hverju í ósköpunum koma tímar þar sem mér líður það illa að mér finnst allt tilgangslaust? Eins og mig langi til að gefa lífinu puttann? Þið vitið, detta í það, stinga af og lifa ábyrgðalausu lífi því ég er einskis virði hvort sem er.
Og þá man ég hvernig raddir búa stundum í mínu eigin höfði:
Djöfulsins hrokafulla og sjálfhverfa barn. Hættu að stara út í tómið af því að þú fékkst ekki þetta tækifæri. Eða af því að þessi sagði þetta en ekki það sem þú vonaðir að hann myndi segja. Þú hefur setið í eirðarleysi í heilan dag út af engu. Þú hefur setið á rassgatinu og hugsað um fortíðina og dreymt um framtíðina í staðinn fyrir að gera allt það sem þig langar að gera.
Uppörvandi raddir ekki satt? Bíðið, það er meira:
Þú ert ógeðslega latur og þú munt fá svo mikið samviskubit yfir því að hafa ekki klárað að skrifa þennan póst, eða hringja í þessa konu, eða kennt þennan danstíma. Samviskubitið mun fara með þig. Það er nú þegar að fara með þig og þú hefur enga afsökun. Þú ert bara misheppnaður, latur og dagdreyminn. Þú heldur að þú hafir drauma og markmið og sért svo inspírerandi, en sorrý, þú ert það ekki.
Ein pæling, myndum við tala svona við vin okkar sem líður illa?
Ég hef sterkan grun um að ég sé ekki einn sem búi innan um svona innri óvini. Það er þetta með dómhörkuna, eða einfaldlega hörkuna. Kannski er hún þarna því við vitum að í raun og veru höfum við allt. Og við vitum innst inni að okkur stendur svo margt til boða hvað varðar aðstoð og tækifæri. Þess vegna er mjög auðvelt að dæma okkur þegar við förum í sjálfsvorkunn. En okkur má alveg líða illa og við megum alveg vorkenna okkur smá þegar lífið gengur ekki upp. Þetta er spurning um jafnvægi þess að sýna sér hörku þegar þarf, vorkenna sér smá og sýna sér ást.
Í heimi hörkunnar skil ég hvernig við urðum þyrst í sjálfsmildi, sjálfsást. En hvað er sjálfsmildi? Og er hún eitthvað annað en sjálfsást? Eitthvað annað en ást almennt? Um daginn uppgötvaði ég eitt. Ég var að faðma makann minn og fann þessa óskaplegu vellíðan. Raddirnar sem fóru af stað í höfðinu mínu þá:
Hvað ég er heppinn akkúrat núna. Þessi yndislegi maður. Hann gefur mér svo mikið. Ég vildi ég gæti horfið inn í hann ég elska hann svo mikið. Væri til í að láta honum líða alltaf vel og gera heiminn alltaf fallegan fyrir hann á hverjum degi.
Þetta eru svolítið öðruvísi vinkonur sem tala þarna en þær sem tjáðu sig hér að ofan. Þarna er þakklæti, þarna er núvitund og þarna er ást. Og þarna hugsaði ég. Hvað ef ég gæti snúið þessari ást einhvern veginn inn á við til mín? Gæti ég hugsað og sagt svona hluti gagnvart sjálfum mér? Eða er það sjálfselska? Það getur varla verið. Nokkrum dögum síðar prófaði ég pælinguna mína. Ég var lasinn alla vikuna og lítill í mér. Einn í sófanum ákvað ég að gefa mér smá ást og varð hugsað til ástarinnar sem ég ber til mannsins míns, ég greip um hugsanirnar og orðin, greip utan um mig og reyndi að hlusta og taka þetta inn á mig. Finna þessa vellíðan, þessa ást. Því ég þurfti á henni að halda. Ég er heppinn, ég er yndislegur og ég er að reyna gefa sjálfum mér allt það besta, ég fæ að búa í þessum líkama o.s.frv. Ég veit ekki hvort ég hafi alveg náð að trúa þessu hundrað prósent en jú mér leið vel og ég fann fyrir ró.
Við erum öll fær um að elska. Þegar okkur skortir ást þá getum við gefið ást. Við það að gefa ást, hvort sem það er til maka, vinar, barns eða foreldris, þá finnum við fyrir ást. Þegar við erum í ást þá erum við í vellíðan. Þegar enginn er nálægt okkur þá getum við munað eftir ástinni sem við eigum og berum í brjósti gagnvart okkar fólki og prófað að baða okkur sjálf í þeim hugsunum sem við hugsum til þeirra. Við megum elska okkur sjálf. Og við þurfum að elska okkur sjálf.
Hvernig ákvarðanir værum við annars að taka fyrir okkur sjálf ef við hlustuðum einungis á raddir sjálfsvorkunnar og sjálfshaturs? Ég veit að við getum flest fundið fyrir tímabili þar sem við festumst þar jafnvel í lengri tíma. Og því lengri tíma sem við verjum á þessum dimma stað hugans því líklegra er að við förum að lifa lífinu þar. Hatrið fer úr sjálfinu og yfir í heiminn út á við.
Rétt eins og við gefum ást til að finna fyrir ást, hvað ætli gerist þá þegar við förum að gefa frá okkur hatur?
Friðrik Agni er dansari, hóp,- mark,- og einkaþjálfari. Hann hefur gefið út ljóð og stjórnað hlaðvörpum sem snúa að andlegri heilsu. Hann hefur komið víða við á sínum ferli en er áhugamaður um lífið, samskipti, fólk og heimspeki. Hann byggir pistla sína út frá eigin reynslu, þekkingu og pælingum.
Friðrik Agni á Instagram og Facebook @fridrikagni