Mánudagur 28. október, 2024
-0.7 C
Reykjavik

Mann(eskju)líf Friðriks Agna – Það koma samt jól

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það rignir úti, enginn snjór, það eru plús gráður úti, jólatréð er ekki komið upp, það er ekki búið að ryksuga, það er ekki búið að kveikja á friðarkerti úti á svölum. Svona horfði einn Þorláksmessudagurinn við mér sem barni í Vesturbænum. Ég jólabarnið sjálft sem fyllir árshring hvern aðfangadag var ekki ýkja sátt við yfirvofandi jól. Ég man ég hringsólaðist um húsið spyrjandi um hitt og þetta, af hverju er ekki búið að setja upp tréð og af hverju er enginn snjór? Verður þetta allt ekki að vera komið á morgun?

Ég mun ekki gleyma því sem pabbi sagði við mig. Hann sagði, Frikki minn jólin koma hvort sem er. Klukkan sex á morgun munu klukkurnar hringja, við munum setjast saman og borða, jafnvel þó það rigni úti. Jólin koma samt.

Og það var það sem gerðist. Og hvað er það nákvæmlega sem gerist á þessari undurstundu? Hver er þessi jólatilfinning sem við sækjumst eftir og vinnum svona mikið að í desemberhúminu?

Vissulega var jólatilfinningin tengd allskonar hlutum sem maður gerði sem barn eins og að renna sér á sleða, baka piparkökur, setja skó í glugga og fleira. En ég man einnig eftir því að akkúrat á kvöldi aðfangadags var það ekki síður einhverskonar friður sem bærðist innra með mér. Því ég var heppinn. Ég var með fjölskyldu, heimili, föt og var öruggur. Ég hugsaði það kannski ekki þannig sem barn en ég held samt að á jólum hafi ég fyrst komist í tæri við tilfinninguna sem ég þekki í dag sem þakklæti.

Er það þessi tilfinning? Er þakklæti og friður sanni jólaandinn?

Um hvað snýst þá allt þetta stress tengt kaupum, þrifum og eldamennsku sem heltekur okkur mörg fyrir jól? Þurfum við nýja skó og nýjan kjól til finna frið?

- Auglýsing -

Þegar á botninn er hvolft mun aðfangadagur koma. Mikilvægustu spurningarnar eru heldur þessar: Með hverjum verð ég? Er ég með þeim sem ég elska og þeim sem elska mig? Mun ég eiga mat? Mun ég geta fengið mat einhversstaðar? Verður þak yfir höfðinu á mér? Mun ég getað leitað í húsaskjól? Fæ ég að finna fyrir öryggi þessi jól?

Það er fólk allt um kring um okkur – sama hver við erum. Það eru úrræði allt um kring. Því við erum heppin að búa á þannig stað. Stundum reynir á stoltið okkar þegar við þurfum að biðja um aðstoð. En réttum við út höndina þá þori ég næstum því að veðja að einhver, þó það sé ekki nema ein manneskja grípi utan um hana. Af því hún vill grípa okkur, ekki því hún þarf þess.

Jólin koma hvort sem er. Og hvað eru þau í raun og veru? Áminning um að við erum hluti af mennsku samfélagi þar sem samkennd, ást og kærleikur er það sem sameinar okkur. Og þetta eru þeir mannkostir sem við ættum að láta ráða för ekki bara á jólum heldur alltaf. Í öllum aðstæðum.

- Auglýsing -

Jólin eru ekki áminning um hver á flottasta og hreinasta húsið, ljúffengasta eftirréttinn, hraðskreiðasta bílinn, tölvuna eða er með stærstu varirnar, vöðvana eða flesta fylgjendur á Instagram. Markaðsherferð jólanna dregur okkur oft svolítið langt frá eðli þeirra. Og ekki bara eðli jóla heldur eðli okkar.

Ef við eigum samkennd innra með okkur, ást og kærleik þessi jól þá megum við vera þakklát og þetta þakklæti mun færa okkur jólin. Hvort sem það er búið að ryksuga eða ekki. Og hvort sem úti gjósi eða ekki. Ég gæti talað um heimspólitíkina og fært allt í samhengi en ég læt það vera. Því ég vil trúa því að þessi litla jólahugvekja geri okkur að betra fólki og heiminn að fallegri stað þó það sé ekki nema á þessum aðfangadegi.

Friðrik Agni er dansari, hóp,- mark,- og einkaþjálfari. Hann hefur gefið út ljóð og stjórnað hlaðvörpum sem snúa að andlegri heilsu. Hann hefur komið víða við og er áhugamaður um lífið, samskipti, fólk og heimspeki. Hann byggir pistla sína út frá eigin reynslu, þekkingu og pælingum. 

Fylgið Friðrik Agna á Instagram og Facebook      

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -