Mánudagur 28. október, 2024
2.5 C
Reykjavik

Mann(eskju)líf Friðriks Agna – Þurfum við að breytast?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Af hverju er það þannig að við skerum á árin, skiptum lífinu upp í hluta, sköpum endi og upphaf eitt kvöld yfir þessa tólf mánuði sem við sköpuðum einnig sjálf? Allt afmarkast í kafla og kassa hjá okkur. Af hverju er það? Sennilega er upphafið að þessu mjög lógískt í sjálfu sér. Staða sólar, uppskera landbúnaðar o.s.frv. sem skiptist á afgerandi hátt og hafði áhrif á veruhætti mannfólks. En svo getur maður pælt í lífi við miðbaug og hvernig veðurfar er oftast það sama, alltaf, allt árið um kring. En hvað um það. Kannski þurfum við að taka lífið í smá köflum. Staðsetja okkur með ljósinu og myrkrinu, stilla af hið andlega sjálf í samræmi við tíma og rúm. Hegðun dýra, hegðun veðurs, sólar og tunglsins. Setja okkur í þetta stóra samhengi og búa til kerfi í kringum það svo að við fúnkerum betur. Það væri erfitt að lifa bara einu samfelldu lífi, óuppbrotnu og breytingasnauðu. Eða hvað?

Nú í aðdraganda kaflaskilanna dúndra á mann hvatningarorðin, heitin um að á einhvern undraverðan hátt muni hoppið frá þessu ári yfir á það næsta verða til þess að þú umturnist í bestu útgáfuna af þér. Þú varst ekkert rosa spes á þessu ári sem er að líða en nú er tækifærið. Betrumbæta.

Að vissu leyti skil ég þetta. Hér gerist eitthvað mælanlegt og næstum áþreifanlegt. Við byrjum að skrifa 2024 í stað 2023, bókstaflega. Það er gott að hafa eitthvað sem hjálpar okkur að hugsa hluti upp á nýtt og breyting ártalsins á blaði getur aðstoðað við það. Vísbending um skiptingu, um að eitthvað sé ekki eins og það var í gær. Tilbreyting, tækifæri til að endurstilla.

Það sem ég held hins vegar að ætti að vera okkar æðsta markmið er að skilja tækifærin í hverjum degi. Því raunveruleikinn er sá að lífið bíður ekki eftir okkur, ekki beinlínis. Kannski er það ekki jafn stórfenglegt að hugsa um breytingu á hverjum degi en getum við raunverulega breyst stórfenglega? Margt smátt gerir eitt stórt. Ég ætla að minnka hvítan sykur, ég ætla að mæta einu sinni í viku í líkamsrækt, ég ætla að minnka áfengisneyslu o.s.frv. Þetta eru allt góðar og gildar tillögur en ekki mjög ákveðnar. Næsta skref væri að ákveða hvernig minnka ég sykurneysluna mína, hver er hún í dag og hvað væri eðlilegt að minnka hana um mikið. Hvaða dagur hentar mér best að fara í ræktina og hvaða tími dags miðað við dagskrána mína. Hversu oft og mikið drekk ég af áfengi í dag og hvað þýðir það að minnka það. Að brjóta breytingar niður í eitthvað sem er ekki ógnandi og óyfirstíganlegt er gagnlegt en umfram allt þurfa breytingar að eiga sér stoð í viljakrafti okkar. Það að ætla sér að minnka áfengisneyslu bara af því að það ætti að vera gott fyrir okkur er ekki það sama og að finna það djúpt í eigin sál að vilja það. Það er okkar að vita raunverulega hvað við viljum og hvert við viljum stefna. Ekki fyrr en við sjáum það skýrt þá getum við byrjað að stefna þangað.

Það sem nýtt ár gefur okkur er jú tækifæri til að endurstilla, líta yfir farið ár, hvað gerðist, hvað af því var gott og hvað lærðum við. Hvernig viljum við halda áfram? Við getum spurt okkur sömu spurninga í lok hvers dags eða hverrar viku og átt okkar litlu áramót innra með okkur þegar við þurfum á þeim að halda. Þau eru kannski ekki jafn hátíðleg og engir flugeldar um loftin en engu að síður geta lítil ljós umbreytinga kviknað allt árið um kring. Ég hugsa að umfram allt þurfum við að vita af hverju eitthvað ætti að breytast, skilja það til fulls og vilja leggja eitthvað á okkur. Það geta koma tímabil í lífi okkar þar sem við upplifum okkur heil, góð og fullnægð. Breyting eða ný markmið eru kannski ekki ofarlega í huga okkar og það er allt í lagi. Þá getum við sett fókus á að dvelja í þeim dásamleika að elska lífið okkar eins og það er og verið þakklát fyrir það. Elskað rútínu okkar í hversdagsleikanum og vitað að hér viljum við vera og kjósum að vera hvergi annarsstaðar. Akkúrat í dag.

En breytingar eru óumflýjanlegar samt sem áður. Ekkert okkar sleppur við að breytast á einhverjum tímapunkti. Spurningin er hvenær við þurfum þess og hvenær við viljum það. Þó að nýtt ár sé oft notað sem tákn breytinga þá er engin kvöð á þér um að þú eigir að breytast. Njótum þess einfaldlega að kveðja árið og heilsa nýju án þess að vera með pressuna á okkur sjálfum og öðrum um að eitthvað markvisst þurfti að gerast í okkar lífi á nýju ári. Við erum ekki öll stödd þar akkúrat þetta eina kvöld ársins. Og það er allt í lagi. Taktu þér þinn tíma, á þínum degi, á þinni árstíð til þess að endurskoða þá hluti í lífinu á þeim tíma sem þú finnur að það þarf að gerast. Skálaðu í kvöld fyrir þér og þínum. Fyrir því einfaldlega að vera hér og nú. Því ber að fagna. Við lifðum af daginn, húrra fyrir okkur!

- Auglýsing -

Friðrik Agni er dansari, hóp,- mark,- og einkaþjálfari. Hann hefur gefið út ljóð og stjórnað hlaðvörpum sem snúa að andlegri heilsu. Hann hefur komið víða við og er áhugamaður um lífið, samskipti, fólk og heimspeki. Hann byggir pistla sína út frá eigin reynslu, þekkingu og pælingum.

Fylgið Friðrik Agna á Instagram og Facebook

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -