Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Marat/Sade: „Leikarar í henni voru nær allir komnir yfir sjötugt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég hef áður tjáð mig stuttlega um sýninguna á Marat/Sade á þræði mínum á Fésbókinni, raunar tvisvar, því að sýningin batnaði mjög eftir frumsýninguna og mér fannst sjálfsagt að láta það berast. Þetta var talsvert flókin sýning, með fjölmennum og ærið litskrúðugum leikendahópi sem er inni á sviðinu allan tímann og lifandi tónlistarflutningi sem fléttast skemmtilega inn í það sem fram fer. Þar við bættist að sýningin hafði sem slík ákveðna leikhúspólitíska skírskotun, því að leikarar í henni voru nær allir komnir yfir sjötugt og sá elsti að nálgast nírætt. Það hefur lengi verið rætt innan leikhúsgeirans að þessir leikarar, sem langflestir eru við góða heilsu í fullu fjöri, séu sorglega vannýttir (oft bera leikhússtjórar við kostnaði); að þeir séu það ómaklega staðfesti sýningin svo ekki varð um villst. Við óbreyttir leikhúsunnendur vonum að leikstjórar og aðrir stjórar dragi lærdóm þar af – og það sem allra allra fyrst!

Marat/Sade er, eins og ég skil verkið, skörp ádeila á þá veruleikafirringu sem allar blóðugar þjóðfélagsbyltingar hljóta að enda í. Menn dreymir háleita drauma um frelsi og réttlæti og jafnan rétt fólks, hugsjónir sem í reynd hefur gengið æði illa að sameina, því að frelsið verður alltaf að vera innan ákveðinna marka, eigi það ekki að leiða til upplausnar og sundurlyndis. Allir geta aldrei gert eða fengið allt sem þá langar í eða telja sig eiga rétt á, og mannskepnan er af náttúrunni eigingjörn og þroski mannlegs samfélags hefur byggst á því að reisa skorður við hneigð hennar til að taka sem mest til sín, hvað sem það kostar. Franska byltingin 1789 er eins og skólabókardæmi um þetta (segir Weiss), því að hún leiddi af sér stjórnlaust morðæði og síðar ógnarstjórn fáeinna manna eða klíkubræðra; það má vel orða það þannig að leitin að réttlætinu hafi drukknað í skefjalausu ofbeldi fjöldans sjálfs eða þeirra sem reyndu að koma böndum á múgæsingarnar með hjálp þess aftökutækis sem í augum síðari tíma hefur orðið líkt og tákn fyrir frönsku byltinguna: fallexinni. En samkvæmt kaldrifjaðri rökvísi byltingarinnar, þá var fallexin einkar mannúðlegt aftökutæki í samanburði við það sem lýðurinn gerði þegar hann tók réttvísina í eigin hendur og tætti fórnarlömb sín bókstaflega í sundur.

Leikur Peters Weiss fer fram á geðveikrahæli árið 1808. Tímasetningin er ekki út í bláinn; þá var aftur komin sæmileg kyrrð á í frönsku þjóðfélagi með því að Napóleon hafði tekið völdin í sínar hendur og svo að segja “fryst” byltinguna – í bili. Og þannig hafa byltingar síðustu tveggja alda oftast endað: í einræði Leníns og Stalíns, Mússólínis, Hitlers, Maós, Castrós – og er ekki Pútín einnig glöggt dæmi; einvaldur sem hefur náð að rífa þjóðina upp úr því ófremdarástandi sem hún fékk að reyna eftir að Sovétið hrundi og ráðamenn hugðust koma á borgaralegu þjóðfélagi í anda ný-líberalismans, tilraun sem leiddi til þess að auðæfin söfnuðust í hendur fáeinna spilltra olígarka og við vitum öll hvernig fór. Þar er hliðstæðan við frönsku byltinguna æpandi – og svo er miklu oftar.

Ég er ekki viss um að leik Weiss yrði jafn vel tekið í dag og þegar hann kom fram, alltént ekki af því “góða fólki” sem telur sig samvisku heimsins og gæti vissulega með þó nokkrum rétti bent á að hér sé spilað á fordóma almennings um geðveikt fólk, þar eð vistmennirnir á hælinu eru notaðir til að tákngera þá “vitfirringu” sem byltingarnar fæða af sér. En eins og ég sagði hér í byrjun, þá beinist greining Weiss umfram allt að þeim andstæðu straumum hugmynda sem hann lætur þá Marquis de Sade og Marat vera fulltrúa fyrir. Rýmið leyfir mér ekki að fara hér ofan í deilur þeirra, en þar hallar eðlileg á Marat, sem birtist hér sem persóna, leikbrúða, í leik sem Sade hefur skrifað og sviðsetur; en reyndar er áhrifamáttur leiksins ekki síst fólgin í því hversu listilega hann dansar á mörkum þess fyrirsjáanlega og þess ófyrirsjáanlega. – Ég veit ekki hvort sýning Lab Loka verður tekin aftur upp í haust, sem hún á sannarlega skilið; hins vegar hef ég sannspurt að sjónvarpsgerð að henni sé í vinnslu og jafnvel heimildamynd um hana. Hvort tveggja vekur forvitni manns og tilhlökkun.

Lestu grein Jón Viðars í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -