Laugardagur 18. janúar, 2025
1.5 C
Reykjavik

Sundurlimuð líkin lágu eins og hráviði um kjallaragólfið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 1940 marseruðu nasistar inn í París og læknirinn Marcel Petiot sá sér leik á borði og ákvað að koma sér upp smá hliðargrein sem myndi hvort tveggja í senn færa honum auð og fullnægja kvalalostanum. Gestapo, leynilögregla Þriðja ríkisins, hafði sömu áhrif í París og annars staðar og borgin varð óttanum að bráð. Gyðingar hurfu í útrýmingarbúðir og gasklefa, vinnufærir Frakkar voru sendir í vinnubúðir og þeir sem eftir voru lærðu fljótlega að ekki var vænlegt að halda uppi fyrirspurnum um afdrif annarra. Aðstæður hentuðu Marcel fullkomlega.

Læknirinn Marcel Petiot ákvað að notfæra sér óttann sem einkenndi París í síðari heimsstyrjöldinni til að auðgast. Undir því yfirskini að hann væri tengdur frönsku andspyrnuhreyfingunni tókst honum að leiða tugi gyðinga og annarra í dauðann. Hann komst yfir mikil verðmæti, en fékk ekki notið þeirra sökum hrokafullrar ákvörðunar þegar stríðinu í Evrópu var að ljúka.

Marcel Petiot fæddist 17. janúar árið 1897 í Auxerre í Frakklandi. Óhætt er að segja að hann hafi ekki verið til fyrirmyndar þegar hann óx úr grasi. Á unglingsárum sínum braut hann upp póstkassa og var ákærður fyrir hvort tveggja þjófnað og skemmdarverk.

Marcel var gert að undirgangast geðmat og í kjölfarið voru kærurnar felldar niður, enda var niðurstaða geðrannsóknarinnar að Marcel gengi ekki heill til skógar andlega.

Löngu síðar fóru á kreik margar frásagnir af glæpsamlegu athæfi Marcels á æskuárum hans, en ekki talið ólíklegt að þær frásagnir hafi verið uppdiktaðar almenningi til skemmtunar.

Hvað sem því líður þá staðfesti geðlæknir slaka geðheilsu Marcels árið 1914. Marcel var vísað úr skóla mörgum sinnum, en tókst að lokum að ljúka námi í skóla í París árið 1915.

- Auglýsing -

Fyrri heimsstyrjöldin skall á árið 1914 og Marcel gerðist sjálfboðaliði og gekk í herinn árið 1916. Hann særðist og varð að auki fyrir gaseitrun í annarri orrustunni við Aisne-ána í Norður-Frakklandi í apríl eða maí ári-ð 1917. Í ofanálag sýndi hann aukin merki um taugaáfall, en það átti sennilega við ótal marga félaga hans.

Marcel var sendur til hvíldar á ýmsum stöðum, en hann gerði ýmislegt fleira en að hvílast því hann var handtekinn fyrir að taka ófrjálsri hendi teppi, morfín og ýmislegt fleira í eigu hersins. Einnig lét hann greipar sópa um veski, ljósmyndir og sendibréf úr fórum annarra sem voru lagðir inn til hvíldar á þessum hvíldarheimilum. Fyrir vikið sat hann í fangelsi í Orleans. Á geðsjúkrahúsi í Orleans var enn og aftur staðfest að Marcel glímdi við ýmsa andlega kvilla.

Engu að síður var Marcel sendur aftur í fremstu víglínu árið 1918. Hann særðist og var að lokum skráður úr hernum af heilsufarsástæðum.

- Auglýsing -

Að stríði loknu hóf Marcel nám í læknisfræði, en um var að ræða hraðnám sem uppgjafahermönnum bauðst og lauk Marcel því á átta mánuðum. Hann fór síðan í starfsnám á geðsjúkrahúsi í Evreux.

Árið 1921 útskrifaðist hann sem læknir og opnaði sína eigin stofu í VilleneuvesurYonnePetiot hafði læknaeiðinn ekki í hávegum, en rukkaði þá ríku um háar fjárhæðir og sinnti þeim fátæku ókeypis og fljótlega var það altalað í þorpinu að hjá honum væri hægt að fá fíkniefni eða fóstri eytt. Sjálfur var Marcel þá orðinn háður fíkniefnum.

Það var aldrei sannað, en ekki var loku fyrir það skotið, að fyrsta fórnarlamb Marcels hefði verið ung kona að nafni Louise DelaveauLouise var dóttir aldurhnigins málara sem var sjúklingur Marcels og áttu Louise og Marcel í ástarsambandi árið 1926.

Louise hvarf í maí það ár og síðar sögðust nágrannar Marcels hafa séð hann þar sem hann var að koma þungri byrði fyrir í skotti bifreiðar sinnar.

Lögreglan rannsakaði málið en komst að þeirri niðurstöðu að Louise hefði einfaldlega hlaupist að heiman.

Marcel náði síðar þeim árangri að verða bæjarstjóri í bænum og kvæntist Georgette Lablais, 23 ára dóttur auðugs landeiganda. Þau eignuðust son í apríl 1928.

Á meðan Marcel var bæjarstjóri fór hann frjálsum höndum um sjóði bæjarins. Eitthvað hitnaði undir honum árið 1930 þegar einn sjúklinga hans var rændur og drepinn. Grunur féll á Marcel, en ekkert var hægt að sanna. Einn sjúklinga hans þráaðist við að saka lækninn um aðild að morðinu, en hélt, merkilegt nokk, áfram að leita að bót sinna meina hjá honum. Sá sjúklingurinn dó og Petiot sagði dánarorsökina vera „af eðlilegum orsökum“.

Til að gera langa sögu stutta þá var Marcel settur af sem bæjarstjóri árið 1931. Hann var síðar ákærður fyrir að stela rafmagni frá bænum, en þegar þar var komið sögu hafði hann flutt til Parísar.

Í París opnaði Marcel sína eigin stofu við Rue de Caumartin og innan skamms var hún orðin ein sú arðbærasta í borginni. Hann kom sér upp hópi tryggra sjúklinga, enda ekki vandamál að fá hjá honum fíkniefni og fóstureyðingu. Marcel lagði áherslu á að virðast fyrirmyndarborgari og -fjölskyldufaðir. Hann sótti messur hvern sunnudag og það ásamt þeirri ímynd sem hann hafði komið sér upp forðaði honum frá ákærum vegna fíkniefnabrota og hvarfs konu einnar sem hafði sakað hann um að bera ábyrgð á því að dóttir hennar hefði orðið fíkniefnum að bráð.

Árið 1940 marseruðu nasistar inn í París og Marcel sá sér leik á borði og ákvað að koma sér upp smá hliðargrein sem myndi hvort tveggja í senn færa honum auð og fullnægja kvalalostanum. Gestapo, leynilögregla Þriðja ríkisins, hafði sömu áhrif í París og annars staðar og borgin varð óttanum að bráð. Gyðingar hurfu í útrýmingarbúðir og gasklefa, vinnufærir Frakkar voru sendir í vinnubúðir og þeir sem eftir voru lærðu fljótlega að ekki var vænlegt að halda uppi fyrirspurnum um afdrif annarra. Aðstæður hentuðu Marcel fullkomlega.

Marcel keypti herragarð sem stóð auður og hófst þegar handa við að breyta honum svo hann hentaði tilganginum. Eitt þess sem útbúið var var þríhyrnt, hljóðeinangrað herbergi með gægjugötum. Iðnaðarmönnunum sagði Marcel að herbergið væri ætlað geðsjúklingum. Miðstöðvarofn var settur í kjallarann og skömmu fyrir jólin 1941 var Marcel ekkert að vanbúnaði.

Hann lét þær upplýsingar berast að hann væri í samvinnu við andspyrnuhreyfinguna og gæti komið þeim sem Gestapo leitaði undan til Argentínu, Spánar eða jafnvel Kúbu. Örvæntingarfullt fólk setti sig strax í samband við lækninn og var sagt að flóttinn væri kostnaðarsamur, og að það þyrfti bólusetningu til að því yrði hleypt inn í nýtt land. Fólk lét ekkert aftra sér frá að nýta þjónustu Marcel. Það seldi allar sínar eigur eða lét honum þær eftir. Hvað á fætur öðru bretti fólkið upp ermarnar og fékk hina nauðsynlegu bólusetningu. Síðan sagði Marcel því að hraða sér í þríhyrnda herbergið. Ekkert þeirra kom þaðan lifandi út. Þegar læknirinn var þess fullviss að eitrið hefði virkað dró hann lík fólksins niður í kjallara þar sem hann kalkaði þau og tróð þeim svo inn í brennsluofninn. Að því loknu tók við nosturslegt bókhald; greiðslur frá hverju og einu fórnarlambanna, skartgripir, loðkápur, gull og silfur.

Um átján mánaða skeið tókst Marcel Petiot að samræma það að lækna sjúklinga sína í Rue Caumartin og drepa þá á herragarðinum. Reyndar fannst eiginkonu hans hann oft vera þreyttari en góðu hófi gegndi. Marcel kom jafnvel vini sínum, Paul Braumberger lækni, fyrir kattarnef. Braumberger var svo ólánsamur að vændiskonan sem hann hafði gert út, hafði verið tekin traustataki af þýskum hermönnum og gat því ekki aflað honum fjár til að fullnægja fíkniefnaþörf hans lengur.

En 1943 kom snurða á þráðinn hjá MarcelGestapo furðaði sig á hvarfi nokkurra gyðinga sem þeir hugðust taka. Rannsókn leiddi í ljós að allir höfðu haft einhver tengsl við Marcel og leynilögreglan þýska fylltist grun um að Marcel væri jafnvel sá sem hann þóttist vera; samverkamaður frönsku andspyrnuhreyfingarinnar. Gestapo sendi einn af sínum mönnum til Marcel undir því yfirskini að hann yrði að komast af landi brott. Marcel hafði enga ástæðu til að gruna manninn um græsku og fékk hann því sömu meðferð og aðrir viðskiptavinir, dauðann. Nasistar tóku Marcel fastan og héldu honum um nokkurra mánaða skeið, en vörn Marcels færði honum frelsið; hann var einungis að gera það sama og nasistar, drepa gyðinga og andstæðinga nasista. Hvernig sem á því stóð var honum sleppt og hann sneri aftur til dauðaverksmiðju sinnar og líkbrennslu.

En Marcel Petiot var í vandræðum. Á meðan hann var í haldi Gestapo hafði Maurice, bróðir hans, ætlað að heimsækja hann á setrið. Maurice fann ekki Marcel, en komst hins vegar að hryllingnum sem hafði átt sér stað í kjallaranum. Vegna tryggðar við bróður sinn og andúðar í garð Þjóðverja ákvað hann þá að þegja yfir vitneskju sinni. En hann hafði séð Marcel fyrir kalkinu, án þess þó að vita til hvers það var notað. Hann var ekki reiðubúinn til að halda því áfram vegna þess sem hann hann hafði komist að. Kalkið var nauðsynlegt til að brenna líkamsleifarnar án þess að svartur þykkur reykur bærist upp um skorsteininn. Marcel var ekki á því að láta staðar numið þrátt fyrir kalkskortinn og ekki leið á löngu þar til nágranni hans hringdi í lögregluna vegna lífshættulegs reykjarmakkar. Bæði lögregla og slökkvilið mættu á staðinn, en Marcel var ekki heima. Samkvæmt orðsendingu á hurðinni var Marcel að finna á læknastofu sinni í Rue de Caumartin. Lögreglan fór á læknastofuna, en slökkviliðsmennirnir brutu sér leið inn. Þeir fundu fljótlega brennsluofninn, en það var annað sem skaut þeim skelk í bringu því úti um allt gólf voru sundurlimuð lík; brjóstkassar, fótleggir og höfuð, allt í einni bendu.

Líkamsleifar tuttugu og sjö manns fundust í kjallaranum, en Marcel fullyrti að allir hefðu verið samverkamenn nasista, sem hefðu svikið málstað Frakklands og hefðu átt skilið að vera teknir af lífi. Lögreglan var reiðubúin til að leyfa honum að njóta vafans, hún var frönsk og þrátt fyrir að hún væri undir hæl Þjóðverja bar hún þá von í brjósti að bandamenn myndu innan tíðar frelsa þá undan oki nasista. Lögreglan yfirgaf vettvanginn án Marcels. En læknirinn vissi að leikurinn var úti og yfirgaf París og lét lítið fyrir sér fara úti á landi. Á þeim tíma sneri einn lögreglumaður aftur á vettvang og fann mikil verðmæti og nákvæmt bókhald Marcels. Í ljós kom að sextíu og þrjár manneskjur höfðu endað ævi sína í þríhyrnda herberginu, og engin þeirra var svikari við Frakkland. Frásagnir af ódæðum Marcels voru í öllum blöðum, en engu að síður kaus hann ekki að láta sig hverfa í óreiðunni sem einkenndi undanhald Þjóðverja og sókn bandamanna. Hann hafði áður talað sig út úr erfiðu máli og treysti því að hann gæti gert það enn á ný. Hann hafði samband við dagblaðið Resistance (Andspyrna) og hélt því fram að nasistar hefðu komið á hann sök með því að fylla ofninn af líkum á meðan hann var í varðhaldi þeirra. Síðan gekk hann til liðs við sveitina Frjálsa Frakka undir fölsku nafni.

Mál Marcels var forgangsmál hjá lögreglunni þegar öldur stríðsins hafði lægt og lögregluna grunaði að hún myndi rekast á hann aftur. Og mikið rétt. Þegar de Gaulle hershöfðingi fór fyrir hermönnum sínum í sigurgöngu niður Champs Elysees, var ekki nema Marcel Petiot í hópnum, stoltur með bringuna þakta stolnum heiðursmerkjum. Hann hafði látið sér vaxa skegg, en tilraunin til að dyljast var of augljós. Við réttarhöldin hélt hann því fram að hann hefði aðeins drepið samverkamenn nasista, en kviðdómur lét ekki blekkjast, til þess voru sönnunargögn of afgerandi. Að morgni 26. maí, árið 1946, var höfuð hans skilið frá búknum með fallöxi. Hann hafði aflað sér mikils auðs með ódæðum sínum, en heimskulegur hroki varð til þess að hann gat ekki notið síns illa fengna fjár.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -