Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-12.2 C
Reykjavik

Níðingsverk í Neshreppi – Kona skorin á háls og karl stunginn til bana

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í nóvember, árið 1757, bar til tíðinda að hroðaleg morð hefðu verið framin að Kötluholti í Neshreppi á Snæfellsnesi.

Þar á bæ höfðu verið myrt ekkja um sextugt sem og annar sona hennar. Unglingspiltur á bænum slapp með naumindum undan morðingjanum og tilviljun réð því að hinn sonur ekkjunnar varð ekki á vegi morðingjans þennan feigðardag.

Að Kötluholti bjó þá fyrrnefnd ekkja, Katrín, ásamt tveimur sonum sínum, Stefáni og Bjarna Snorrasonum, og einnig var þar unglingspiltur, Björn að nafni. Sem fyrr segir slapp annar sona Katrínar með skrekkinn, en sá hét Bjarni og var einmitt þennan dag fjarverandi í leit að kindum.

Gest ber að garði

Í aðdraganda þessa feigðardags, þann 18. nóvember, hafði gest borið að garði í Kötluholti. Þar var á ferðinni þurrabúðarmaður undan Jökli, Jón Helgason að nafni. Umræddur Jón var af húnvetnskum ættum, en stjúpfaðir hans var lögréttumaður á Grímsstöðum í Breiðuvík, Jón Ólafsson.

Jóni var boðin gisting á bænum og allur beini. Næsta morgun varð ljóst að Jón hugði ekki á brottför í bráðina og var kannski ekki að undra því leiðindaveður var; fjúkhraglandi og frost.

Vangreidd laun

En veðrátta lék ekkert hlutverk í lengd dvalar Jóns á bænum. Hann átti þar brýnt erindi, sem var að innheimta vangoldin laun fyrir konu sína, Guðrúnu Bjarnadóttur, sem hafði verið kaupakona í Kötluholti þá um sumarið og taldi að áhöld væru um að rétt hefði verið reiknað þegar að uppgjöri kom. Reyndar var haft á orði að þau fólkið í Kötlukoti hafi haldið fast um budduna og „harðbýlt verið“.

- Auglýsing -

Þegar leið á daginn gekk Bjarni til kinda og ekki sýndi gesturinn á sér nokkurt fararsnið.

Stefán sendi Björn til verka, en gekk sjálfur út í heygarð til að taka til töðuna. Inni í bænum sat Katrín og reri fram í gráðið. Þá stóð Jón Helgason loks upp og gekk til Stefáns.

Ellefu stungusár

Af því sem Jóni og Stefáni fór á milli fer ekki mörgum sögum, en ljóst að úr urðu harðar deilur. Jón mun hafa gripið til hnífs og Stefán hugðist forða sér yfir heygarðsvegginn. Það fór ekki betur en svo að Jón náði í fætur Stefáns og skar á sinarnar í hnésbótunum. Stefán féll aftur inn fyrir heygarðsvegginn og óður af heift lagði Jón ítrekað til hans með hnífnum. Síðar taldist mönnum til að á líki Stefáns hefðu verið ellefu stunguáverkar.

- Auglýsing -

Skorin á háls

Ekki fóru átök Jóns og Stefáns hljóðlega fram, enda ekki við því að búast. Katrín hafði heyrt óhljóðin og séð út um baðstofugluggann hvað á gekk. Hún staulaðist eins hratt og hún gat út að heygarði en gekk beint í flasið á morðingjanum sem viðhafði engin vettlingatök og gerði hana höfðinu styttri á staðnum.

Að því loknu tók Jón stefnuna á fjósið, vissi sem var að þar fyndi hann unglingspiltinn Björn.

Slapp á hlaupum

Í fjósinu var unglingspilturinn önnum kafinn við fjósaverk og uggði ekki að sér. Þar fann Jón hann og hugðist ganga af honum dauðum í fjósflórnum. Stakk hann Björn fimm stungum en drengurinn náði helsærður að smjúga milli fótanna á Jóni, komast út úr fjósinu og upp á bæjarloftið, með Jón á hælunum.

Má teljast kraftaverk að piltinum hafi tekist að komast úr húsi, en það gerði hann og tók á rás frá bænum og út á lón nokkurt sem er á milli Kötluholts og Mávahlíðar. Lónið var lítt lagt og á því skæni.

Þingað við bæjardyr

Jón elti Björn út á ísskænið en það var ekki nema rétt mannhelt og gaf sig undan þunga hans. Ákvað Jón að láta af frekari eftirför og sneri heim að bæ á ný. Björn aftur á móti komst yfir lónið, enda hvort tveggja léttari en Jón og drifinn áfram af ofsahræðslu.

Komst hann að Mávahlíð gjörsamlega þrotinn kröftum og sagði frá því sem gerst hafði.

Tveir menn fóru að Kötluholti og síðar bar þar fleiri að. Þeir sáu að ljóstíra flökti innan dyra og ályktuðu að Jón væri enn í bænum. Dimmt var af nóttu þegar þar var komið sögu og við bæjardyrnar ræddu menn ræddu hvað gera skyldi.

Fjórir ríkisdalir skildir eftir

Ekki hugnaðist mönnum að ráðast til inngöngu því Jón gat leynst hvar sem var í myrkrinu innandyra.

Áður en þeir komust að niðurstöðu tók Jón af skarið, skaust út um gluggann á eldhúsinu og reið út í næturhúmið á klári einum sem stóð þar skammt undan.

Þegar karlarnir loks áræddu að fara inn í húsið og höfðu kveikt þar ljós, sáu þeir að Jón hafði brotið upp skáp og stolið 66-70 ríkisdölum, en einhverra hluta vegna skilið fjóra eftir.

Fé lagt til höfuðs morðingjanum

Sýslumaður Snæfellinga, Jón Árnason, birti lýsingu af ódæðismanninum og var lýsingin lesin tvo sunnudaga í röð eftir messu á öllum kirkjustöðum Vestur- og Norðurlands.

Einnig var lagt fé til höfuðs morðingjanum og öllum þeim er leyndu honum eða liðsinntu hótað afarkostum.

Lýsing Jóns á Jóni

Lýsing Jóns Árnasonar á Jóni Helgasyni var svohljóðandi: „Hann er á flestra meðalmanna vexti á hæð, gildur og mjög þrekinn, nokkuð lotinn í herðum, með lítið hár, nokkuð hrokkið, dökkjarpt á lit, tileygður á báðum augum, þó meir á því hægra, þykkleitur og bólugrafinn, þykkvaraður og lítill slöður í neðri vörina, nokkuð frammynntur, draugalegur og rómdimmur í máli, gegnlegur í tali, vel lesandi, nokkuð skrifandi, brúkar tóbak með allt slag, þó mest í munninn, nokkuð lagtækur á smíðar, sérdeilis á tré.“

Réttvísin náði aldrei í skottið á Jóni þessum Helgasyni þótt ýmsar getgátur hefðu verið á kreiki um ferðir hans, sumar rökstuddar en aðrar lítt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -