Miðvikudagur 15. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Niðurgangur við rætur Toupkal – Framliðinn hani og martröðin í Armed FYRRI HLUTI

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir fimm árum fékk ég þá hugmynd að fara upp á Toubkal, hæsta tindinn í Atlasfjöllunum í Marokkó. Ég hafði heyrt af frábærum fararstjóra, Mohamed, sem hafði leitt íslenskan gönguhóp um þessar slóðir. Ég setti mig í samband við kappann sem tók því strax vel að leiða mig og samferðafólk á efsta tind. Þegar undirbúningur stóð sem hæst helltist Covid yfir heimsbyggðina. Ofan á þá óáran bættist að ég þurfti að fá nýjan hnjálið. Það var því ekki fyrr en í ágúst síðastliðnum sem ég var tilbúinn og hópurinn fullmótaður, 14 manns. Flestir í hópnum voru úr Skrefunum, gönguhópi Ferðafélags Íslands sem við Guðrún Gunnsteinsdóttir leiðum.

Framliðinn hani

Hænsni slátrarans.
Fuglar í búrum bíða dauða síns við búðaborð slátrarans.

Við komuna til Marrakech tók Mohamed fararstjóri á móti okkur brosleitur, með ískalt vatn á flöskum. Það var kærkomið eftir að við höfðum þvælst í hitakófinu gegnum þrefalt eftirlitið á flugvellinum og endalausar spurningar um allt og ekkert. Eftir nótt á hóteli í borginni var lagt upp í ferðina. Mohamed var mættur með langferðabíl sem flutti okkur þá klukkustundar leið sem var að fyrsta uppgöngustaðnum í Atlas-fjöllum.

Við stöðvuðum í litlu þorpi til að kaupa vatn og annað til fararinnar. Nokkrar verslanir stóðu við götuna. Þeirra á meðal var kjötbúð. Lifandi hænsnfuglar voru í búrum við afgreiðsluborðið. Fólk brá nokkuð í brún þegar slátrarinn teygði sig í fugl og sneri hann á einu augabragði úr hálsliði. Seinasta sýn hans í þessu jarðlífi var hópur af forviða Íslendingum í útivistarklæðnaði. Haninn var hamflettur á mettíma og kominn í kjötborðið fyrr en varði. Þarna var svo sannarlega stutt á milli lífs og dauða og engir milliliðir til að smyrja kostnaði á kjötmetið. Seinna skaut niður þeirri hugsun hvort haninn framliðni hefði verið með okkur í för um fjallaskörð og dali.

Asni í Marokkó

Það vakti mikla athygli þegar við ókum í gegnum bæ sem heitir því merkilega nafni Asni. Þar eru markaðir af ýmsu tagi. Meðal annars er hægt að kaupa þar múldýr og asna. Meðalverð á einu múldýri er um 170 þúsund íslenskar krónur. Það er stöðutákn í fjallaþorpunum að eiga múldýr sem eru nauðsynleg til að ferðast og flytja vörur á þessu fjallasvæði. Asnarnir eru ekki til þess fallnir að bera þungar byrðar upp fjallið og þeir sem eiga slík dýr eru skör neðar í virðingarstiganum. Eftir um klukkustundar akstur komum við að uppgöngustaðnum í tæplega 2000 metra hæð. Þar biðu okkar fimm múldýr með jafnmarga umsjónarmenn. Að auki var kokkur sem fylgdi hópnum. Þessum 14 manna gönguhópi frá Íslandi fylgdu því sjö aðstoðarmenn.

Fjögur múldýranna höfðu það hlutverk að flytja farangur okkar í næsta áfangastað en fimmta dýrið var til aðstoðar hópnum, svokallaður aðstoðarmúli. Þar var inni í myndinni að ef einhver væri við það að gefast upp gæti hann farið á bak múlasnanum. Eitt slíkt tilvik kom upp á leið okkar upp fjallaskarðið. Sú sem nýtti sér farið var umsvifalaust útnefnd sem „Drottningin af Múla“.

Toupkal Marokkó
Veislan í skarðinu.

Kokkurinn og múldýrin fjögur fóru á undan okkur. Þegar komið var upp í Tizi-skarðið, 2300 metra yfir sjávarmáli, kom það göngumóðum ferðalöngum á gleðilega óvart að búið var að „dúka borð“ eða öllu heldur breiða úr dúk á jörðina og bera fram dýrindis málsverð æi brakandi blíðu og glampandi sólskini. Eftir klukkustund í vellystingum var haldið áleiðis niður fjallið hinum megin. Margir voru orðnir þreyttir þegar komið var í náttstað í Idissa eftir 14 kílómetra göngu og hækkun sem nam um 800 metrum. Það var gott að komast í hvíldina. Annað eins ferðalag beið okkar daginn eftir.

- Auglýsing -
Þorpið Idissa þar sem við gistum eina nótt. Húsin eru fremur óhrjáleg. Þar búa menn og skepnur í sátt.

Eftir staðgóðan morgunverð var haldið af stað að nýju. Við gengum úr einu  fjallaþorpi í annað. Þetta svæði hafði verið úr öllu vegasambandi þar til fyrir nokkrum mánuðum síðan. Íbúarnir lifa einföldu lífi og eru sjálfum sér nægir með flest. Margir eiga geitur og kindur sem nýtar eru til framfærslu. Geitur, menn og múldýr búa gjarnan undir sama þaki. Á leið okkar höfðum við séð nokkrar hjarðir sem bændurnir gættu sjálfir sumarlangt. Fjölskyldur þeirra færa þeim mat upp í fjöllin með nokkurra daga millibili. Annars eru þeir einir með kindunum og sváfu undir beru lofti. Fábrotið líf hirðingjans en samt svo heillandi. Maður, hundur og hópur af kindum eða geitum.

Magakveisa og stutt skref

Við fórum beint upp úr þorpinu og stefndum upp í næsta skarð. Algengt var að menn héldu úti sölubúðum sem voru einfaldlega lúgur og nokkurra fermetra verslunarrými. Þar var hægt að fá gosdrykki, súkkulaði og snakk af ýmsu tagi. Fljótlega eftir að við lögðum á fjallið fann ég til óþæginda í maga. Áhyggjur mínar fóru vaxandi. Við vorum á leið til þorpsins Armed þar sem við myndum gista og halda síðan áleiðis upp í grunnbúðir Toubkal, daginn eftir. Þegar kom upp skarðið var eins og daginn áður búið að slá upp veislu. Ég var lystarlaus en píndi ofan í mig mat. Niðurleiðin var vandræðaleg. Ólgan í maganum fór vaxandi og þrýstingurinn var ýmist upp eða niður. Mér virtist sem jafnar líkur væru á uppköstum og niðurgangi. Skrefin voru orðin stutt og útvíkkun greinilega komin að efri mörkum. Á síðustu stundu náði ég að skjótast inn í runna og létta á mér með tilheyrandi gný. Ég dauðskammaðist mín og leit flóttalega í kringum mig með buxurnar á hælunum. Sem betur fór var stutt eftir til þorpsins Armed. Þegar ég kom inn á gistiheimilið var kominn tími á næstu lotu. Mér létti við að sjá vatnssalerni í stað holu í gólfi. Ég komst ekki í kvöldverðinn en hélt að mestu til á salerninu. Svo kom nóttin með innantökum og höfðuðverk. Við höfðum pantað okkur far með loftbelg við lok ferðalagsins. Í hitakófinu staglaðist ég á því að ég fengi allavega að fara í loftbelg. Ég var hundveikur og möguleikar á því að toppa voru út úr myndinni. Dauði haninn birtist mér í gegnum mókið. Fimm ára plan var í uppnámi. Um morguninn var tekin ákvörðun um að ég yrði eftir á sjúkabeðnum. Líklega var ég að glíma við matareitrun af einhverju tagi. Guðrún vildi taka að sér hjúkrunarstörf og fórnaði tindinum líka. Ég samþykkti það með semingi eftir að hafa maldað í móinn.

Áningarstaður í hlíðum Atlas-fjalla. Appelsínusafi og gos til sölu. Mynd: Reynir Traustason.

Mohamed hét því af stað með hópinn í morgunsárið en við sátum eftir. Vonbrigðin blöstu við. Ég svaf allan daginn og náði nokkurn veginn jafnvægi á meltinguna. Síðdegis fengum tilkynningu um að hópurinn væri kominn upp í grunnbúðir þar sem gist yrði um nóttina í 3200 metra hæð. En það var jafnframt áhyggjuefni að það stefndi í leiðindaveður daginn eftir þegar hópurinn myndi toppa. Síðasti áfanginn upp á Toubkal felur í sér 900 metra hækkun. Þá er enginn stuðningur af múldýrum. Þetta er einfaldlega of grýtt og bratt fyrir dýrin sem biðu í grunnbúðum.

- Auglýsing -

Toppadagurinn rann upp. Ég var miður mín vegna ástandsins og að ferðin væri í uppnámi eftir allan undirbúninginn. Ég var orðinn rólfær og við röltum um þorpið sem kúrir í snarbrattri fjallshlíðinni. Heimamenn tóku okkur undantekningalaust brosandi. Fjölskyldufaðir bauð okkur að koma inn. Þar beið okkar kaffi, te og með því. Lítið var hægt að tala saman en það skipti minnstu máli. Við áttum gæðastund með fjölskyldunni.

Kaldrifjað morð í beinni

Við létum okkur detta í hug að rölta áleiðis í næsta þorp ofan við Armed. En þá mætti okkur hindrun. Varðskýli var á gönguleiðinni og vopnaður vörður stöðvaði okkur. Við máttum ekki fara lengra nema með innlendum leiðsögumanni. Seinna fengum við þá skýringu að eftir að tvær skandínavískar stúlkur voru myrtar árið 2018 af öfgamönnum örfáum, kílómetrum ofar á gönguleiðinni var öllu lokað. Málið vakti heimsathygli vegna þess hve þaulskipulögð morðin voru. Stúlkurnar höfðu verið hálshöggnar í beinni útsendingu á netinu. Dögum saman höfðu illvirkjarnir ásamt aðstoðarfólki sínu fylgst með þeim áður en til skarar var látið skríða. Þrír menn voru dæmdir til dauða fyrir ódæðið. Þremur árum seinna eru þeir enn á lífi.

„I’ll be back“

Við fengum góðar fréttir af hópnum. Af þeim 12 félögum okkar sem lögðu upp á tindinn komust 10 á toppinn. Tvær urðu háfjallaveikinni að bráð og snéru við í tæplega 4000 metrum. Ferðin reyndi mjög á fólk því sannkallað slagviðri var á efsta tindi og útsýnið ekkert. En upp fór hópurinn í vitlausu veðri. Ég velti stöðunni fyrir mér og ákvað að ég gæti ekki annað en reynt öðru sinni. I’ll be back. Guðrún var sammála. Hópurinn svaf aðra nótt í fjallaskálanum í grunnbúðum. Daginn eftir komu þau niður í þorpið. Það urðu fagnaðarfundir.

Framhald.

Ferðasaga þessi birtist í nýjasta tímariti Mannlífs og má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -