Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Noregsför 1. hluti: „Þú getur sagt þessum hálfvitum að þetta hafi verið keypt á Íslandi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ámundi Loftsson og eiginkona hans, Unnur Garðarsdóttir, ákváðu að flytja af landi brott nokkrum árum eftir hrunið. Eftir að hafa íhugað nokkra valkosti komust þau að þeirri niðurstöðu að Noregur væri fýsilegur kostur.

Ámundi, sem fæddist árið 1953, hefur drepið víða niður fæti á starfsævi sinni. Hann varði unglingsárunum í sveit og vann þá almenn sveitastörf. Síðar vann hann hjá RARIK, starfaði á vélaverkstæði og einnig stundaði hann sjómennsku í um tíu ára skeið.

Enn síðar starfaði hann við landbúnaðarstörf, eftir að hann og eiginkona hans tóku við búi foreldra hennar í Reykjadal í Þingeyjarsveit. Á þeim tíma þurfti hann að taka nokkrar glímur við landbúnaðarkerfið. Enn síðar vann hann við viðhald á húsum og margt fleira.

Hvað sem því öllu líður þá gengu búferlaflutningar hjónanna ekki snurðulaust og þau hjónin þurftu að heyja nokkrar glímur við kerfið, hvort tveggja hér á landi og í Noregi. Flutningasaga fjölskyldunnar verður reifuð hér í þremur hlutum og fjallar fyrsti hlutinn um ferðalag hennar frá Kópavogi til Seyðisfjarðar og þaðan til Noregs.

 

Þegar um fimm ár voru liðin frá efnahagshruninu fórum við Unnur Garðarsdóttir, kona mín, að hugleiða og ræða þá hugmynd að flytja frá Íslandi. Ástæðurnar voru að tvísýnt var hvort okkur héldist á eignum okkar á Íslandi og einnig sú að við vildum líka víkka sýn fatlaðrar dóttur okkar á heiminn og hjálpa henni að auka við reynslu sína í öðru landi.

- Auglýsing -

Við vorum með hugann við Kanada. Unnur á þar ættingja sem sumir höfðu heimsótt fjölskyldu hennar meðan við bjuggum í Þingeyjarsýslu. Noregur var okkur líka ofarlega í huga. Unnur hafði verið þar í skóla og gat alveg hugsað sér að flytjast þangað.

Það sem gerði þann kost líka betri var að nú var komið vegasamband með ferjusiglingum milli Íslands og meginlands Evrópu. Það gerði okkur fært að fara á bíl og hafa með okkur flest það sem við þurftum. Stefnan var því tekin á Noreg.

Í nóvember 2014 höfðum við samband við ferðaskrifstofu Smyril Line, sem er eina fyrirtækið í þessum siglingum, og spurðum um allt sem við töldum okkur þurfa að vita. Við fengum greið svör og meira að segja aðstoð við farseðlakaup alla leið. Ferðin var fyrirhuguð í byrjun árs 2015.

- Auglýsing -

Við eigum gamlan, amerískan pikköpp með rúmgóðum palli og keyptum líka lítinn Peugeot sem til stóð að vera á ytra, í það minnsta til að byrja með. Við útbjuggum yfirbyggingu á pall pikköppsins og báðir bílarnir fylltir með hafurtaski.

Pallpíllinn Fararskjótinn öflugi um borð í ferjunni á leið til Noregs.

Um það bil sem við vorum ferðbúin var hringt í okkur frá fyrirtækinu á Seyðisfirði og okkur sagt að ferjan myndi láta úr höfn átta tímum fyrir áætlaða brottför. Veðurspá væri með þeim hætti að skipstjórinn teldi óráð að bíða með brottför.

Unnur hafði verið boðuð á fund vegna atvinnuumsóknar í Noregi sem ekki var hægt að fresta og því ekki um það að ræða að fresta hennar för. Við vorum líka í sambandi við fólk sem beið okkar vegna leigu á íbúð.

Tókum við þá ákvörðun að reyna að ná ferjunni, þrátt fyrir að brottför hefði verið flýttr. En við urðum eins óheppin með veður og færð sem hugsast gat. Aðra eins ofankomu og við lentum í höfum við aldrei séð, hvorki fyrr né síðar. Þá var vegurinn milli Víkur og Hornafjarðar eitt samfellt glærasvell og við misstum af ferjunni.

Móttökurnar sem við fengum á Seyðisfirði þóttu okkur heldur ruddalegar. Var okkur sjálfum kennt um ófarir okkar og sagt að fyrirtækið væri fyrst og fremst í fraktsiglingum, en ekki í farþegaflutningum á þessum árstíma. Orðaskakinu lauk þó með því að skipafélagið fékk inni með bílana hjá Tollinum á staðnum fram að næstu ferð.

Kostaði þessi uppákoma okkur fleiri hundruð þúsund í hótelgistingu, flugferðum o.fl. Þær mæðgur fóru með flugi til Noregs og ég fór svo einn með báða bílana til Danmerkur viku síðar.

Unnur kom á móti mér til Hirtshals með Noregsferjunni og degi síðar lauk för okkar til Noregs.

Nýja landið

Aðlögun Unnar að nýjum aðstæðum gekk ágætlega og hún fékk strax vinnu við leikskóla og líkaði vel, hún var í afleysingum hingað og þangað til að byrja með, en var svo fastráðin við nýjan skóla í hverfi í byggingu. Það var víða mikið byggt og afköstin gríðarleg.

Öðru máli gegndi með Auði Lilju, dóttur okkar. Hún er þroskaheft, en engu að síður hæfileikarík. Hún hefur tvisvar verið valin til þátttöku fyrir Íslands hönd á Special Olympics, fengið verðlaun fyrir handverk og er fluglæs og vel talandi á ensku. Hún hafði unnið á sama vinnustað á Íslandi í meira en sex ár og hafði topp vitnisburð í farteskinu.

Mikið var reynt, en engu skipti hvernig róið var. Í Noregi fékk hún ekki vinnu og þar við sat. Það rann smám saman upp fyrir okkur að þroskahamlað fólk sést þar hvergi á almennum vinnustöðum. Í það minnsta sáum við það hvergi.

Við unnum samantekt yfir þessar umleitanir okkar og árangursleysi þeirra og sendum samantektina til stofnunar sem fer með stjórnsýslueftirlit í viðkomandi fylki. Í svari við erindinu fengum staðfestingu á að sýn okkar á þennan veruleika er rétt. Noregur virðist vera langt á eftir tímanum í málefnum þroskahamlaðra.

Það eina sem Noregur gerði fyrir Auði Lilju var að veita henni aðild að hópi fatlaðra sem kom saman tvo klukkutíma einu sinni í viku í föndurklúbbi.

Norski skatturinn lét hana hins vegar aldrei í friði og fékk hún árlega á sig skattkröfu þótt hún hefði engar tekjur í Noregi. Hennar einu tekjur komu frá Íslandi þar sem hún greiddi af þeim skatt. Á hverju ári kostaði það okkur mikla fyrirhöfn og útlát að fá þessum kröfum aflétt.

Að þetta yrði hin endanlega niðurstaða varð okkur ekki ljóst fyrr en það langur tími var liðinn að ekki var auðvelt frá að hverfa og fara aftur til Íslands.

Ekki er nokkrum vafa undirorpið að atvinnuleysi Auðar Lilju þau rúmu sex ár sem á Noregsdvölinni stóð, varð henni stórskaðlegt. Þennan tíma hafði hún í raun ekkert við að vera. Hlustaði mikið enskar hljóðbækur, las líka töluvert og var í tölvuleikjum. Félagslega var hún algerlega einangruð, ef frá eru taldir þessi eini vikulegi tími í föndrinu.

Íslandsför

Þegar rúmt ár var liðið af dvölinni í Noregi fór stofnun sú sem fer með bifreiðamál þar að amast við bílnum sem var enn á íslensku skráningarnúmeri og keyptum við þá annan bíl, en ég fór með hinn til Íslands aftur. Áður spurðumst við aðeins fyrir um hvort einhverjir gætu haft gagn af þessu ferðalagi eða jafnvel farið á bílnum. Það varð til þess að hann var fylltur af pappakössum frá fólki sem bjó í nágrenni við okkur og var að flytja til Reyðarfjarðar. Þetta kom sér vel og minnkað ferðakostnaðinn aðeins.

Þegar til Seyðisfjarðar kom setti Tollurinn þar upp skemmtilegt leikrit. Vitanlega gat ég engu svarað um hvað væri í þessum pappakössum. Það eina sem ég gat sagt var að þetta væri hluti búferlaflutninga og eðlilega fylgdi þeim dót. Þá var ég upplýstur um að í svona tilfellum yrði að fylgja nákvæm skrá yfir allt innihald. Það kom að góðum notum síðar.

Voru svo allir kassarnir rifnir upp og innihaldið grandskoðað. Og þá kom babb í bátinn. Þarna voru kryddstaukar, matarolíuflaska og eitthvað fleira sem samanlagt fór fram úr leyfilegu magni á innflutningi matvæla. Samanlagt mátti það ekki vera nema fjögur kíló. Hringdi ég þá í frúna á Reyðarfirði sem beið eftir dótinu og sagði henni frá þessum „alverlegu ógöngum“. Viðbrögð hennar eru eftirminnileg og bað ég hana að endurtaka þau og kveikti á hátalaranum í símanum þar sem leikritið fór fram. „Þú getur sagt þessum hálfvitum að þetta hafi allt verið keypt á Íslandi og sé að koma til baka“. Skömmu síðar var allt dótið komið til Reyðarfjarðar og ég heim í Kópavog.

Í næsta hluta, sem birtist miðvikudaginn 21. febrúar, segir frá forsögu ferðalagsins, heimsókn til Íslands, glímu við íslensk tollyfirvöld og fleiru.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -