Ámundi Loftsson og eiginkona hans, Unnur Garðarsdóttir, ákváðu að flytja af landi brott nokkrum árum eftir hrunið. Eftir að hafa íhugað nokkra valkosti komust þau að þeirri niðurstöðu að Noregur væri fýsilegur kostur.
Ámundi, sem fæddist árið 1953, hefur drepið víða niður fæti á starfsævi sinni. Hann varði unglingsárunum í sveit og vann þá almenn sveitastörf. Síðar vann hann hjá RARIK, starfaði á vélaverkstæði og einnig stundaði hann sjómennsku í um tíu ára skeið.
Enn síðar starfaði hann við landbúnaðarstörf, eftir að hann og eiginkona hans tóku við búi foreldra hennar í Reykjadal í Þingeyjarsveit. Á þeim tíma þurfti hann að taka nokkrar glímur við landbúnaðarkerfið. Enn síðar vann hann við viðhald á húsum og margt fleira.
Hvað sem því öllu líður þá gengu búferlaflutningar hjónanna ekki snurðulaust og þau hjónin þurftu að heyja nokkrar glímur við kerfið, hvort tveggja hér á landi og í Noregi. Flutningasaga fjölskyldunnar verður reifuð hér í þremur hlutum og fjallar fyrsti hlutinn um ferðalag hennar frá Kópavogi til Seyðisfjarðar og þaðan til Noregs.
Söguskýring
Víkur nú sögunni aðeins aftur í tímann og að aðstæðunum á Íslandi. Bæði fyrir og eftir bankahrunið var nokkuð um skakkaföll. Árið 2006 varð ungur maður sem ég hafði í vinnu fyrir alvarlegu slysi og var vart hugað líf í nokkrar vikur. Tryggingar stóðu ekki undir væntingum sem leiddi til þess að fjárhagur minn sligaðist nokkuð. Því betur náði þessi maður nánast fullum bata.
Þá kom bankahrunið og tók nærri fyrir alla vinnu og tekjur urðu nánast engar. Í árslok 2009 lenti ég svo í slæmu bílslysi og átti í afleiðingum þess fram á árið 2013.
Það gekk á ýmsu á þessum tíma og hafði ég því miður ekki þau tök á mínum málum sem vera skildi. Er ég einn þeirra sem settu mál sín í hendur Umboðsmanns skuldara og uppskáru ekkert annað en tjón og hærri skuldir. Var mér vikið frá úrræðum Umboðsmanns á þeim forsendum að hafa ekki lagt fyrir sjö milljónir króna meðan ég var óvinnufær eftir slysið 2009.
Var mér eindregið ráðlagt af glöggu fólki að flytja lögheimili mitt alls ekki frá Íslandi meðan fjármál mín voru í ólagi, staðan til samninga yrði þá mun verri og fór ég að þessum ráðum. Það var svo 2017 sem samningar náðust. Héldum við Unnur eigum okkar og fjárhagurinn komst í sæmilegar skorður.
Þegar hér var komið var orðið heldur seint fyrir mig að flytja búsetu mína alfarið til Noregs og leita að vinnu þar. Ég hafði verkefni sem gáfu viðunandi tekjur – miðað við hófsamar kröfur. Ég var að mestu sjálfs mín ráðandi og gat verið töluvert úti í Noregi hjá Unni.
Veikindi og bílakaup
Snemma árs 2018 veiktist sonarsonur okkar Unnar af krabbameini.
Veikindi þessi ollu nokkurri truflun á högum mínum. Síðari hluta þessa árs var hann á sjúkrahúsi í Stokkhólmi í þrjá mánuði og náði fullum bata. Foreldrar hans höfðu skilið allnokkru áður.
Varð þá að ráði okkar Unnar að kaupa bíl í Noregi og lána hann móður drengsins meðan á dvöl þeirra í Stokkhólmi stæði. Fékk ég frænku mína sem lengi hefur búíð í Noregi til liðs við mig. Keyptum við gamlan Opel station og fórum á honum til Stokkhólms.
Áður en lagt var í þetta ferðalag spurðist Unnur fyrir um það hjá tryggingafélaginu sem hún skipti við hvort það væri á einhvern hátt andsætt reglum að Íslendingur væri á bíl á norskri skráningu í Svíþjóð. Í fyrstu skildi starfsmaður tryggingafélagsins ekki spurninguna og spurði á móti hvers vegna það ætti að geta verið og spurði hvort viðkomandi væri ekki með bílpróf. Ef bíllinn væri skoðaður og öll gjöld í skilum mætti hver sem er vera á honum hvar sem væri. Hafði móðir drengsins bílinn svo til afnota í um tíu vikur, eða þar til sjúkrahúsdvölinni í Stokkhólmi lauk.
Meðan á fjarveru þeirra stóð varði ég mestu af tíma í lagfæringar á íbúð hennar í Reykjavík. Þegar þau voru komin til Íslands aftur sóttum við frænka bílinn til Stokkhólms og var ég svo í Noregi framyfir áramót. Sem vænta mátti urðu þessi atvik til þess að tök mín losnuðu á þeirri vinnu sem ég hafði haft og fjárhagurinn versnaði.
Íslandsförin 2019
Á árinu 2019 ætlaði Unnur að koma tvisvar til Íslands. Fyrst um páska vegna fermingar í fjölskyldunni og svo vildi hún eyða sumarfríinu sínu á Íslandi. Nú áttum við tvo bíla í Noregi og varð að ráði að ég færi á öðrum þeirra á undan henni svo hún hefði hann til afnota í þessi tvö skipti. Við ætluðum líka að fara með eitthvað af dóti til Íslands og koma svo með annað til baka eftir sumarfríið, dót sem ekki væri gott að vera með í flugferðum. Þetta fór á talsvert annan veg.
Þegar ég kom til Seyðisfjarðar var för mín stöðvuð og ekki við það komandi að ég fengi að halda henni áfram nema að bíllinn færi á íslenska skráningu. Til að fá að halda áfram varð ég að una við að greiða hátt í fjörutíu þúsund fyrir farmbréf í viðbót við fargjaldið. Þetta var sagt vera alveg nauðsynlegt.
Unnur gat svo notað þennan bíl í fyrri för sinni til Íslands, en skömmu eftir páska hirti Tollurinn númerin af honum í skjóli nætur inná lóð heima í í Kópavogi. Þegar hún kom svo frá Noregi um sumarið var henni meinuð not af honum. Gilti einu þótt hann væri skráður í umferð í Noregi og öll gjöld í skilum. Vegna þess að hún hafði ekki komið á honum sjálf til landsins fékk hún ekki að vera á þessum bíl sínum. Keyptum við þá enn einn bílinn svo hún kæmist ferða sinna, en venslafólk hennar býr bæði á suður- og norðurlandi.
Fékk ég svo náðarsamlegast að fara á norska bílnum aftur úr landi gegn framvísun á farseðli tveim dögum fyrir brottför. Það var í febrúar 2020 þannig að ég rétt slapp út áður en farsóttin yfirtók heiminn. Þegar sýnt var að farsóttin yrði þrálát ákvað ég að fara ekki til Íslands fyrr en eftir páska. Það varð bara ekki alveg ljóst hvaða páska.
Síðasti kafli þessarar sögu birtist á Mannlífsvefnum föstudaginn 23. febrúar.