Föstudagur 25. október, 2024
6.9 C
Reykjavik

Nýja YouTube-þráhyggjan mín

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég er mikill YouTube-maður. Ég horfi á myndbönd á meðan ég elda, set í uppþvottavélina, á meðan ég tannbursta mig og sit á klósettinu. Mætti segja að þetta sé orðið að vandamáli hjá mér. Síðastliðið árið hef ég mestmegnis horft á sönn erlend sakamál, svokölluð „True Crime“-myndskeið, sem og draugamyndbönd. Draugamyndböndin eru hálfávanabindandi, en þar má sjá missannfærandi myndbönd af meintum draugagangi hjá venjulegu fólki, en einnig má finna aragrúa af draugaveiðimyndbanda (e. ghost hunters), sem sömuleiðis eru missannfærandi. En ég ætla hvorki að skrifa um hræðilega glæpi sem venjulegt fólk fremur, né um drauga sem hrella saklaust fólk á heimilum þeirra. Nei, ég ætla að tala um klaufalækningar á kúm.

Fyrir nokkrum vikum rakst ég fyrir tilviljun á stutt myndband, sirka tvær mínútur, þar sem sérfræðingur í lækningum á klaufum kúa, sýndi listir sínar. Innra með mér kviknaði ljós. Ég veit ekki alveg hvernig ég get útskýrt þetta, en það að sjá manninn fletta neðan af klaufunum eins og um parmesanost væri um að ræða, með flugbeittum hníf, þar til að meinið sem hrjáir kúna, kemur í ljós, var ótrúlega gefandi. Að sjá þegar bleikur vökvinn spýtist út úr holunni sem kemur í ljós eftir að nógu mörg lög af hyrninu hafa verið skorin í burtu, er ótrúlega fullnægjandi, það er að segja, það veitir mér mikla hugarfró. Sennilega er ástæðan sú að ég get sett mig í spor kýrinnar sem hlýtur að finna til gríðarlega mikils léttis þegar þrýstingurinn hverfur með hverri gusu úr sárinu. Svo horfir maður á það þegar sérfræðingurinn úðar vökva yfir sárið og vefur svo utan um það klúti og límir kubb á heilbrigðan hluta klaufanna svo kýrin þurfi ekki að ganga á sárinu. Smá saman hef ég fært mig yfir í lengri myndbönd, sem eru um átta mínútur að lengd, en þar fær maður frekari upplýsingar um það sem gert er. Oftar en ekki eru sérfræðingarnir í myndböndunum breskir og því auka bónus að hlusta á skemmtilegan hreiminn. Áður en ég veit af verð ég sjálfsagt farinn að horfa á heilu heimildaþættina um þessa listgrein, klaufalækningar.

Ef maður rýnir aðeins í sálfræðina á bak við þetta nýja áhugamál mitt má líklegast staðhæfa að um einhvers konar mótvægi við morð og viðbjóð sé að ræða – að ég sæki ómeðvitað í eitthvað á borð við klaufaskurði og -lækningar til að friða hugann eftir öll myndböndin sem sýndu mér að venjulegt fólk getur framið hræðilegustu glæpi án nokkurs samviskubits. En fyrir utan það eru þessi nýuppgötvuðu myndbönd afar fræðandi. Ég, sem þó bjó í sveit sem barn, hafði ekki hugmynd um að kýr þyrftu á slíkri hjálp að halda, en auðvitað þurfa þær hana, rétt eins og mannfólkið þarf hjálp við að viðhalda fótum sínum.

Mér líður hálfpartinn eins og eiturlyfjafíkli sem er að reyna að koma öðrum í vímu … en ef þú, kæri lesandi ert forvitinn um þetta get ég bent þér á að leita að The Hoof GP á YouTube, þú verður ekki fyrir vonbrigðum.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -