Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Ofstjórn og óreiða í Grindavík: Gos eða ekki gos, þarna er efinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ástandið í Grindavík einkennist af ofstjórn og óstjórn í bland við ótta við hið ókomna. Alið hefur verið á ofsahræðslu íbúa. Frá því á aðfaranótt föstudagsins hefur bærinn verið tómur og íbúarnir á vergangi. Ástæðan var vissa vísindamanna um að eldgos væri í vændum. Mínútuspursmál, sögðu sumir. Aðrir töluðu um klukkustundir eða daga. Úlfur, úlfur.

Eftir harða jarðskjálfta á föstudaginn var gripið til þess að tæma byggðarlagið. Sýslumaðurinn á Suðurnesjum fyrirskipaði nær 4.000 manns að hverfa á brott á örskammri stund og um miðja nótt. Auðvitað er það skiljanlegt öllum að þegar vá er fyrir dyrum er eðlilegt að rýma svæði og tryggja sem best öryggi fólks og dýra.

Í dag er runninn upp fjórði dagurinn í lokun Grindavíkur. Eldgosið er enn ekki komið og fátt vitað um framvindu í 15 kílómetra sprungunni sem liggur frá Sýlingafelli, gegnum Grindavík og áfram um Eldvörp. Menn tala um sprengigos, en enginn virðist geta svarað líkunum á að það gangi eftir eða hvers eðlis gosið verði, ef af því þá verður. Stórtjón blasir við vegna stöðvunar samfélagsins.

Fyrir helgi sögðu vísindamenn ýmist að Grindavík væri örugg eða ekki. Þorvaldur Þórðarson prófessor lýsti því yfir í síðustu viku að stutt væri í gos og réttast væri að rýma Grindavík. Almenningur vissi ekkert í sinn haus og óttinn við hið ókomna skaut rótum. Það styttist í móðursýki. Svo komu jarðskjálftarnir og taugar yfirvalda brustu. Víðir Reynisson, talsmaður Almannavarna, tilkynnti að Grindvíkingar ættu að rýma bæinn tarfalaust. Örskömmu áður hafði hann andmælt Þorvaldi prófessor og sagt að Grindvíkingar gætu sofið rólegir heima.

Það er ekkert athugavert við að rýma svæði þegar ógn steðjar að. Hins vegar verður að gæta hófs í því eins og öllu öðru. Það er er ekki boðlegt að ala á ofsahræðslu íbúa á tilteknum svæðum þegar forsendur eru í besta falli vafasamar. Þá er það beinlínis háskalegt þegar ofstjórn tekur völdin og frelsi einstaklingsins verður á einu augabragði afnumið að miklu leyti eða öllu. Við munum ástandið sem spratt upp í Covid þegar lögreglan hundelti fólk um allar koppagrundir og svipti frelsi á þeim forsendum að það væri í þágu almannahagsmuna. Þríeykið fræga varð skyndilega einráðandi og þjóðin öll var í sóttkví og sumir í algjörri einangrun. Alþingi og ríkisstjórn dingluðu hlutlaus með.

Staðan nú varðandi Grindavík er ekki ólík. Fólk er rekið að heiman og meinað að snúa aftur til að sækja persónulega muni sína nema um örskotsstund og þá undir eftirliti. Sérsveit ríkislögreglustjóra, almennir lögreglumenn og björgunarsveitarmenn gættu þess að enginn óviðkomandi fengi að fara inn á svæðið. Lögregluríkið raungerðist í Grindavík.

almenningur er á valdi rauðra og gulra viðvarana

- Auglýsing -

Staðan í Grindavík er afar óljós núna. Gos eða ekki gos, þarna er efinn. Þá veit enginn hvar það kemur upp ef af verður. Enginn getur svarað því hvort um verður að ræða sprengigos eða vinalegt túristagos eins og gerðist við Fagradalsfjall og seinna við Litla-Hrút. Getur verið að jarðsjór undir Svartsengi verði til þess að hamfarir spretti af? Hvert er þá áhrifasvæðið? Vísindin ná ekki utan um þetta og almenningur er á valdi rauðra og gulra viðvarana um hitt og annað. Til að toppa móðursýkina hefur Alþingi samþykkt skatt á alla fasteignaeigendur til að verja einkafyrirtækið HS-Orku sem er að stórum hluta í eigu Breta. Fyrirtækið er, rétt eins og Bláa lónið, afar stöndugt og á með réttu ekki að þiggja skattfé Íslendinga til að reisa varnargarða sem við vitum þess utan ekki hvort eru nauðsynlegir.

Það er mikil gæfa að jarðskjálftarnir á Grindavíkursvæðinu hafa ekki kostað mannslíf. Tjón á eignum er auðvitað slæmt en slíkt má bæta. Grindvíkingar eiga allt gott skilið, en eins og staðan er núna eru raunir þeirra mestmegnis af mannavöldum. Sú stjórnhyggja að leyfa fólki ekki að fara inn á svæðið nema í mýflugumynd til að huga að eigum sínum eða bjarga dýrum er beinlínis háskaleg og ekki í anda þess lýðræðis sem við viljum kenna okkur við. Hver íbúi á að hafa um það val hvort hann vilji taka áhættuna af því að búa á staðnum, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar.

Óttinn við hið ókomna má ekki verða til þess að valda íbúum meira tjóni en þeir atburðir sem hugsanlega gátu eða geta orðið. Við eigum að hlusta á vísindamenn og fara eftir niðurstöðum þeirra þegar þeir eru einróma. En þegar skoðanir eru út og suður og enginn veit hvað gerist í iðrum jarðar verða stjórnmálin að grípa inn í og taka af skarið. Þar þarf réttur Grindvíkinga að vera í fyrirrúmi. Lögregluríkið má ekki taka yfir. Í dag blasir við að ofstjórn og óreiða er ríkjandi í málefnum bæjarins. Það ætti að vera forgangsverkefni að koma Grindvíkingum heim aftur og lagfæra það sem fór úr skorðum. Ísland er land náttúruhamfara af ýmsum toga. Snjóflóð, jarðskjálftar, vatnsflóð, skriðuföll og eldgos eru eitthvað sem við höfum lifað með um aldir. Grindavík mun ná fyrri styrk, hvernig sem allt veltur, og það er skylda okkar að halda áttum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -