Fimmtudagur 24. október, 2024
2.6 C
Reykjavik

Ömurleg og taumlaus græðgi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrirhuguð sala Símans á Mílu og þar með dreifikerfinu um allt land til franska fyrirtækisins Ardian France SA, er verknaður sem engin ástæða er til þess að fyrirgefa ef raungerist. Dreifikerfið er einn af mikilvægustu innviðum Íslendinga og á skilyrðislaust að vera í eigu þjóðarinnar. Við megum ekki sökkva svo djúpt í gróðafíkn að allt sé til sölu.

Það þykir sjálfsagt að fiskiskip og veiðiréttur séu að meirihluta í eigu Íslendinga. Við teljum eðlilegt að fiskistofnar séu í þjóðareign, eins og lög kveða á um. Sömuleiðis er það almenn og útbreidd skoðun að allar aðrar orkulindir eigi að vera í eigu þjóðarinnar. Þetta er þó auðvitað málum blandið og menn hafa fundið leiðina fram hjá þessum lögum í einhverjum tilfellum. Við teljum eðlilegt að þjóðin eigi vegi og brýr. Sama gildir um vatns- og hitaveitur. Við viljum eiga þá innviði að minnsta kosti að meirihluta.

Bújarðir hafa hundruðum saman fallið í eigu erlendra auðmanna með tilheyrandi eyðibyggðastefnu. Bændur hafa selt jarðir sínar og réttindi og skellt á eftir sér hurðinni í seinasta sinn. Fæstir hafa mótmælt því að selja jarðirnar til útlendinga. Undantekningar eru á þessu. Allt ætlaði um koll að keyra þegar Kínverjinn Huang Nubo ætlaði að kaupa Grímsstaði á fjöllum. Við gerum greinarmun á þjóðum. Sami æsingur greip um sig þegar Þjóðverji nokkur ætlaði að kaupa Hellisfjörð fyrir austan.

Útlendingar hafa reynt að komast inn í orkulindir landsins og sumpart tekist það. HS-orka er sláandi dæmi um slíkt. Þar fara útlendingar með völdin og hafa minnstar áhyggjur af velferð Íslendinga. Nýlegt dæmi um framgöngu þeirra er að finna norður á Ströndum þar sem HS-orka ætlaði að virkja náttúruperlur á á Ófeigsfjarðarheiði, ósnortnu landsvæði. Þeir ætluðu að rústa Hvalá og sökkva stórum hluta hálendisins. Þeim til hjálpar í aðförinni að íslenskri náttúru var ítalskur greifi sem hafði náð að sölsa undir sig þann fagra Eyvindarfjörð undir því yfirskini að hann vildi vernda og viðhalda fegurðinni. Annað kom á daginn og Ítalinn seldi vatnsréttindin svo HS-orka næði sínu fram. Nú hefur þetta verkefni verið blásið af í bili og þessu fólki forðað frá því að verða formlega landníðingar. Niðurstaða þess máls er að þarna var allt til sölu.

Þeir sem mæla með sölunni á dreifikerfi Símans telja að ávinningur sé að selja Frökkum. Þeir sömu hafa miklar efasemdir um að Kínverjar eða Rússar eignist dreifikerfið. Það sjónarmið sætir furðu og lyktar af rasisma. Engin leið er til þess að taka afstöðu á grundvelli ríkjandi stjórnarfars í einstökum löndum. Við hljótum að taka einfalda afstöðu til þess hvort við viljum að þjóðin eigi viðkomandi fyrirbæri eða hvort það megi að skaðlausu falla í hlut útlendinga. Það liggur í hlutarins eðli að það er glórulaust að þjóðin láti eftir forræði á dreifikerfi og ljósleiðurum, rétt eins og það væri glórulaust að gefa eftir forræði yfir fiskimiðunum. Sala Símans á Mílu er ömurlegt dæmi um taumlausa græðgi og svik. Skömm eigenda Símans, lífeyrissjóðanna, er mikil. Það ber að stöðva þetta ferli og tryggja eignarhald þjóðarinnar.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -