Þriðjudagur 28. janúar, 2025
-2.2 C
Reykjavik

Piparjunkan og hænsnabóndinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Elsie var að nálgast fertugsaldurinn og enn einhleyp. Slíkt þótti ekki ásættanlegt á þeim tíma. Af örvæntingu einni saman ákvað hún að láta sér nægja ungan karlmann sem hún hitti. Hann yrði að duga, ástin yrði að liggja milli hluta – brýnast var að ganga í hjónaband sem fyrst.

En hlutirnir hafa tilhneigingu til að fara einhvern veginn og í þetta sinn gerðu þeir það, bara ekki á þann veg sem hún hafði vænst.

Fyrir langa löngu bjó kona ein í London á Englandi. Konan hét Elsie Cameron og sá sér farborða sem vélritunardama. Elsie, sem vakti ekki athygli fyrir útlits sakir, var með böggum hildar enda orðin 26 ára og einhleyp. Á þeim tíma, upp úr aldamótunum 1800/1900, var það afleit staða að vera í ef um var að ræða konur. Árið 1920 kynntist Elsie Norman Thorne, rafmagnsfræðingi sem rétt var skriðinn yfir tvítugt. Af ótta við að ganga í gegnum lífið einsömul ákvað Elsie að Norman myndi duga – hann einfaldlega yrði að duga.

Nú þau skelltu sér í tilhugalífið og tilveran gekk til þess að gera sinn vanagang; Elsie sinnti sínu starfi og Norman sínu. Sumarið 1921 missti Norman vinnuna og ákvað að gerast sjálfstæður atvinnurekandi. Faðir hans hljóp undir bagga og gaf honum 100 sterlingspund til að létta honum róðurinn fyrstu skrefin. Norman keypti jarðarskika í Blackness, í Crowborough í Sussex og stofnaði þar Wesley-hænsnabúið.

Norman var dugnaðarforkur og fyrr en varði hafði hann reist röð smáhýsa og komið upp hænsnagerðum. Hverja helgi hjólaði Norman til London og varði tíma með Elsie. Norman bætti um betur og breytti einu smáhýsinu í þokkalegt heimili, þótt smátt í sniðum væri. Nú var komið að Elsie að leggja land undir fót um helgar. Alla jafna fór hún með lest til Sussex, var með Norman á daginn en fékk gistingu hjá nágrannafjölskyldu um nætur. Tíðarandinn á þeim tíma bauð ekki upp á að ógift par eyddi nóttinni saman.

Norman Thorne og Elsie Cameron

Elsie og Norman trúlofuðu sig um jólin árið 1922, en gleði Elsie varð skammvinn því skömmu síðar missti hún vinnuna. Næstu mánuði fékk hún starf á nokkrum stöðum, en hætti í þeim öllum af einni eða annarri ástæðu. Til að bæta gráu ofan á svart þá tók rekstur Normans dýfu um mitt ár 1923 og gekk afar illa. Af þeim sökum var Norman hikandi við að ákveða giftingardag og lagðist það hik afar illa í Elsie.

- Auglýsing -

Norman hittir Bessie

Um hvítasunnuna 1924 skellti Norman sér á dansleik í sveitinni í Sussex. Þar hitti hann fatagerðar konuna Bessie Coldicott. Við nánari kynni komst Norman að því að Bessie var ekki eins krefjandi og Elsie. Hún var ekkert fyrir að flækja hlutina og hafði unun af lífinu. Þess var skammt að bíða að Bessie tæki sess Elsie í huga Normans. En um stórvægilegar breytingar var ekki að ræða, svona opinberlega. Í október fór Elsie til Crowborough og var þar í viku. Venju samkvæmt hélt hún til hjá nágrönnunum, Cosham-hjónunum, um nætur, en var á býlinu þar til kvölda tók.

Þegar hún var komin aftur heim til London settist hún niður og skrifaði Norman bréf. Norman svaraði henni í bréfi og upplýsti hana um Bessie og það allt saman. Nú, Elsie sendi svarbréf næsta dag og sagði að hann hefði gert hana ólétta og að hún vænti þess að hann kvæntist henni fyrir næstu jól, punktur og basta. Segir ekki af frekari bréfaskriftum á milli þeirra, en 30. nóvember birtist Elsie óvænt á hænsnabúinu, klukkan ellefu árdegis. Var hún æst mjög og til að róa hana fullvissaði Norman hana um að þau myndu ganga í það heilaga, en fyrst yrði hann að koma nokkrum málum á hreint gagnvart föður sínum. Elsie fór til til London klukkan átta þennan sama dag.

Elsie lætur til skarar skríða

Þann 3. desember lagði Norman leið sína til föður síns og ræddu feðgarnir hvort tveggja fjárhagsmál Normans og persónulegar skyldur. Faðir Normans ráðlagði honum að hafast ekki að hvað giftingu áhrærði ef hann hefði minnsta grun um að fullyrðingar Elsie um þungun stæðust ekki. Norman skrifaði Elsie bréf og upplýsti hana um áform sín hvað það varðaði. Elsie sá í hendi sér að hætta var á að framtíðardraumar hennar breyttust í martröð og komst að þeirri niðurstöðu að hún yrði að grípa til aðgerða. Föstudaginn 5. desember einsetti hún sér að leiða þetta mál til lykta í eitt skipti fyrir öll. Þá tók hún lestina til Crowborough og gekk þaðan að býlinu. Var það í síðasta skipti sem hún sást á lífi.

- Auglýsing -

Þann 10. desember fékk Norman símskeyti frá föður Elsie; vissi Norman eitthvað um ferðir hennar eða hvar hún héldi til. Norman svaraði á þann veg að hann hefði ekkert séð hana. Næsta dag hafði faðir Elsie samband við lögregluna og upplýsti hana um hvarf Elsie. Það tók lögregluna ekki langan tíma að fá staðfest að sést hefði til ferða Elsie á leið hennar til býlisins. Tveir blómabændur höfðu séð hana, haldandi á skjalatösku, um klukkan korter yfir fimm síðdegis þann 5. desember. Þrátt fyrir þennan vitnisburð fullyrti Norman að Elsie hefði aldrei komið á býlið umræddan dag.

Dagarnir liðu og ekkert spurðist til Elsie og í byrjun janúar fór lögreglan til nágranna Normans, Annie Price. Hún var viss í sinni sök; Elsie hafði gengið inn á býli Normans daginn sem hún hvarf. Lögreglan í Sussex ákvað þá að tímabært væri að leita aðstoðar Scotland Yard og aðalvarðstjórinn Gillan mætti á svæðið og tók við rannsókninni. Gillan íhugaði það sem lá fyrir og ákvað að handtaka Norman og í kjölfarið leita á býlinu. Í dós fann lögreglan úr, armband og eitthvert skart úr eigu Elsie og sneri sér að útihúsunum. Að þeirri leit lokinni upphófst gröftur.

Sjálfsmorð, segir Norman

Lánið lék við lögregluna og innan skamms fannst taska Elsie og urðu þá straumhvörf í málinu. Norman sagði rannsóknarlögreglumönnunum að hann hefði ekki orðið Elsie að bana, en hann gæti vísað þeim á staðinn þar sem hún var grafin. Norman sagði að hún hefði komið óvænt þann 5. desember. Hún hefði verið æst og sagt að hún myndi dvelja á býlinu þar til þau yrðu gift. Hann hefði þá sagt henni frá þeim tilfinningum sem hann bar til Bessie og þau rifist vegna þess. Norman sagði að hann hefði þá þegar verið búinn að mæla sér mót við Bessie og móður hennar og hann hefði farið af býlinu klukkan hálf tíu um kvöldið. Elsie hefði orðið eftir á býlinu.

Þegar Norman kom heim tveimur tímum síðar sá hann, að eigin sögn, að Elsie hafði notað þvottasnúrurnar til að hengja sig. Hann hefði skorið hana niður, sest niður og velt fyrir sér hvað til bragðs skyldi taka. „Ég náði í sögina mína og sagaði af henni fótleggina og höfuðið,“ sagði Norman og bætti við að hann hefði grafið líkamsleifarnar í einni hænsnagirðingunni. Læknirinn sem framkvæmdi líkskoðunina sagði að hvergi væri að finna ummerki sem bentu til þess að reipi hefði herst að hálsinum. Norman var þá ákærður fyrir morð.

Norman Thorne

Við réttarhöldin, sem hófust 4. mars, 1925, mótmælti læknir á vegum verjanda því að engin ummerki hefðu verið sjáanleg á hálsi Elsie, þar hefðu verið sár sem hugsanlega væru eftir reipi. Í skýrslu lögreglunnar kom fram að loftbitarnir hefðu verið skoðaðir og hvergi hægt að sjá að reipi hefði herst að nokkrum þeirra. Þann 16. mars var kveðinn upp sektardómur og Norman dæmdur til dauða. Þann 22. apríl, tveimur dögum fyrir það sem hefði orðið 27. afmælisdagur Elsie, var Norman Thorne hengdur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -