Miðvikudagur 11. desember, 2024
6.8 C
Reykjavik

Púslað um jól

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Enn eina ferðina standa jólin fyrir dyrum með öllu því umstangi sem þeim fylgir nú um stundir.
Hvað mig áhrærir verður um 61. jólin að ræða, þau hafa komið og farið og þótt það verði seint um mig sagt að ég sé jólabarn, þá kann ég ágætlega að meta þennan sið. Reyndar er svo komið að fáir gleðjast jafnmikið yfir komu jólanna og mangarar af ýmsum toga og hætt við að Jesús sá sem gjarna er bendlaður við jólin hefði verið snöggur að setja ofan í við þá.
Að þessu sögðu er þó rétt að undirstrika að þó að jólagjafir muni ávallt gleðja lítil börn, þá er ekki síður mikilvægt að þau finni gleði, öryggi og kærleika umlykja sig um jól sem alla aðra daga.
Það ríkti mikil eftirvænting á barnaheimilinu Dalbraut, í Reykjavík, í desember árið 1967. Þá voru á Dalbraut ung börn sem ekki áttu í önnur hús að venda, en um var að ræða einhvers konar millilendingu þar til lausn fyndist á málum þeirra.
Heimilið hafði verið skreytt hátt og lágt, músastigar héngu hér og hvar og glitrandi jólakúlur stöfuðu geislum sem dáleiddu ungar sálir. Þrátt fyrir umkomuleysi þá skynjuðu börnin að eitthvað gleðilegt var í vændum, kannski jólapakkar undir jólatré. Gott ef skór voru ekki settir í glugga að kveldi og svei mér þá ef ekki leyndist í þeim eitthvert lítilræði þegar börn vitjuðu þeirra að morgni, með stírur í augum og drauma liðinnar nætur enn ljóslifandi í huga sér.
Loks rann aðfangadagur upp. Úti fyrir var jörð snævi þakin og frostrósir skreyttu rúðurnar. Dagurinn var lengi að líða, mínúturnar siluðust áfram – ætlar kvöldið aldrei að koma? Það hafði nefnilega kvisast að jólasveinninn kíkti jafnvel við, jafnvel fleiri en einn. Það yrði nú eitthvað!
Kvöldið tók loks við af deginum og viti menn; einhver barði á hurðina. Hver skyldi vera þar á ferð? Fyrir utan stóð fjöldi karla, allir með jólasveinshúfu á höfðinu og margir með poka á bakinu – jólasveinarnir voru komnir.
Fljótlega kom í ljós að þarna voru ekki íslenskir jólasveinar á ferð. Þarna voru hermenn af Vellinum mættir til að gleðja lítil börn sem höfðu kannski fátt að gleðjast yfir annað.
Hvort jólasveinarnir voru íslenskir eða bandarískir skipti engu máli, þeir voru í jólaskapi og fyrr en varði var hugarangur á bak og burt hjá börnunum. Hermennirnir tóku börnin á hné sér og gjafir voru teknar úr pokum.
Ég var fimm ára og ég hafði aldrei upplifað viðlíka gleði. Ég sat á læri eins hermannsins og fékk púsluspil með stórum stykkjum. Ég man ekkert hver myndin var en ég man að í hvert skipti sem ég fann einhverju stykki stað þá klappaði hermaðurinn saman höndunum, tók utan um mig og sagði eitthvað sem ég ekki skildi, en hljómaði hlýlega.
Púsluspilið var eina jólagjöfin þessi jól og var ekki til eignar, en það skipti engu máli.
Þetta aðfangadagskvöld kom og fór eins og önnur, en seint mun fenna yfir minninguna. Gæska þessa óþekkta hermanns og hlýja mun ylja mér um hjartarætur hver einustu jól sem ég á eftir að upplifa.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -