Stríðsrekstur Rússa og innrás í Úkraínu er glæpur gegn mannkyni. Heimsbyggðin stendur frammi fyrir því að æðsti maður Rússlands er kominn út yfir öll mörk og hótar kjarnorkustríði ef hann fái ekki að fara sínu fram gegn nágrannaþjóð sinni sem nú mætir her Rússlands. Hann ber þau einkenni að vera viti sínu fjær.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, á heiður skilinn fyrir að hafa skilgreint Vladimir Putin, forseta Rússlands, sem illmenni á flokksþingi Framsóknarflokksins um síðustu helgi. „Vonandi næst að stöðva þessi illvirki. Vonandi ber rússnesku þjóðinni gæfa til að losa sig við illmenni úr Kreml sem eru yfir stjórn þessa merkilega lands sem Rússland er,“ sagði Sigurður Ingi í ræðu sinni.
Ólafur Ragnar má skammast sín
Fleiri hafa tekið undir fordæmingu á Pútín. Þar má nefna Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, sem er ómyrkur í máli hvað varðar níðingsverk Rússa í Úkraínu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur talað á svipuðum nótum. Afstaða Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands, vekur aftur á móti óhug og athygli. Hann lét liggja að því í viðtali í Ríkisútvarpinu að skrifa megi stríðið í Úkraínu á útþenslu Atlantshafsbandalagsins sem stöðugt sé að færast nær Rússlandi. Ólafur Ragnar er með þá ímynd að vera að nokkru marki samnefnari þjóðar sinnar og á hann hefur verið hlustað. Þessi afstaða hans er á skjön við skoðanir almennings sem fordæmir stríðsrekstur Rússa og það morðæði sem birtist fólki frá Úkraínu. Ólafur Ragnar má skammast sín fyrir meðvirkni með illvirkjunum.
Það er ekkert sem réttlætir það sem er að gerast í Úkraínu. Almennikr borgarar eru drepnir og heimili fólks eru eyðilagðar. Stór hluti úkraínsku þjóðarinnar er kominn á vergang. Heilu borgirnar eru rústir einar fyrir tilstilli eins valdasjúks manns. Stríð Pítins snertir alla heimsbyggðina. Sem betur fer er nokkuð almenn samstaða um að stöðva helför Rússa í Úkarínu. Lýðræðisþjóðir hafa snúið bökum saman um að refsa Rússum og stöðva stríðið. Við Íslendingar eigum að vísa rússneska sendiherranum úr landi og leggja okkar lóð á vogaskálarnar til að refsa illmennunum.
Rússneska sendiráðið hefur krafið formann Framsóknarflokksins um afsökunarbeiðni vegna ummælanna um valdamenn í Kreml. Það er engin ástæða til að hlusta á það urr í rússneska birninum. Sigurður Ingi má vera stoltur af orðum sínum um illmennin í Kreml. Pútín og félagar eru óvinir almennings í heiminum. Það er Pútín sem skuldar allri heimsbygginni afsökunarbeiðni.