Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Ríkisútvarp á villigötum: Stöðugar endursýningar og froða

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ríkisútvarpið er eitthvert undarlegasta fyrirbæri íslenskrar fjölmiðlasögu. Stofnunin sogar til sín auglýsingatekjur á kostnað annarra fjölmiðla. Til viðbótar þiggur stofnunin milljarða króna af almannafé á hverju ári. Afraksturinn er í raun afar takmarkaður ef litið er til menningarlegs tilgangs. Undantekningin er Rás 1 þar sem í gegnum tíðina hefur verið haldið úti metnaðarfullri dagskrárgerð. Sú breyting hefur orðið á þar undanfarið að sú útvarpsrás byggist að mestu á endurteknu efni og fátt er um nýja drætti.

Sjónvarpið er sama marki brennt. Stöðugar endursýningar eru á efni frá liðnum árum. Sumt er fræðandi, en annað er froða sem enginn tilgangur er í því að endursýna. Lítið er um metnaðarfulla dagskrárgerð af þeim toga sem gæti flokkast sem innlegg í menningararf þjóðarinnar. Undantekningar er þó að finna og sumt sem Sjónvarpið framleiðir er af þeim toga að hægt sé að fagna því.

Furðulegt ástand er á Rás 2

Rás 2 er enn eitt fyrirbærið sem Ríkisútvarpið heldur úti. Þar er um að ræða dægurmálaútvarp sem skilur fátt eftir sig umfram það sem gerist með sambærilegar stöðvar á frjálsum markaði. Um árabil tíðkaðist að þessi ríkiseign mætti í fyrirtæki eða á viðburði gegn gjaldi. Ríkið seldi sem sagt einkaaðilum athygli. Morgun- og síðdegisþættir eru það sem rammar inn dagana. Sumt í þeim þáttum er fín afþreying, en fátt sem markar spor sín í söguna. Þó skal gefa fólki þar á bæ klapp á bakið fyrir að hafa haldið nýrri íslenskri tónlist hátt á lofti.

Furðulegt ástand er á Rás 2 nú um stundir. Rásin mun eiga 40 ára afmæli seint á þessu ári. Af því tilefni hefur eins konar sjálfslof tröllriðið dagskránni. Dagskrárgerðarmenn frá fyrri tíð hafa verið í röð viðtala um sjálfa sig og Rásina, viku eftir viku. Sumpart hafa fagnaðarlætin á fertugsafmælinu náð inn í Sjónvarpið líka. Þetta er dæmigert fyrir stefnuleysi í þessum miðli sem almenningur telst vera eigandi að. Það sætir furðu að Rás 2 skuli ekki hafa verið einkavædd fyrir löngu og dægurmálin lögð í hendur fyrirtækja á einkamarkaði.

Hver silkihúfan er upp af annarri hjá Ríkisútvarpinu. Dagskrárstjórar tróna hjá miðlum ríkisfyrirtækisins og þiggja há laun fyrir metnaðarlitla vinnu sína, sumpart við að grafa eftir efni úr fortíðinni. Þá eru áberandi nokkrir gæðingar í hópi starfsmanna sem sitja árum saman við jötuna, án þess að marka sérstök spor. Ekkert virðist vera hugað að sparnaði og sem dæmi má nefna að fréttamanni er haldið úti í Brussel til að segja fréttir af Evrópusambandinu og öðru því sem bregður fyrir í Belgíu. Spurt er hvort RÚV hafi hugsað sér að halda úti fréttamönnum víðar um veröldina með tilheyrandi kostnaði.

Stjórnendur Ríkisútvarpsins þurfa að hverfa til upphafsins og einbeita sér að þeirri kjarnastarfsemi sem gagnast til varðveislu á menningu þjóðarinnar. Lausnin á vandanum með Ríkisútvarpið er að hluta sá að selja Rás 2 til einkaaðila og nota peningana til að efla og styrkja dagskrárgerð á Rás 1 og í Sjónvarpinu. Tilvalið er að stofna eins konar Rás 1 plús fyrir endurtekið efni úr fortíðinni sem vissulega á fullt erindi til fólks. Á sama hátt þarf að stokka upp og efla dagskrárgerð Sjónvarpsins og beina henni í þann farveg að gera gagn fremur en að dæla endalaust út froðu sem einungis telst vera dægrastytting og stundargaman sem hverfur og gleymist. Þannig dagskrárgerð á að vera verkefni einkaaðila.

- Auglýsing -

Stjórnmálin á Íslandi hafa engar lausnir klárar fyrir Ríkisútvarpið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í orði kveðnu þá stefnu að fjarlægja stofnunina af auglýsingamarkaði. Þar hefur fátt gerst og afætan blæs út þrátt fyrir að hafa verið oft og lengi verið á forræði ráðherra flokksins á undanförnum árum. Lengi vel hafa landsfundir þess flokks lýst því yfir að selja eigi Rás 2. Þar hefur ekkert gerst heldur. Stjórnmálamenn verða að taka sér tak og koma Ríkisútvarpinu til bjargar með því að skilgreina hlutverk þess og grípa til þeirra ráðstafana sem þarf til að koma skikk á málin. Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra menningarmála, hefur lýst yfir því að hún vilji stofnunina af auglýsingamarkaði. Vonandi hefur hún það afl sem þarf. Núverandi ástand er engan veginn boðlegt. Eigandinn verður að grípa í taumana og sótthreinsa fjölmiðlaumhverfið. Afnema þarf nauðungaráskriftina og setja Ríkisútvarpið á fjárlög þar sem rekstrarleg ábyrgð og framleiðsla á menningartengdu efni haldast í hendur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -