Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-0.3 C
Reykjavik

Sæll Ólafur Teitur: Ná sinnaskipti þín líka til annarra málaflokka?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sæll Ólafur Teitur.

Ég setti saman pistil um þig nú á dögunum. Þú brást við með færslu á Fésbókinni og gekkst við því að skrif þín um loftslagsmál á árabilinu 2004–2007 væru helber þvættingur og að þú hefðir skipt um skoðun á þessu málefni fyrir löngu.

Fyrst af öllu langar mig að þakka þér fyrir þessa heiðarlegu játningu, það er ávallt virðingarvert þegar menn viðurkenna að þeir hafi haft rangt fyrir sér. Að mínu mati ert þú maður að meiri fyrir vikið. Færslan þín vakti hjá mér fáeinar spurningar sem ég ætla að varpa fram hér. Þú mátt endilega svara mér með nýrri færslu eða geyma þetta allt í hjarta þér og hugleiða það; eða bara eitthvað allt annað. 

Númer eitt:

Hugsarðu nokkurn tímann um þær afleiðingar sem þessir pistlar þínir hafa haft? Orðum fylgir jú ábyrgð og það er eitt að vera haldinn ranghugmyndum en annað að prédika þær yfir öðru fólki, ég tala nú ekki um á prenti.

Þótt pistlarnir séu orðnir margra ára gamlir núna er ekki þar með sagt að þeir hafi ekki mótað skoðanir, stefnumörkun og ákvarðanatöku fjölda manns í gegnum árin. Sumt af því fólki sem var ungt að árum þegar pistlarnir birtust og las þá sér til fróðleiks gegnir ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu í dag.

- Auglýsing -

Heldurðu að allur sá hópur fólks sé búinn að ganga í gegnum sams konar sinnaskipti og þú?

Fyrir þau sem ekki þekkja til má nefna að pistlarnir þínir eru ekki bara settir fram sem einhverjar „mér finnst“-deleringar. Þarna er vitnað í tölfræði, skýrslur og rannsóknir. Núna vitum við að þessi gögn sem þú vitnaðir til eru annað hvort röng, uppskálduð eða vitlaust fram sett. Við eigum orð yfir þetta í dag: Falsfréttir.

Ég get ekki sagt að ég hafi mikla samúð með því sjónarmiði að þær upplýsingar sem vísindasamfélagið hefur aðgang að núna séu betri eða eðlisólíkar þeim sem þú hafðir aðgang að þegar þú starfaðir hjá Viðskiptablaðinu.

- Auglýsing -

Mestallt sem við vitum núna um hamfarahlýnun vissum við líka fyrir tuttugu árum. Síðari tíma rannsóknir hafa í meginatriðum staðfest það sem þá var þegar komið fram. Loftslagsmálin eru miklu miðlægari í umræðunni núna en árið 2004 en ástæðan fyrir því er miðlun, frekar en breytt þekkingarstaða.

Ef einhverjir eiga að fá kredit fyrir að stuðla að vitundarvakningu um þessi málefni eru það blaðamennirnir sem þú hæddir og gagnrýndir svo harkalega á þessum árum.

Númer tvö:

Þú hefur skipt um skoðun á umhverfismálum, en ná sinnaskipti þín líka til annarra málaflokka sem þú skrifaðir um á árunum 2004–2007?

Þú efaðist ekki bara um loftslagsvandann, þú efaðist líka um fréttir þar sem greint var frá lélegum aðbúnaði erlendra verkamanna.

Þú efaðist um jafnréttisáætlanir og reglugerðir um kynjahlutföll.

Þú efaðist um skaðsemi óbeinna reykinga.

Þú réðst á þá sem voguðu sér að gagnrýna Guantanamo og innrásina í Írak.

Listinn er langur og það er margt þarna sem þolir illa endurlestur í dag.

Nú er ég ekki að segja að menn megi aldrei skipta um skoðun á nokkrum hlut og að það sé dyggð að standa alltaf fast á sínu. Það er hins vegar greinarmunur á því að taka nýja afstöðu út frá breyttum upplýsingum og að taka nýja afstöðu út frá persónulegum framförum.

Í dag byrjar fólk í háskólanámi hérlendis að jafnaði nítján ára gamalt. Ef einstaklingur er ekki nógu stabíll eða þroskaður til að skrifa óvitlausan texta um málefni samtímans þegar hann stendur á þrítugu, hvenær má þá ætla að sá hinn sami sé orðinn fær til þess?

Númer þrjú:

Vita vinir þínir á Vefþjóðviljanum að þau skrif sem þú lést frá þér fara um loftslagsmál á árabilinu 2004–2007 eru nú orðin að innistæðulausum tékka? Þér var ákaft hampað í Vefþjóðviljanum og þú varst sömuleiðis duglegur að hrósa þeim á móti.

Vefþjóðviljinn er enn í fullu fjöri og þar birtast enn reglulega afneitunarskrif um loftslagsvandann.

Þessi skrif eru enn jafn nafnlaus og þau voru árið 2004. Fjölmiðlabækurnar þínar voru meira að segja seldar í netsölu á vefsíðunni – og eru kannski enn? Og hvað með Uglu útgáfu, bókaforlagið sem gaf bækurnar þínar út á sínum tíma? Gera menn þar á bæ sér grein fyrir því að þeir eru að selja kjaftæði?

Fyrsta bókin er reyndar uppseld, en Fjölmiðlar 2005–2007 eru enn til sölu eftir því sem ég fæ best séð á heimasíðu forleggjarans, og kosta 2.499 krónur stykkið. Það minnsta sem hægt væri að gera væri nú að lækka verðið á þessum bókum aðeins nú þegar höfundurinn er sjálfur búinn að vísa þeim á bug.

Númer fjögur:

Hvað finnst þér um blaðamannastéttina í dag?

Fjölmiðlaumhverfið hefur gjörbreyst á síðustu tuttugu árum og kemur þar ýmislegt til.

Ertu enn á þeirri skoðun að íslenskir blaðamenn séu upp til hópa slefandi hálfvitar?

Ég spyr einungis vegna þess að þú gegnir starfi sem felur í sér mikil og stöðug samskipti við fjölmiðla. Það er auðvitað alþekkt að almannatenglar, fjölmiðlafulltrúar og samskiptastjórar fyrirtækja komi úr blaðamannastétt og ekkert athugavert við það í sjálfu sér, en spurningar um sérþekkingu og heilindi hljóta að koma til álita þegar þess háttar vistaskipti eiga sér stað.

Með „sérþekkingu“ á ég við að blaðamenn sem sinna tilteknum málaflokkum sérstaklega séu líklega betri valkostur sem PR-fulltrúar fyrirtækja sem sinna þeim sama málaflokki.

Kannski má segja að þetta eigi við í þínu tilviki, þú hefur í öllu falli lengi haft áhuga á umhverfismálum þótt nálgunin hafi kollvarpast. Með „heilindum“ á ég við að fólk almennt gengur út frá því að PR-fulltrúi með bakgrunn í blaðamannastétt leggi áherslu á sömu grunngildi og blaðamennirnir sem hann er í sambandi við. Skýr og heiðarleg miðlun þekkingar er hin sanna dyggð PR-fulltrúans, en hvaða stöðu hefur þá PR-fulltrúi sem hefur gerst sekur um upplýsingaóreiðu og villandi meðferð upplýsinga um árabil?

Fyrirtæki sem hefur þannig starfsmann á sínum snærum verður að vera tilbúið í samtalið um það hvort heiðarleiki sé raunverulega á meðal þeirra gilda sem fyrirtækið vill standa fyrir.

Ég tek heilshugar undir þau orð þín að „loftslagsváin er ein alvarlegasta ógnin sem mannkynið stendur frammi fyrir.“ Aðgerða er þörf, hvort sem það er hjá einstaklingum, stórfyrirtækjum eða stjórnvöldum. En aðgerðir þurfa jú að grundvallast á traustum grunni þekkingar og í heimi upplýsingaóreiðu þurfum við sífellt að vera á varðbergi. Hvert og eitt okkar ætti í rauninni að setja saman persónulegan lista yfir það fólk sem við treystum best þegar kemur að miðlun upplýsinga um loftslagsmál. Það er ég búinn að gera – og þú ert ekki á mínum lista.

Með vinsemd og virðingu,

Svanur Már Snorrason.

Ps. Ég taldi pistlana þína. Nákvæm tala er 177 pistlar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -