Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Sannleikurinn um Ingjald

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kolsvört skýrsla um unglingaheimilið að Laugalandi undirstrikar það sem lengi var vitað, að meðferðin á unglingsstúlkum sem þar dvöldu var skelfileg. Andlegt ofbeldi og hverslags kúgun var algeng. Stúlkur á villigötum sem þurftu umfram allt á hlýju og öryggi að halda lentu inni í þeim hryllingi sem skýrslan lýsir. Við sem trúðum því að sú meðferð sem Breiðuvíkurbörnin sættu væri að baki þurfum að horfast í augu við að nútíminn er trunta ekki síður en fortíðin. Djöfulskapur gegn ungu og hjálparvana fólki er enn til staðar.

Vitnað er til þess í skýslunni að hartnær 90 prósent þeirra unglingsstúlkna sem vistaðar voru á Laugalandi, áður Varpholti, upplifðu ofbeldi af hálfu Ingjalds Arnþórssonar forstöðumanns. Um helmingur stúlknanna varð fyrir líkamlegu ofbeldi. DV tók upp mál stúlknanna á Laugalandi síðsumars árið 2007 og sagði átakanlega sögu stúlknanna sem þar dvöldu. Umfjöllun DV varð til þess að blaðamaður, sem fjallaði um málið, var dæmdur til að greiða Ingjaldi og eiginkonu hans háar bætur. Þetta var á grunni þess að blaðamaðurinn hefði ekki getað sannað að hann hefði haft rétt eftir bróður Ingjalds í umfjölluninni. Dómarinn tók þar undir með dólginum sem nú hefur verið stimplaður fyrir gjörðir sínar. Eftir stóð að boðberi illra tíðinda var afgreiddur. Þöggunin náði alla leið.

Sannleikurinn um Ingjald er enn kominn fram að ákveðnu marki. Framburður stúlknanna sem þurftu að sæta því ofbeldi sem skýrslan lýsir er trúverðugur og verður ekki hrakinn lengur. Eftir stendur að Barnaverndarstofa, sem hafði eftirlitsskyldu gagnvart heimilinu, brást algjörlega í þessum málum. Í einhverjum tilvikum kvörtuðu stúlkurnar til yfirvalda yfir illri meðferð . Því var í einhverjum tilvikum lekið til ofbeldisfólksins. Afleiðingin var sú að þær stóðu einar á bersvæði illskunnar og hvergi skjól að finna.

Tíðarandinn á árum áður var gjarnan sá að allt var leyfilegt í því skyni að berja á vandræðaunglingum. Krakkar sem leiddust inn á brautir eiturlyfja og glæpa voru lægra metin en skepnur. Þetta viðhorf leiddi til þeirra óhæfuverka sem unnin voru á upptökuheimilinu í Breiðuvík og seinna á Laugalandi. Allt bar að sama brunni. Krakkagrey sem lentu á villigötum urðu réttlaus í klóm brenglaðs fólk sem hneigðist til ofbeldis undir þeim formerkjum að betra börnin sem áttu að vera í skjóli þeirra.

Sem manneskjur verðum við að gera upp þessi mál með sama hætti og Breiðuvíkurmálinu var lokað. Stjórnvöld verð að bæta fyrir skepnuskapinn á Laugalandi og bæta þann harm og þau grimmu örlög sem hlutust af dvölinni þar. Sama er uppi á tengingnum í öðrum málum þar sem farið var offari gegn smælingjum. Vöggustofumálið í Reykjavík er eitt þeirra mála. Geirfinnsmálið er mál af sama toga. Sævar Ciesielski, Erla Bolladóttir og fólk þeim tengt voru nánast tekin af lífi af þeim sem áttu standa vörð um réttlætisgyðjuna. Vegna þess að þau voru á villigötum í lífi sínu þótti sjálfsagt að læsa þau inni mánuðum saman, beita andlegu ofbeldi, og taka af þeim öll mannréttindi.

Við viljum ekki vera svona samfélag þöggunar um illskuverk. Það jákvæða er að sannleikurinn um fantaskap Ingjalds er kominn fram og nánast meitlaður í stein. Eftir að þó að vinna úr málinu. Rétta þarf hlut stúlknanna og bæta þeim  tjónið eins og hægt er. Sjálfsagt eru sakir gerendanna fyrndar en við megum aldrei aftur verða uppvís að slíkum fólskuverkum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -