Bernska Leonördu Cianciulli var ekki hamingjurík. Hún fæddist í Montella di Avellino á Ítalíu 1893. Fæðing hennar var afleiðing nauðgunar og fékk hún litla ástúð frá móður sinni. Áður en Leonarda komst á fullorðinsár hafði hún í tvígang reynt að fremja sjálfsmorð.
Árið 1917 giftist Leonarda Raffaele Pansardi og varð ljóst frá upphafi að móðir Leonördu var lítt hrifin af ráðahagnum. Slík var óbeit móður hennar að, að sögn Leonördu, lagði móðirin bölvun á dóttur sína fyrir vikið. Hvað sem því leið þá settust hjónakornin að í Lariano í Alta Irpina og hófu sinn búskap.
Árið 1927 var Leonarda dæmd til fangelsisvistar fyrir svik og pretti. Þegar hún losnaði úr prísundinni flutti fjölskyldan til Lacedoniu, sem var ekki langt frá bernskuslóðum hennar. Í júlí 1930 reið Irpina-jarðskjálftinn yfir, einn sá öflugasti í sögu Ítalíu og á meðal þeirra sem misstu heimili sitt í skjálftanum var fjölskylda Leonördu.
Í öllum þessum hremmingum og í ljósi sjálfsvígstilrauna hennar fyrrum, bölvunar móður hennar og sorgarsögu í barneignum, komst Leonarda að þeirri niðurstöðu að líf hennar væri hreint út sagt ömurlegt. Leonarda gætti þeirra barna sinna, sem varð lífs auðið, eins og sjáaldur auga síns enda minnug orða sem spákona hafði látið falla mörgum árum áður; að Leonarda myndi giftast og eignast börn, en öll börnin myndu deyja ung.
Síðar hafði Leonarda, í von um betri tíð með blóm í haga, farið til flökkukonu sem var af sígaunaættum og gaf sig út fyrir að vera spákona. Konan sú stundaði lófalestur og væntanlega var spádómur hennar ekki til að bæta andlega líðan Leonördu eða auka á bjartsýni hennar varðandi þau ár sem fram undan voru. Sígaunakonan sagði við Leonördu: „Í hægri lófa sé ég fangelsi, í þeim vinstri réttargeðdeild.“
Nóg um það.
Árið 1930 flutti Leonarda með eiginmanni sínum og börnum til Corregio í Reggio Emilia-héraði eftir að heimili þeirra jafnaðist við jörðu í jarðskjálfta. Þrátt fyrir að Leonarda yrði barnshafandi sautján sinnum komust ekki nema fjögur barna hennar á legg. Hún missti fóstur þrisvar og tíu barna hennar létust á barnsaldri. Því var ekki að undra að þau fjögur börn hjónanna sem lifðu nytu mikillar verndar.
Í þá daga var fátt um úrræði til handa mæðrum sem gengu í gegnum eitthvað viðlíka og Leonarda hafði gengið í gegnum og því fátt annað í stöðunni hjá henni en að takast á við hörmungarnar með sínum hætti. Hvað Leonördi áhrærði varð bjargráðið hjátrú í bland við ofsóknaræði.
Árið 1939, þegar yfir vofði að Ítalía myndi taka þátt í síðari heimsstyrjöldinni, tilkynnti elsti sonur Leonördu, Guiseppe, að hann ætlaði að ganga í herinn. Giuseppe, sem var uppáhaldssonur móður sinnar, vildi líkt og margir Ítalar á þessum tíma leggja lóð sín á vogarskálarnar í þeim hildarleik sem fram undan var.
Til bjargar syninum
Leonarda var með böggum hildar vegna þessa ásetnings Giuseepes og örvænting hennar í bland við trú hennar á yfirskilvitlegum efnum, hratt af stað atburðarás sem myndi setja Leonördu á stall með alræmdustu raðmorðingjum 20. aldar.
Í huga Leonördu var bara eitt til ráða til að bjarga lífi Giuseppes; mannfórn. Hvaðan hugmynd Leonördu var sprottin er erfitt að segja. Burtséð frá því þá tók Leonarda til sinna ráða, enda til mikils að vinna til að bjarga Giuseppe frá hryllilegum dauðdaga á vígvelli síðari heimsstyrjaldarinnar.
Leonarda átti þrjár vinkonur sem allar voru miðaldra og einmana og myndu láta einskis ófreistað til að komast burt frá Corregio og einsemdinni og tilbreytingarleysinu sem einkenndi líf þeirra. Allar þrjár höfðu leitað til Leonördu um hjálp og ráð vegna þessa, og hún komst að þeirri niðurstöðu að tími athafna væri runninn upp.
Sú fyrsta til að falla í gildru Leonördu var piparjómfrú að nafni Faustina Setti. Faustina var elst vinkvenna Leonördu og taldi sig himin höndum hafa tekið þegar Leonarda sagðist hafa fundið mannsefni handa henni, reyndar utan landsteinanna, en vænlegt mannsefni engu að síður.
Leonarda sagði Faustinu að hafa ekki hátt um tíðindin. Á brottfarardegi kvaddi Faustina vini sína og ættingja. Leonarda hvatti Faustinu til að skrifa bréf og póstkort sem hún gæti póstlagt um leið og hún kæmi á áfangastað þannig að ættingjar hennar vissu að allt væri í sómanum.
En Faustina Setti fór ekki langt, í reynd bara heim til Leonördu. Leonarda skenkti Faustinu görótt vín og myrti hana síðan með öxi. Að því loknu dró hún líkið inn í lítið herbergi þar sem hún bútaði líkið niður í níu hluta. Blóðinu safnaði Leonarda í bala.
Síðan, eins og Leonarda lýsti síðar ítarlega í yfirlýsingu, „setti ég líkamshlutana í pott, bætti við sjö kílóum af vítissóda, sem ég hafði keypt til að búa til sápu, og hrærði í þangað til allt var orðið að þykkum, dökkum vellingi sem ég hellti í nokkrar fötur sem ég tæmdi í nálæga rotþró.“
Leonarda beið þar til blóðið hafði hlaupið og þurrkaði það síðan í ofni, malaði það og blandaði saman við hveiti, sykur, súkkulaði, mjólk og egg, auk smjörklípu, og hnoðaði vel. „Ég bjó til mikið af stökku tekexi sem ég bauð upp á þegar konur komu í heimsókn, reyndar neyttum ég og Giuseppe þess einnig,“ sagði Leonarda í yfirlýsingu sinni.
Að sögn kostaði það Faustinu, auk lífsins, ævisparnaðinn, um 56.000 krónur að núvirði, að láta blekkjast af hjúskaparmakki Leonördu.
Annað fórnarlamb
Önnur konan til að falla fyrir hendi Leonördu var Francesca Soavi. Leonarda lofaði henni starfi við stúlknaskóla, samkvæmt sumum heimildum í Piacenza í Emilia Romagna-héraði, en í útlöndum samkvæmt öðrum heimildum. Að morgni 5. september 1940 kvaddi Francesca vini sína áður en haldið skyldi á áfangastað. Aðferð Leonördu var hin sama. Hún hvatti Francescu til að skrifa póstkort og upplýsa kunningjafólk sitt um að hún væri á förum, en ekki segja hvert, og sagði henni að hún gæti póstlagt kortin þegar hún væri komin á leiðarenda.
Að þessu öllu loknu fengu vinkonurnar sér vínglas til að fagna málalyktum og farsælli framtíð Francescu. Líkt og í tilfelli Faustinu var vínið í glasi Francescu ekki sem skyldi og þegar hún var rænulaus orðin banaði Leonarda henni með öxi. Önnur fórnin var fullkomnuð.
Lík Francesku var hanterað á sama máta og lík Faustinu og varð að hráefni í tekex. Að auki hafði Leonarda einhverja smáaura upp úr krafsinu.
„Hún endaði í pottinum eins og hinar tvær […] hold hennar var feitt og hvítt, þegar ég hafði brætt það bætti ég einni flösku af kölnarvatni saman við og eftir langan suðutíma gat ég gert þessa líka fínu sápu.“
Lítið vissi Virginia Cacioppo hvað beið hennar þegar Leonarda sagðist hafa útvegað henni ritarastarf í Flórens, hjá dularfullum viðburðastjóra við leikhús þar í borg. Svo dularfullur var viðburðastjórinn að brýnt var að Virginia segði engum frá. Virginia, sem var 53 ára fyrrverandi óperusöngkona sem hafði, að sögn, komið fram í La Scala, lifði í heimi fátæktar og ornaði sér við gamlar minningar frá betri og viðburðaríkari tíð. og taldi sig eflaust hafa dottið í lukkupottinn og geymdi leyndarmálið. Þann 30. september 1940 fór Virginia heim til Leonördu, en það var allt annað en lukkupottur sem hún datt í. Leonarda fyrirkom Virginiu á sama hátt og Faustinu og Francesco.
Um afdrif Virginu sagði Leonarda síðar: „Hún endaði í pottinum eins og hinar tvær […] hold hennar var feitt og hvítt, þegar ég hafði brætt það bætti ég einni flösku af kölnarvatni saman við og eftir langan suðutíma gat ég gert þessa líka fínu sápu. Ég gaf nágrönnum og kunningjum sápustykki. Og einnig kökurnar voru betri: Þessi kona var virkilega sæt.“
Áhyggjufullir ættingjar
Leonarda Cianciulli hélt eflaust að henni hefði tekist að fremja hin fullkomnu morð, en hvort hún hugði á frekari fórnir til að bjarga auðnu Giuseppes, sonar síns, liggur ekki ljóst fyrir. Hvað sem slíkum vangaveltum líður þá varð morðið á Virginiu Cacioppo hennar síðasta.
Þannig var, að hvað Faustinu og Francescu áhrærði var fáum ættingjum og vinum til að dreifa og því fáir sem höfðu áhyggjur af afdrifum þeirra.
Sú var ekki raunin í tilviki Virginiu Cacioppo. Á meðal þeirra sem jafnvel töldu eitthvað ótrúlegt við frásögn Virginu af fyrirætlunum sínum var mágkona hennar, Albertina Fanti.
Albertinu var ekki rótt vegna skyndilegs brotthvarfs Virginiu og hafði reyndar síðast séð til hennar þegar hún fór inn í hús Leonördu sama kvöld og hún „hvarf“.
Tengdasystirin hafði samband við lögregluna og viðraði grunsemdir sínar og skýrði frá staðreyndum sem hún taldi máli skipta. Aðstoðaryfirlögregluþjónninn í Reggio Emilia gat fylgt fjölda vísbendinga sem Leonarda hafði skilið eftir sig og hún var að lokum handtekin. En Leonarda var ekki á því að játa sig sigraða og bar af sér allar þær sakir sem á hana voru bornar.
Lítið breyttist í þeim efnum um skeið og lögreglan fór að beina sjónum sínum að Giuseppe, syni Leonördu, og taldi ekki loku fyrir það skotið að hann bæri ábyrgð á glæpunum, eða í það minnsta væri viðriðinn málið.
Þegar Leonarda sá hvert rannsókn lögreglunnar stefndi sá hún í hendi sér að við slíkt yrði ekki unað. Uppáhaldssonur hennar skyldi svo sannarlega ekki verða bendlaður við morð – fyrr skyldi Leonarda dauð liggja.
Játning Leonördu
Leonarda játaði á endanum á sig morðin þrjú og dró ekkert undan þegar hún lýsti smáatriðunum. Í kjölfarið fékk hún viðurnefnið Sápugerðarkonan. Ekki var réttað yfir Leonördu fyrr en árið 1946, í Reggia Emilia og sýndi hún aldrei nokkra iðrun þá örfáu daga sem réttarhöldin stóðu yfir. Um hana var meðal annars sagt: „Við réttarhöldin í Reggio Emilia í síðustu viku tók Leonarda um handriðið á vitnastúkunni með óvenjulega mjúkum höndum og leiðrétti rólega saksóknarann varðandi ákveðin álitamál. Dökk augu hennar ljómuðu af stolti þegar hún að lokum sagði: „Ég gaf landi mínu koparausuna, sem ég notaði til að fleyta fituna ofan af í suðukötlunum mínum, enda sárvantaði land mitt málma síðustu daga stríðsins …“
Hún var sakfelld fyrir glæpi sína og óhætt að segja að spádómur sígaunakonunnar mörgum árum fyrr hafi ræst. Leonarda Cianculli var dæmd til þrjátíu ára fangelsisvistar og þriggja mánaða dvalar og meðferðar á réttargeðdeild.
Leonarda Cianciulli lést á kvennadeild geðsjúkrahúss í borginni Pozzuoli í Campania-héraði, þann 15. október 1970 eftir heilablóðfall. Hún var 79 ára að aldri.
Lík Leonördu var fært fjölskyldu hennar til greftrunar en ýmsir munir sem tengdust morðunum – þar á meðal potturinn sem hún sauð fórnarlömb sín í – voru gefnir Glæpasafninu í Róm. Þar geta forvitnir og áhugasamir enn litið þá augum.