Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-7.8 C
Reykjavik

Sérfræðingur í íþróttastjórnun fordæmir KSÍ: „Hluti af stærra vandamáli íþróttahreyfingarinnar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hallsteinn Arnarson hefur lokið meistaranámi í íþróttastjórnun (e. sports management) frá Real Madrid Graduate School-UE, sem er á lista yfir 10 bestu slík námsprógrömm í heiminum. Hann ræðir hér um stöðu KSÍ.

Ég hef fylgst með þessum KSÍ-málum í gegnum fjölmiðla undanfarnar vikur. Ef maður horfir aðeins lengra aftur, þá hefur hvert vandræðamálið á fætur öðru komið þar upp. Lítið hefur verið rætt um nýlegt mál Lars Lagerback, en fyrr á árinu var hann ráðinn í stöðu tæknilegs ráðgjafa landsliðsins þar sem hlutverk hans átti að vera að styðja við þjálfarateymið.

Sex mánuðum síðar er hann hættur og í nýlegu viðtali við Lars kom fram að hann hefði viljað halda áfram starfinu, en hann og núverandi landsliðsþjálfari hafi ólíkar hugmyndir varðandi landsliðið.

Maður hlýtur að spyrja hvers vegna það komi upp núna. Stjórnendur KSÍ vita af fyrri reynslu fyrir hvað Lars stendur og hljóta að hafa farið yfir þessi mál áður en ákveðið var að endurráða hann, til að tryggja að einhver grundvöllur væri fyrir slíkri samvinnu fyrrverandi og núverandi landsliðsþjálfara. Svo virðist sem þetta mál sé enn eitt fíaskóið þar á bæ.

Svo er maður forviða yfir viðbrögðum æðstu stjórnenda KSÍ í tengslum við þessi meintu ofbeldismál. Mér finnst lykilstjórnendur sambandsins hafa brugðist mjög klaufalega við í þeim málum. Yfirlýsingin sem þau sendu frá sér var vægast sagt harðlynd og vandræðaleg, vísað í verkferla og trúnaðarskyldu, þolendum sýnd lítil samkennd og virðing, o.s.frv. Séð utanfrá hefur sambandið ásýnd stórs batterís, kaldrar og svifaseinnar stofnunar, og stjórnendur þess virðast ekki alveg í takti við það umhverfi sem við búum við í dag.

Í svona erfiðum málum er nauðsynlegt að leggja allt annað til hliðar, að vera réttsýn manneskja og sýna þolendum mannúð og nærgætni. Hafi utanaðkomandi ráðgjafarfyrirtæki, mögulega ætlaðir sérfræðingar í almannatengslum og/eða samskiptamálum, verið að vinna með KSÍ í þessum málum, hljóta þau að slíta því samstarfi sem allra fyrst. Í stað þess að sjá að sér og sýna hugrekki með því að koma strax fram með einlæga afsökunarbeiðni, ákveða stjórnendurnir að eyða helginni í að funda meira um málin. Gleymum því ekki að það voru þau sem sökuðu Hönnu Björgu um dylgjur, en annað hefur komið á daginn.

- Auglýsing -

Það er sorglegt að horfa upp á að öll viðbrögð lykilstjórnenda KSÍ virðast einkennast af miklu fumi og fáti, og lituð af reiði og varnarbaráttu. Höfum það á hreinu að það að segja ósatt er aldrei gott. Ég leyfi mér að spá því að í framtíðinni verði þessi mál og sérstaklega öll viðbrögð frá KSÍ notuð í háskólakennslu í almannatengslum og krísustjórnun sem skýrt dæmi um hvernig alls ekki eigi að bregðast við í þessháttar málum. Skaðinn er skeður og stjórnendurnir virðast ekki skynja að það verði að lágmarka skaðann.

Ég tel að almennt sé starfsfólk sambandsins að skila góðu starfi, en kannski hefur velgengni karla- og kvennalandsliðanna síðustu ár gert það að verkum að lykilstjórnendurnir þar hafa misst sjónar á hlutverki og tilgangi sambandsins. Samfélagið gerir auknar kröfur til fyrirtækja, stofnana og félagssamtaka um vönduð vinnubrögð og nútíma stjórnarhætti.

Ímynd og orðspor KSÍ er í molum. Aðalstjórnendur þar eru rúnir trausti og eina rétta í stöðunni fyrir þá er að axla sína ábyrgð með því í fyrsta lagi að viðurkenna opinberlega hroðaleg mistök sín, í annan stað að biðja þolendur og Hönnu Björgu formlega afsökunar á algerlega óviðeigandi ummælum sínum og algerri hunsun, og í þriðja lagi að segja svo öll af sér. Og það strax. Hegðun þeirra og þau vinnubrögð sem þau hafa viðhaft í þessu máli eru forneskjuleg, til skammar fyrir þau og sambandið, og með öllu ólíðandi.

- Auglýsing -

Versta sem þau geta gert í framhaldinu er að koma með einhverjar skringilegar afsakanir og útskýringar, og aðra yfirlýsingu sem endar í þá veru að núverandi stjórn muni yfirfara brotalamir í verkferlum og þau muni læra af þessu. Æskilegt væri að fá öll önnur mál þessu tengt upp á yfirborðið, án þess að það skaði á nokkurn hátt blessaða þolendurna.

Eftir að núverandi lykilstjórnendur KSÍ hafa sagt af sér, þarf að fá ferskt fólk þar inn sem hefur eitthvað nýtt fram að færa. Sömuleiðis verður sambandið að fara í heildstæða sjálfsskoðun, m.a. endurskoða rækilega þá stefnu sem þar hefur verið fylgt og útrýma þeirri eitruðu menningu sem þar virðist hafa ríkt á undanförnum misserum. Ekki er nóg að segja að sambandið standi með þolendum ofbeldis, það verður að sýna það í verki.

Ég hef lokið meistaranámi í íþróttastjórnun (e. sports management) frá Real Madrid Graduate School-UE, sem er á lista yfir 10 bestu slík námsprógrömm í heiminum. Sömuleiðis er ég virkur meðlimur í nokkrum leiðandi íþróttafagsamtökum á heimsvísu. Því tel ég mig vita talsvert mikið um mál tengd íþróttastarfsemi og stjórnun á sviði íþrótta.

Að mínu mati er það sem við erum að sjá gerast hjá KSÍ hluti af mun stærra vandamáli sem fyrirfinnst í íþróttahreyfingunni almennt hér á landi, sem er vöntun á faglegri þekkingu hjá stjórnendum í íþróttasamböndum, íþróttafélögum, deildum íþróttafélaga og í öðru íþróttastarfi.

Fyrir stuttu skrifaði ég grein sem birtist í Morgunblaðinu þar sem ég benti á þennan stóra veikleika og kallaði eftir meiri faglegri þekkingu í stjórnendastörf íþróttahreyfingarinnar.

Umsvifin þar hafa aukist verulega á síðustu árum og það kallar á aukna sérþekkingu. Það dugar engan veginn að hrúga bara fólki úr viðskiptalífinu, fyrrum íþróttamönnum, íþróttafræðingum, íþróttakennurum, viðskiptafræðingum og stjórnsýslufræðingum inn í stjórnendastöður á sviði íþróttanna, með fullri virðingu fyrir því ágæta fólki og þeim starfsgreinum, því slík störf krefjast mikillar sérþekkingar á eðli og starfsumhverfi íþrótta. Til dæmis er ekki hægt að yfirfæra öll lögmál sem gilda í heimi viðskipta á íþróttastarfsemi, umhverfið og margir aðrir þættir eru allt annars eðlis í íþróttunum.

Óskandi væri að æðstu stjórnendur íþróttastarfs hér heima þyrftu að hafa lokið háskólaprófi í íþróttastjórnun. Þannig fengjum við meiri faglega eða sérhæfða þekkingu og meiri hæfni inn í stjórnendastörf íþróttahreyfingarinnar.

Að lokum vil ég nefna að ég hef nokkrum sinnum haft samband við stjórnendur KSÍ og boðið fram krafta og sérþekkingu mína í íþróttastjórnun, en þau hafa ekki sýnt því nokkurn áhuga.

Hallsteinn Arnarson, EMBA í íþróttastjórnun (e. sports management).

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -