Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Skaut fórnarlömbin í höfuðið og losaði sig við líkin eins og rusl

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það kom engum á óvart þegar Richard Mallory hvarf í lok nóvember árið 1989. En þegar bifreið hans fannst mannlaus nokkrum dögum síðar varð ljóst að ekki var allt með felldu. Þann 13. desember fannst lík Mallorys, vafið inn í gólfteppi á skógi vöxnum stað þar sem fólk átti til að losa sig við rusl, þótt ólöglegt væri. Hann hafði verið skotinn þrívegis með 22 kalibera byssu. Lögreglan stóð á gati og ekkert gerðist sem varpaði ljósi á morðið. En sannleikurinn átti eftir að koma í ljós og ýmislegt miður fallegt kom upp úr krafsinu.

Aileen Wuornos var bandarískur raðmorðingi sem myrti sjö karlmenn í Flórída frá 1989 til 1990. Hún hélt því fram að morðin hefði hún framið í sjálfsvörn til að verjast nauðgun. Útskýringar Aileen Wuornos voru ekki teknar gildar fyrir rétti. Hún var önnur konan sem tekin hefur verið af lífi í sögu Flórída.

Aileen Wuornos fæddist 1956 í Rochester í Michigan í Bandaríkjunum og það væri vægt til orða tekið að segja að hún hefði átt slæma æsku. Sumir telja að það eina góða í lífi hennar hafi verið að hún kynntist aldrei líffræðilegum föður sínum. Diane Wuornos, móðir Aileen, giftist Leo Dale Pittman, föður hennar, aðeins fjórtán ára og varð barnshafandi tvisvar, Aileen var yngra barnið og kom í heiminn nokkrum mánuðum eftir að Diane sagði skilið við föður hennar. Faðir Aileen gekk ekki alveg heill til skógar andlega og var fær um að beita miklu ofbeldi. En hlutverk einstæðrar móður reyndist Diane um megn og árið 1960 yfirgaf hún börn sín, Keith og Aileen, sem síðan voru ættleidd af móðurforeldrum sínum, Lauri og Britta Wuornos.

Lauri og Britta bjuggu í Troy, smáborg ekki langt frá Rochester, og þar ólst Aileen upp ásamt Keith, bróður sínum, og tveimur ættleiddum börnum, sem í raun voru frændi hennar og frænka. Óhapp í æsku skildi eftir ör á andliti Aileen og hún þróaði með sér skaphita, sem oft braut út í óstjórnlæegri bræði, og átti erfitt með að eignast vini.

Það kom snemma í ljós að erfitt yrði að tjónka við Aileen og grunnt var á uppreisn gegn Lauri, sem drakk stíft og beitti miklum aga. Systkinunum hafði verið talin trú um að Lauri og Britta væru líffræðilegir foreldrar þeirra og þegar Aileen var tíu ára komst hún að hinu sanna í málinu. Þá versnaði ástandið á heimilinu til mikilla muna og Lauri beitti enn meiri hörku í uppeldinu en fyrr og var þó vart á bætandi. Þegar sannleikurinn um uppruna sinn rann upp fyrir Aileen og Keith má segja að þau hafi farið í hreinan uppreisnargír.

Lauri tók á vandanum með sínum hætti, hertum aga refsingum og segir sagan að eitt sinn hafi hann neytt Aileen til að fylgjast með þegar hann drekkti kettlingi sem henni þótti vænt um.

- Auglýsing -

Kynlíf fyrir sígarettur

Aileen fékk oft og tíðum að finna fyrir belti afa síns og var gjarna látin liggja á kviðnum á rúmi sínu á meðan beltið small á bakhluta hennar. Þessar aðfarir voru ekki til að draga úr þvermóðsku hennar. Hún varð virk kynferðislega mjög snemma og sagði síðar að hún hefði notið kynlífs með bróður sínum ung að árum og að Lauri, afi hennar, hefði níðst á henni kynferðislega, þótt það hafi aldrei fengist staðfest.

Ellefu ára að aldri byrjaði Aileen að bjóða ungum drengjum upp á kynlíf gegn því að fá sígarettur og var hún fyrir vikið uppnefnd „sígarettu-svínið“. Þessi hegðun varð þess valdandi að Aileen fjarlægðist enn frekar jafnaldra sína. Iðulega strauk Aileen að heiman og uppskar fyrir vikið dvöl á unglingaheimili.

Fjórtán ára að aldri varð Aileen barnshafandi og var send á heimili fyrir ógiftar mæður í Detroit. Hún sagði fjölskyldu sinni að óléttan væri tilkomin vegna nauðgunar, en breytti þeirri frásögn síðar. Aileen eignaðist dreng í mars árið 1971. Sonur hennar varð þess láns aðnjótandi að verða ekki alinn upp hjá henni, því hann var fljótlega ættleiddur og losnaði þannig við að alast upp í því rugli sem þá einkenndi alla tilveru Aileen.

- Auglýsing -

Britta, amma Aileen, dó 1971, og að sögn dóttur Brittu varð álagið vegna Aileen og Keiths; skróp í skólanum, óléttu og margs fleira, Brittu um megn og hún hafði snúið sér að flöskunni meira en góðu hófi gegndi. Á sama tíma þá þvældist Aileen á milli hinna ýmsu unglingaheimila og heimilis síns. Fljótlega eftir dauða Brittu, fékk Lauri nóg og harðneitaði að sjá um dótturdóttur sína lengur, en þegar þar var komið sögu var hún orðin 15 ára.

Fimm árum síðar framdi Lauri sjálfsmorð og Aileen sá sér ekki fært, eða sá enga ástæðu til að vera viðstödd jarðarförina. Hún hafði þá lagt land undir fót, ferðast á puttanum þvert yfir landið og séð sér farborða með því að falbjóða sig í kynlífi.

Ferðalaginu lauk í Flórída og þar hitti Aileen rígfullorðinn karlmann, Lewis Gratz Fell, sem var formaður snekkjuklúbbs þar. Lewis, sem var heilum 50 árum eldri en Aileen, kolféll fyrir Aileen og þau gengu í það heilaga í maí árið 1976. Mánuði síðar var draumurinn úti og Lewis var búinn að fá sig fullsaddan af bræðisköstum Aileen og óstöðugu lundarfari hennar. Fullyrti lewis að Aileen hefði gengið í skrokk á honum með göngustafnum hans.

Aileen vísaði þeirri fullyrðingu til föðurhúsanna og sagði að hún væri fórnarlambið, Lewis hefði ráðist á hana með ofbeldi.

Hvað sem því líður þá skildu þau 19. júlí, árið 1976, og í sama mánuði reið enn eitt reiðarslagið yfir Aileen því Keith, bróðir hennar, laut í lægra haldi gegn krabbameini og dó.

Við tók áratugur misheppnaðra sambanda, vændis, falsana, þjófnaða og vopnaðra rána. Snemma á 9. áratugnum afplánaði Aileen fangelsisdóm fyrir að hafa sauðdrukkin reynt að ræna búð, að sögn íklædd bikiníi einu fata. Á sakaskrá hennar kenndi annars ýmissa grasa, meðal annar var þar að finna ávísanafals, mótþróa við handtöku, þjófnaði og akstur undir áhrifum áfengis. Reyndar var það svo að sum afbrotin voru skráð á eitthvert þeirra dulnefna sem Aileen hafði tamið sér að nota í tíma og ótíma.

Aileen var orðin flak, andlega og líkamlega, vegna drykkju, eiturlyfjaneyslu og lífsstíls sem einkenndist af sjálfseyðingarhvöt. Í júní, árið 1986, hitti Aileen hina tuttugu og fjögurra ára Tyria „Ty“ Moore í klúbbi fyrir samkynhneigða í Daytona í Flórída. Við tók fjögurra og hálfs árs tilfinningaþrungið samband kvennanna tveggja og þær rugluðu saman reytum.

Fyrsta líkið finnst

Um skeið var tiltöluleg ládeyða í lífi Aileen. Ty elskaði Aileen og yfirgaf hana ekki. Hún sinnti sínum störfum sem hótelþerna og húshjálp, en Aileen vann í kynlífsþjónustubransanum. Heldur hafði þá fallið á útlit Aileen og hún var ekki hátt metin og ekki jókst virði hennar á götunni eftir því sem tíminn leið.

Eitt var það sem fór fyrir brjóstið á Aileen og setti lit sinn á samband þeirra og það var að Aileen líkaði ekki að Ty hefði samskipti við annað fólk, nú eða einfaldlega færi til vinnu sinnar.

En Ty yfirgaf hana ekki og þær þvældust á milli mótela, leiguíbúða og hjólhýsasvæða í Daytona og víðar í Flórída., en á endanum varð ljóst að breytinga var þörf. Það var á þessum tíma sem glæpir Aileen tóku á sig aðra og öllu alvarlegri mynd og banvænni.

Fyrsta fórnarlamb Aileen var maður að nafni Richard Mallory. Richard, sem gerði við rafmagnstæki, fannst sopinn góður og þeir sem til hans þekktu vissu að hann keypti sér iðulega þjónustu vændiskvenna. Hann var einnig þekktur fyrir að loka verkstæði sínu fyrirvaralaust og hverfa á drykkjutúr.

Það kom því engum á óvart þegar Richard Mallory hvarf í lok nóvember árið 1989. En þegar bifreið hans fannst mannlaus nokkrum dögum síðar varð ljóst að ekki var allt með felldu. Þann 13. desember fannst lík Mallorys, vafið inn í gólfteppi á skógi vöxnum stað þar sem fólk átti til að losa sig við rusl, þótt ólöglegt væri. Hann hafði verið skotinn þrívegis með 22 kalibera byssu. Mánuðum síðar hafði rannsókn lögreglunnar engan árangur borið og málið kólnaði.

Fleiri fórnarlömb

Hálfu ári síðar, 1. júní 1990, fannst annað karlmannslík í skóglendi í Citus-sýslu í Flórída. Sjö dögum síðar voru kennsl borin á líkið og var um að ræða David Spears. Spears hafði horfið 19. maí á leið sinni til Orland. Hann hafði verið skotinn nikkrum sinnum með 22 kalíbera byssu, og við líkið fannst notaður smokkur. Um sama leyti fannst lík þrjátíu mílum sunnar, í Pasco-sýslu. Líkið var svo illa farið að ekki varð unnt að bera kennsl á það, en við krufningu fundust níu 22 kalíbera kúlur í líkinu. Síðar kom í ljós að um var að ræða Charles Carskaddon, fertugan karl sem hafði unnið við ótemjusýningar. Lögreglumaðurinn sem stjórnaði rannsókninni hafði heyrt af málinu í Citrus-sýslu og sá að málin áttu margt sameiginlegt. Hann setti sig því í samband við lögregluna þar.

Í byrjun júlí 1990 sat Rhonda nokkur Baily á veröndinni sinni og sá þegar bifreið sem kom eftir veginum veginum, rennur til og hafnar utan vegar. Út úr honum stíga tvær konur. Sú brúnhærða sagði ekki mikið, en hin ljóshærða bölvaði og ragnaði líkt og hún fengi borgað fyrir það. Sú ljóshærða taldi Baily á að hafa ekki samband við lögregluna, því faðir hennar byggi skammt frá. Konurnar settust aftur í bílinn og komust upp á veginn, en skömmu síðar gaf bílinn upp öndina og konurnar héldu áfram för sinni fótgangandi. Lögreglustjórinn í Marion-sýslu fann síðar bílinn og við rannsókn kom í ljós að blóðblettir sem fundust í honum voru úr Peter Siems sem hafði horfið 7. júní. Lík hans fannst aldrei. Lýsing á konunum tveimur var send til lögregluyfirvalda um gervöll Bandaríkin.

Enn áttu eftir að finnast þrjú karlmannslík og allt benti til að um sama morðingja væri að ræða. Lík Troys Burress fannst 4. ágúst, en hann hafði horfið í lok júlí. Dick Humpreys hvarf ellefta september og lík hans fannst degi síðar. Hann hafði verið skotinn sex sinnum. Nítjánda nóvember fannst lík Walters Gino og rannsókn leiddi í ljós að hann hafði látist innan við sólarhring áður. Lögreglunni varð ljóst að konurnar sem Baily hafði séð af verönd sinni voru viðriðnar málið og viðamikil leit hófst. Ekki leið á löngu áður en vísbendingarnar fóru að hlaðast upp og um miðjan desember hafði lögreglan fengið nokkrar ábendingar um sömu tvær konurnar og nöfn þeirra.

Skuldaskil

Þann 9. janúar 1991 var Aileen handtekin á bar í Volusia-sýslu, og næsta dag hafði lögreglan upp á Ty Moore. Moore samþykkti að fá Aileen til að játa gegn því að njóta friðhelgi. Farið var með Moore á mótel í Flórída. Undir vökulum augum lögreglunnar hringdi hún fjölda símtala til Wuornos og grátbað hana að hreinsa nafn hennar. Þremur dögum síðar játaði Wuornos á sig morðin og hélt því fram að mennirnir hefðu reynt að nauðga henni og hún drepið þá í sjálfsvörn. Aileen Wuornos var sakfelld fyrir sex morð, hún var ekki ákærð fyrir morðið á Peter Siems því lík hans hafði aldrei fundist. Þrátt fyrir að í ljós hafi komið að Richard Mallory hefði frá 1958 fengið meðferð vegna árásar sem hann hafði framið með þeim ásetningi að nauðga konu, neitaði dómari við réttarhöldin að leyfa það sem sönnunargögn sem hugsanlega hefðu getað stutt fullyrðingar Aileen. Aileen Wuornos var tekin af lífi með banvænni sprautu þann 9. október 2002.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -