Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Það sem mamma mín veit

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Af hverju ættum við ekki að vita hver við erum?

Mér finnst ég hafa heyrt svo oft á mínum fullorðinsárum að ég þurfi að finna út hver ég sé. Ég þarf að uppgötva hvað ég vil í þessu lífi. Hver minn tilgangur eigi að vera. Ekki sóa tíma mínum í að fylgja hjörðinni heldur fara mína eigin leið. Sem ég hef nú svo sem gert, tel ég. Ég hef farið mína eigin leið, alltaf. Á hvaða leið ætti ég annars að vera?

Ég hætti í menntaskóla til þess að djamma og prófa mig áfram. Svo endaði ég á því að flytja til Ástralíu til að dansa. Hefði aldrei viljað sleppa því. Hefði ég ekki hætt í menntaskóla hefði ég ekki gert það. Né hefði ég hætt að dansa og fundið vaxandi áhuga á listum, tísku og hinum skapandi geira og sótt um listnám í Ítalíu. Þó ég hafi ekki klárað stúdentinn vissi ég að þetta myndi meika sens fyrir mig. Mín leið. Og hún myndi virka. Ég komst inn í BA nám í Ítalíu, kláraði það og flutti til Svíþjóðar. Fann dansinn aftur þar þökk sé Zumba og vinum sem flest voru ættuð til Miðausturlanda. Stökk um borð í dansfitness hraðlestina og fór út um allt að kenna, á skipum, viðburðum og ráðstefnum. Peningarnir skiluðu sér þó ekki í gegnum dansinn þannig einhvern veginn þurfti ég að finna aðrar leiðir. Það var erfitt að finna í Stokkhólmi þar sem það samfélag var frekar lokað. Nú þá leitaði ég annað, nánar tiltekið á LinkedIn miðilinn. Þar var haft samband við mig frá fyrirtæki í Dubai. Ég var tekinn í viðtal og ráðinn þar til starfa. Í millitíðinni hafði ég samt sótt um hönnunarnám í New York og fengið Dean scholarship award til að læra grafíska hönnun. Ég ákvað að frysta þann möguleika og kanna Dubai. Þar fór ég í kulnun og örmögnun vegna vinnuálags og ákvað eftir þá dvöl að hætta við New York og fara heim. Til Íslands. En þorsti fyrir frekari öryggi kallaði einnig á mig. Frekari lærdómi. Leið mín lá þess vegna næst í meistaranám í menningarstjórnun á Bifröst. Það hentaði mér svona líka vel og útskrifaðist ég með láði þaðan. Við það nám hefur bæst við allskonar námskeið, einka- og markþjálfunarnám. Dans, menning, listir, fólk og samskipti hefur svo einkennt mína leið síðan. Er ennþá á þeirri braut.

Nóg um það.

Hver er ég?

Þetta er ég.

- Auglýsing -

Hvað svo sem lætur mig vera ég er annað mál. Þetta hefur verið leiðin mín. Ákvarðanir mínar sem hafa gefið mér reynslubankann minn. Kennt mér, brotið mig á köflum og endurbyggt mig. En af hverju ég tók þessar ákvarðanir eða af hverju dans og tónlist virtist vera inn í mér frá barnsbeini veit ég ekki. Held ég hafi aldrei tekið meðvitaða ákvörðun sem ungabarn að heyra tónlist sérstaklega og láta mig líða með henni svo ég fyndi fyrir gleði. Reyndar held ég að danshreyfing sé okkur öllum meðfædd. Líkamstjáning, líkams-samskipti, líkamsbeiting, líkamsforðun og notkun. En að setja hana í fast iðkunarform er svo ákvörðun. Foreldrar mínir giskuðu á rétt. Ég varð heppinn. Ég var ekki settur í annað æfingarform sem hentaði mér ekki. Eða hvað? Ef ég hefði verið settur í fótbolta fjögurra ára hefði ég þá bara orðið fótboltastrákur. Væri ég nú einn af þeim í búningsklefanum sem byrjar samskipti á: Sástu leikinn?

Hvað mikið af sjálfsmynd okkar er innbyggt og hve mikið er mótað?

Mér finnst eins og ég hafi margbreytilega sjálfsmynd. Ég hef mjög víðfeðmt áhugasvið og reyni að sinna því öllu samtímis. Það er þreytandi. En ég er leitandi að akkeri. Hvar festir það sig?

- Auglýsing -

Er ég að leita að samþykki?

Stundum er það þannig að mér finnst ég vera heill og fullmótaður Íslendingur en á sama tíma er ég staddur í stöðugum sóknarleik en hitti aldrei í mark.

Gæti ástæðan verið sú að ég er hálfur Indverji?

Kannski því það er mjög stór hluti af mér sem ég hef aldrei fagnað almennilega eða kannað. Ég veit ekkert um helminginn af mér. Ég veit bara að mamma var fædd á Indlandi. Af hverjum hún kom veit ég ekki, né hún sjálf. Var móðir hennar dansari? Var faðir hennar tónlistarmaður? Var fólkið okkar leitandi fólk? Flökkufólk? Götufólk?

Ég er með ótal innbyggðar spurningar. Jafnvel er ég með fleiri spurningar en mamma mín. Kannski hefur hún þurft að þróa með sér einhverskonar varnarkerfi sem ættleidd manneskja. Innbyggð höfnun, tvöföld höfnun. Kannski hefur hún þurft að sleppa tökum á allskonar hlutum og spurningum í gegnum tíðina. Einfaldlega vegna þess að annars væri lífið henni óbærilegt vegna þunga þeirra spurninga. 

Þess í stað leitar mamma mín í þakklætið fyrir það sem hún hefur og veit. 

Hún veit að upphafið var dimmt. Hún veit að hún fannst sem ungabarn úti á götu og var tekin inn á barnaheimili á Indlandi. Hún veit ekki af hverju. Það er fyrsti þunginn.

Hún veit að hinum megin á hnettinum var ung þýsk kona á Íslandi sem vildi gera góðverk. Hún veit að þessi kona komst í tengingu við þetta barnaheimili af tilviljun. Hún veit að þýska konan fékk sendar þrjár ljósmyndir af stelpum á barnaheimilinu. Hún veit að hún var á einni myndinni. Hún veit að þýska konan lokaði augunum og gerði ‘Ugla sat á kvisti’ til að velja hvaða ljósmynd hún ætti að velja. Hvaða stelpu hún ætti að velja að ‘bjarga’. Hún veit að myndin sem fór til baka á barnaheimilið var myndin af henni. Drottningunni henni Mayu. Það var hún.

Hún veit að það var hún sem kom í gegnum Holland og Þýskaland til Íslands árið 1969. Hún veit að hún var sú fyrsta sem kom til landsins í gegnum opinbert ættleiðingarferli frá Asíu. Hún veit að hún upplifði snjó í fyrsta sinn. Hún veit að hún öðlaðist fallega æsku. Hún veit að hún eignaðist vini. Hún eignaðist öryggi. Hún veit að hún eignaðist móður. Hún veit að móðir hennar skildi hana eftir á Íslandi og fór til Þýskalands. Hún veit að hún varð reið. Hún veit að hún grét. Hún veit að hún fann öryggið hverfa. Hún veit að hún vissi ekki af hverju. Hún veit að hún missti af tengingu við móður sína. Annar þungi.

Hún veit að hún kynntist manni og hún veit að hún varð ung móðir. Hún veit að hún eignaðist fjölskyldu sem hún ól upp í öryggi á Íslandi. Hún veit að hún leitaði aftur til móður sinnar. Hún veit að sambandið þeirra varð erfitt. Hún veit að hún á dugleg börn sem eru öll uppkomin. Hún veit að þau vita að hún er stolt af þeim. 

Hún veit að hún hefur unnið í sambandi sínu við móður sína. Hún veit að hún er nú loks orðin aftur dóttir. Litla stelpan hennar mömmu sinnar. Hún veit að hún er þakklát og veit að lífið snýst um það sem hún á og hefur. 

Því það hefði getað farið allt öðruvísi. Það veit hún.

Dóttir Bombay, dóttir Indlands, dóttir Íslands.

Það er sagan sem hún veit og sem ég veit. 

En hvernig lítur upphafið samt út? Hvað er það sem við ekki vitum og hvernig hefur það áhrif á það við höldum um okkur sjálf?

Sjálfsmynd mín er ennþá leitandi og ég veit að mig langar að komast þarna út með mömmu.

Þó það sé ekki til að svara því hver ég sé. Heldur einungis til að skilja og sætta mig við þann sem ég er. Loka hnútnum og taka þann pól í hæðina sem mamma hefur gert. Sleppa tökunum.

Heimildamyndagerðin Móðuróður: Leiðin til Indlands er nú opnu styrkingarferli þar sem fólk getur tekið þátt í með litlum eða stórum hætti á hér Karolinafund.

Fyrir fólk áhugasamt um þessa sögu er einnig hægt að hlýða á útvarpsþættina Ugla sat á kvisti: Móðuróður hér í tveimur hlutum.

Friðrik Agni Árnason

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -