Laugardagur 4. janúar, 2025
-5.2 C
Reykjavik

Þegar ég kom á sáttum á milli Bubba og Eiríks … sagan öll

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þetta átti sér stað í mars árið 2010. Ég var þá blaðamaður hjá Séð & Heyrt undir ritstjórn Eiríks Jónssonar. Eiríkur er margir persónuleikar, en ég fann á honum á þessum tíma að hann var í friðarhug. Umdeildur fjölmiðlamaður sem með sínum einstaka stíl hafði hrist upp í mörgum (líka samfélaginu, á hinum ýmsu miðlum) – eignast nokkra óvini, ef svo mætti segja, en einnig vini og aðdáendur.

Þekktasta opinbera deilan hans var við Bubba Morthens eftir þá frægu fyrirsögn: Bubbi fallinn!, í tímaritinu Hér & nú, árið 2005. Bubbi bar sigur úr býtum í þessu umdeilda máli sem endaði í réttarsal, og síðan þá voru litlir kærleikar á milli Bubba og Eiríks.

Ég hef einu sinni hringt í Bubba – bað hann um smá komment vegna viðtals sem ég tók við Þorstein Magnússon gítarleikara – Steina í Eik – en Bubbi sagðist einfaldlega ekki tala við Séð & Heyrt á meðan Eiríkur Jónsson væri ritstjóri þess. Þetta var kurteisislegt samtal, en ég varð fyrir smá vonbrigðum með viðbrögð Bubba, ekki síst vegna þess að ég veit að hann hefur mikið álit á Steina sem gítarleikara, og kom það glöggt fram á afmælistónleikum hans árið 2006. Svona er stundum hliðarverkun reiðinnar – ég tók það upp hjá sjálfum mér að hringja í Bubba og spyrja hann um Steina – ég bað ekki Eirík um leyfi til þess. Hliðarverkun reiði tveggja manna út í hvorn annan bitnaði sem sagt á mér, þannig lagað. Ég fór ekkert að grenja eða neitt, en varð smá fúll.

Á þessum tíma var Eiríkur í ákveðnu friðarferli – hann sagði oft: „Reiðin er sem rýtingur í eigin holdi.“ Og á þessum tíma, veturinn 2009-10, var hann einnig með útvarpsþátt á Kananum og þurfti stundum að hafa talsvert fyrir því að fá fólk í þáttinn, því margir óttuðust hreinlega karlinn – treystu honum ekki – héldu að hann myndi alltaf spyrja um erfið mál, snúa út úr og koma fólki í óþægilega stöðu og vera vægðarlaus, þótt fólk bæðist vægðar, vinstri hægri.

En Eiríkur var ekkert svona á þessum tíma – hann hafði mildast smám saman með árunum, þótt hann væri enn harður og graður í fréttastefnu sinni – hann vildi í blaðið fréttir sem voru ekki annars staðar, og var það fín stefna sem ég sjálfur hélt tryggð við eftir að ég tók við af Eiríki, enda var ég toppnemandi hans. En nú er ég kominn út í aðra sálma.

Þarna í marsmánuði 2010 var Eiríkur búinn að ná sáttum við Jónínu Ben og einhverja fleiri – þetta var svona friðarvor (ef mars er vor á Íslandi? Hvenær er vor á Íslandi?) Eiríks, og þá gerist það að sjálfur Bubbi verður nokkuð tíður gestur í húsi Birtíngs – hann var í ágætu sambandi við Reyni Traustason þáverandi ritstjóra DV og á þeim tíma líka ritstjóra Mannlífs, en Bubbi var einmitt þá í stóru viðtali við Mannlíf og á forsíðu þess með forláta kött á herðum sínum – flott og óvenjuleg forsíða.

- Auglýsing -

Þar sem öll tímaritin og DV voru á sama pínulitla vinnusvæðinu (og ljósmyndarar, umbotsmenn og ég veit ekki hvað og hvað) þá fór það ekki fram hjá neinum ef einhver frægur var mættur á svæðið – reyndar var þetta svo þröngt að það fór bara alls ekki á milli mála ef einhver mætti á svæðið.

En Bubbi kemur og fer í nokkurn tíma – heilsar uppá Reyni og Jón Trausta og nokkra aðra, en ekki okkur á Séð & Heyrt – og Eiríkur varð alltaf hálf þögull þegar Bubbi var þarna – eins og hann vildi ekki neinn hávaða þegar Bubbi var á svæðinu, og brá sér gjarnan í rettupásu (hataði þær ekkert sérlega mikið eftir að hann fékk ofnæmi fyrir nikótínstautunum) á meðan Bubbi spígsporaði um svæðið.

En svo hélt þetta áfram og ég tók eftir því að Bubbi fór alltaf að færa sig nær og nær okkur – sjálfum gullkálfi Birtíngs – Séð & Heyrt – og tók að gjóa augum í átt að Eiríki og þá ekki með neinum leiðinlegum svip. Á sama tíma, eins og ég nefndi áðan, fann ég fyrir æ meiri friði í kolli Eiríks (ekki að ég hafi komið þar inn, en ég þekki nú karlinn lúmskt vel og veit hvað hann vill í blaðamennsku og stundum vissi ég nákvæmlega hvað hann var að hugsa).

- Auglýsing -

Ég tók því af skarið þennan ágæta dag, 18. mars 2010, þegar Bubbi gekk fram hjá okkur oftar en einu sinni og horfði í hvert sinn í átt að okkur, eða til Eiríks, og ég segi að hann hafi verið að því í von um viðbrögð – einhver viðbrögð, helst góð.

En hann fékk engin viðbrögð frá Eiríki þótt ég fyndi það sterkt á honum að hann var vel meðvitaður um Bubba og nærveru hans og sáttahugsun – já, sáttahugsun. Bubbi var í sáttahug – það sá ég eins og ránfugl sér bráð sína. Og fann að Eiríkur var líka í sáttahug þennan daginn.

Ég hallaði því mér að Eiríki (við sátum í örstuttri fjarlægð frá hvor öðrum í þrjú ár) og sagði, hálfhvíslandi:

„Sérðu ekki að Bubbi vill sættast við þig, sérðu ekki að hann vill tala við þig og ljúka þessum leiðindum sem hafa hangið yfir ykkur báðum í alltof mörg ár?“

Ég bætti þessu við með reiðina og rýtinginn og Eiríkur leit sem snöggvast á mig og sagði: „Þetta er satt hjá þér, þetta er rétt hjá þér.“

Hann stóð síðan upp og gekk í áttina að Bubba og þeir tóku strax tal saman. Ég sá hvað var að gerast – sá þessa menn horfa á hvorn annan með hundaaugum – báðir vildu frið og lausn frá reiðinni eftir langvinnt og þreytandi stríð – menn sem í raun fíluðu hvorn annan ágætlega.

Ég hóaði í þann ljósmyndara sem var mér næstur, var í húsinu, og það var öðlingurinn og snillingurinn Diddi (Sigtryggur Ari Jóhannsson) og fékk hann til að mynda samtal Bubba og Eiríks úr leyni því ég vildi ekki trufla þessa góðu stund – mynda sáttina sem ég hafði átt stóran þátt í og hafði smám saman verið að taka á sig mynd – og var nú tilbúin sáttamynd.

Diddi tók nokkrar myndir en átti í erfiðleikum með vélina sína af einhverjum ástæðum. En samt fengum við eina mynd sem við töldum vera fína fyrir þetta tækifæri og sögðum við hvorn annan að myndin hefði átt að vera svona, fyrst að þessir félagar áttu í hlut.

Myndin er birt með þessari grein.

Og svona er sagan á bakvið sögulegar sættir eins besta tónlistarmanns Íslands og eins besta blaðamanns Íslands.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -