Þriðjudagur 29. október, 2024
5.7 C
Reykjavik

Þorir þú að vera mest hataðasta manneskjan í herberginu?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mögulega er ég barnalegur á þann hátt að ég vil að öllum líði vel, mig langar að láta öllum líða vel með því að kenna danstíma eða koma fram og reyndar bara alltaf í daglegu lífi í kringum annað fólk. Ég held að mér takist það oftast ágætlega. Tilhugsunin um annað hryllir mig. Hvað ef það er einhver eða jafnvel einhverjir þarna úti sem hugsa í hvert skipti sem þeir sjá mig: Æ nei ekki þessi. Meika hann ekki.

EN ég ræð ekki hvernig öðrum líður eða hvort fólki líki vel við mig eða ekki. Þetta finnst mér mjög erfitt að sætta mig við almennt en líka sérstaklega í mínu starfi sem þjálfari, danskennari, skemmtikraftur og fleira. Því viðbrögð annarra við því sem ég geri stjórnar hálfpartinn hvort ég haldi áfram eða ekki. Ef fólki líkar ekki við mig í þessum aðstæðum þá er ég ekki að vinna. Það er bókstaflega þannig. Sem betur fer virðist það ekki vera raunin og ég hef verið að heppinn að eiga gott orð á mér fyrir að gera það sem ég elska að gera. En það er ekki þar með sagt að ALLIR fíli mig. Það eru þau prósent sem ég þarf að horfast í augu við og sætta mig við þá vitneskju að ekki öllum líkar við mig. Við þurfum ekki að einblína á þá sem ekki líkar við okkur en við þurfum hinsvegar að sætta okkur við þá staðreynd. Við getum einnig spurt okkur sjálf: Líkar okkur við alla sem við höfum hitt og kynnst? Ég veðja nokkru á að svo sé ekki. Og hvað er það fólk að gera sem okkur líkar ekki við? Er það ekki bara að lifa lífinu, fá sér kaffi og mæta í vinnu? Hefur fólk sem hefuraðrar skoðanir en þú mjög mikil áhrif á þinn hversdagsleika eða ertu kannski bara ekkert að umgangast það fólk? Þurfum við að sannfæra alla aðra um að hafa sömu skoðanir og við? 

Tökum þetta lengra. Ef þú t.d. hefur sterk gildi, réttlætiskennd, skoðanir og mætir á málstofu þar sem allir hinir eru á öndverðri meiningu en þú, myndir þú þá ekki mæta? Eða myndir þú líta á það sem tækifæri til að deila þínum skoðunum, hlusta á hina og læra eitthvað nýtt?

Við getum ekki öll haft nákvæmlega sömu lífsupplifun. Það er ómögulegt. Við getum ekki gert ráð fyrir því að þegar við meinum vel og séum að lifa samkvæmt okkar gildum að aðrir kunni að meta það. Sumum finnst þú kannski virka gervilegur eða fordómafullur. Til dæmis gæti einhverjum fundist ég vera anti-trans eða anti-kvár með því að nota karlkyns persónugervingu í skrifum. Ég einn veit að ég er ekki anti hitt eða þetta. Og ég hef mínar ástæður fyrir að nota oftast karlkyns persónulýsingar þegar ég skrifa. Ég er karlmaður og þegar ég skrifa persónulega texta út frá minni upplifun kemur það náttúrulega til mín að tjá mig á þann hátt. Stundum flakka ég á milli þess að nota kvenkyns, karlkyns og hlutlausar persónugervingar í skrifum. Mér finnst ekkert að því að vera smá flex í hugsun og fer það eftir hvað ég er að skrifa um og út frá hvaða sjónarmiði.

Fólk getur túlkað það eins og það vill. Eftir að ég hef sleppt grein út þá er það úr minni stjórn og ég verð að þora að vera dæmdur.

Erum við samt of fljót að dæma? Hvað vitum við svo sem um manneskjur sem leynast á bak við skrifuð orð í tölvum og bókum?

- Auglýsing -

Mögulega væri það heimsins besta æfing að hver og einn fyrir sig myndi lesa skoðanir annarra og æfa sig í að bregðast ekki við heldur bara lesa á milli lína. Skilja og fara lengra en orðin. Hvaða manneskja er að skrifa hér? Hvaðan kemur hún? Hvað hefur hún séð frá því hún fæddist? Hvað hefur hún heyrt? Grundvöllurinn fyrir að sýna mannúð og samkennd er þessi æfing að mínu mati. Þetta er ekki jafn auðvelt og það virðist. Sérstaklega ekki þegar upp koma fordæmalausar aðstæður í samfélaginu og allir eru í viðbragðsstöðu öllum tímum, bæði á miðlum og í raunheimum.

En við getum ekki alltaf verið hljóðlaus, eitthvað verðum við að segja og gera í þessu lífi. Þá er ég ekki endilega að meina að hafa sterkar skoðanir á öllu á Facebook en það er okkur hollt að þora að segja hvað okkur finnst og hvað við hugsum. En við verðum einnig að búa í samfélagi sem þorir að hlusta. Ég held að við sem heimssamfélag eigum afar langt í land með það að geta látið mannúð og samkennd vera ofar okkar ólíku skoðunum. Því miður. 

Samkennd er á stöðugri niðurleið. Á meðan græðgi, bæði fjárhagsleg og andleg er á uppleið.

- Auglýsing -

Þess vegna er því mun mikilvægara að þora. Jafnvel þó það geri þig að hötuðustu manneskjunni í herberginu. Það eru bara tímabundnar aðstæður. Og hver veit kannski er einhver einn þarna inni sem hlustar, er ekki sammála þér en hatar þig ekki. Við þurfum að komast þangað. Syndum að þessari strönd.

Við erum þegar búin að staðfesta að öllum líkar hvort sem er ekki við okkur og allir eru ekki sammála okkur. Það verður aldrei þannig. En við getum lifað saman en samt verið ósammála. Það hlýtur að vera.

Hverju hefur þú að tapa?

Stundum málstaðnum.

Stundum vinnunni.

Stundum rifrildinu.

Stundum makanum.

Einstaka sinnum, lífinu.

Við verðum því líka að vita hvenær slagurinn er raunverulega okkar. Meta aðstæður áður en skoðanir, gildi og viðbrögð flæða yfir allt.

Í grunninn snýst þetta um þessi viðbrögð. Við erum alltaf í viðbragðsstöðu þó að við þurfum þess ekki alltaf. Þessi staða gerir okkur uppstökk, spennt og hefur raunveruleg áhrif á líkamlegu heilsu okkar.

Getum við metið hvenær við eigum að þora og hvenær ekki? Ef við gefum okkur svigrúmið til að meta þá kemur oft í ljós að við græðum ekki neitt á að henda skoðunum okkar fram akkúrat í tilteknum aðstæðum. Vandinn er bara að við flest gefum okkur ekki þetta svigrúm.

Er það rétt ályktun hjá mér? Eða tala ég sem hataðasta manneskjan í herberginu?

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -