Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

„Þú ættir að hætta í pólitík mikið oftar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar þetta er skrifað er ferill minn í sveitarstjórn (ef hægt er að kalla það feril að sitja í sveitarstjórn í meðalstóru sveitarfélagi á Íslandi) að renna sitt skeið. Ég ákvað að hætta eftir 12 ár í framlínunni þar, sem ég held að sé ágætur tími. Það er samt sem áður sérstakt að kveðja nokkuð sem hefur verið snar hluti af lífi manns allan þennan tíma og ýmsar breytingar sem munu verða við það. Raunar hafa þegar orðið ákveðnar breytingar, sem sumir aðrir hafa tekið meira eftir en ég sjálfur.

Vinur minn einn (og pólitískur andstæðingur) lét orðin í fyrirsögninni falla við mig eftir fund um daginn. Þótt túlka megi orðin þannig að sá sé dauðfeginn að vera laus við mig (sem viðkomandi eflaust er) var tilefnið annað. Hann var ánægður með að ég hafði sagt það sem mér fannst á fundinum, umbúðalaust og án þess að skeyta mikið um það hvað öðrum þótti. Það fylgir því nefnilega frelsi að vera ekki í framboði. Þrátt fyrir góðan vilja er hætt við því að þeir sem treysta á atkvæði sem flestra, fari í gegnum sjálfsritskoðun við hvert tækifæri. Þetta er ekki æskilegt, en þetta er mannlegt og ég held að við gerum þetta öll (jafnvel þau sem gefa sig hvað mest út fyrir að segja það sem þau hugsa, gera það alls ekki, kannski einmitt síst þau).

Í blessað lýðræði okkar er innbyggður hvati til þess að segja það sem fólk vill heyra í staðinn fyrir það sem það þarf að heyra. Ég sjálfur er ekki betri en svo að ég hef stundum einfaldlega sleppt því að ræða málin frekar en þurfa að fara í gegnum þau með fólki sem ég veit að er ekki móttækilegt fyrir upplýsingum eða gagnstæðum sjónarmiðum. Fá mál eru einföld og nánast alltaf eru tvær hliðar á þeim þar sem ólík sjónarmið vegast á, sem geta eigi að síður verið góð og gild hvert fyrir sig. Ég hef stundum sagt að mínar óuppáhaldssetningar í samræðum hefjist á orðunum „Það getur nú ekki verið svo erfitt/dýrt að…“. Svarið er nánast alltaf að það getur bara víst verið bæði dýrt og erfitt. Ef ekki, þá væri líklegast búið að því.

Stjórnmálafólk er ein af fáum starfsstéttum sem má tala illa um, alltaf alls staðar. En nánast undantekningarlaust búa samfélög við stjórnmálafólkið sem þau eiga skilið. Alveg eins og stjórnmálafólk þarf að hlusta á fólk úti í samfélaginu, þarf samfélagið að vera tilbúið að hlusta á stjórnmálafólk, jafnvel þegar það segir hluti sem er ekki gaman að heyra, og bera virðingu fyrir því þegar talað er af einlægni og hreinskilni. Það getur verið fyrsta skrefið í átt að heilbrigðara stjórnmálaumhverfi og þá fáum við mögulega betra stjórnmálafólk sem er tilbúið að segja hlutina hreinskilnislega, jafnvel áður en það hefur ákveðið að hætta.

Þessi aðsenda grein er frá blaði Mannlífs sem kom út fyrir helgi. Hér má lesa vefútgáfu blaðsins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -