Ég hef átt í nokkrum langtíma samböndum á lífsleiðinni. Misgóðum – Misgáfulegum – Mislöngum. Ég hef verið í samböndum sem hafa flogið hátt og öðrum sem hafa legið lágt.
Ég elska ást. Ég elska samvinnuna, samveruna og samlífið. Mér finnst gott að elska og mér finnst gott að tilheyra og vera elskuð. Sammannlegt reikna ég með.
Hvert og eitt samband hefur kennt mér margt. Hver og einn maki hefur kennt mér meira. En reynslan hefur stundum verið sár og bitur og það eru sambönd sem ég vildi óska að ég hefði verið án.
Einhver ástarlíki sem tóku svo mikið, að eftir sat eitt gapandi tóm.
Í hálfan annan áratug var ég í sambandi við alkóhólista. Við vorum ung og óhefluð. Drykkjan var stjórnlaus en ekki dagleg. Sú raun olli því að ég treysti illa þegar áfengi er haft um hönd. Sambandið var laskað vegna Bakkusar. Við lærðum bæði og brotin og beygð var tappinn settur í, en þá datt botninn úr í sambandinu. Vinskapurinn og virðingin hélt samt í gegnum skilnaðarferlið – mér mun ætíð þykja fjarskavænt um hann og sakna.
Því næst tók við um það bil tveggja ára stormasamt samband. Við vorum óneitanlega skotin, en hann móðgaðist við minnsta tilefni. Talaði ekki við mig í marga daga en poppaði svo upp á Snapchat og lét sem ekkert hefði í skorist. Enginn hefur sent mér jafnmargar sjálfsmyndir af sér. Á hjóli, í lyftu, á handklæðinu, með húfu og nokkrar með fokk jú-merki … ef hann var fullur og fúll.
Sénsar, ótal sénsar – að endingu flutti hann inn og börnin hans fylgdu með aðra hverja helgi. Ég var til í samvinnuna, ég var til í að gefa til að fá að tilheyra. Þangað til hann sneri mig niður og tók mig kverkataki. Þá hvarf löngunin mín í frekara samband. En hann hélt áfram að poppa upp – vantaði skrúfurnar úr sjónvarpinu og ljósaperur sem hann hafði lagt út fyrir í þessari stuttu sambúð. Verst var þegar hann ítrekað gerði sér ferð fram hjá vinnustaðnum mínum.
Illa brennd kynntist ég nýjum manni sem vildi allt fyrir mig gera. Mér fannst ég vernduð og ég leyfði honum að leiða mig. Sambandið óð fram veginn á ógnarhraða. Við sameinuðumst … allt, allt of fljótt. Sambandið náði rétt einum hring í kringum sólina þegar hann gafst upp á mér. Hann lét mig vita að ég væri óferjandi, leiðinleg, ég og mitt blæddum yfir alla tilveru hans og að mér væri ófært að sýna samkennd og virðingu. Ég væri ofbeldismanneskja og hann fór að kalla geðlyfin sín í höfuðið á mér … samt hlæjandi. Hann fór að drekka meira og mætti illa til vinnu. Hann sagði mér að vinnan hans hefði veitt honum aukið svigrúm af því hann ætti svo erfitt heima fyrir.
Hann réttlætti að ætla að keyra mig niður á bílnum sínum, af því ég var að tálma hann þegar ég bað hann um að fara ekki. Hann sneri upp á höndina á mér, öskraði á mig og æddi út af heimilinu drukkinn og í flestum tilfellum á bílnum. Í margar nætur skilaði hann sér ekki heim. Ég hræddist hann og fyrir það eitt hefur hann kært mig.
Rándýr ást sem sýndi að ég átti líka að taka við skuldum hans.
Lífsviljanum týndi ég – Hvað ef þessir síðustu tveir hafa haft rétt fyrir sér? Hvað ef ég er svo ómögulega ósanngjörn að það er ekki hægt að elska mig? Hvað ef ég er svo blind á eigin hegðun? Skömmin, hræðslan, varnarleysið og vanmátturinn hafa gert að verkum að ég hef ekki getað komið mér fram úr. Ég hef ekki verið í vafa um hvort ég skyldi deyja, heldur meira hvernig. Með aðstoð sérfræðinga hefur mér tekist að líða skár. Ég, ein, get ekki borið ábyrgð á þeirra líðan eða framkomu. Ég lít til baka og horfi á mitt fyrsta samband. Það var hvergi fullkomið, það var hvergi nærri dans á rósum – En það var fimm sinnum lengra en hin tvö samanlögð og í baksýnisspeglinum sýnir það mér að þar skildi ég við góðan mann. Hinir tveir voru það einfaldlega ekki.
Þennan pistill og fleiri má lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs