Sunnudagur 12. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Tröllin í Rauðsgili og töfrar Fellaflóa

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Rauðsgil í Borgarfirði er ekki í alfaraleið. Gilið nær frá Reykjadalsá í Hálsasveit og þaðan hlykkjast áin sem ber sama nafn upp í Fellaflóa með fjölmörgum undurfögrum fossum. Upptök árinnar eru í Oki sem trónir yfir Fellaflóanum, hálendinu sem gilið sker.
Fegurðin í gilinu lætur engan ósnortin. Þegar gengið er upp með gilinu vestanvert er bærinn Rauðsgil hinum megin gilsins. Nokkru ofar í gilinu rekur göngumann í rogastans því lítill skógarlundur hangir utan í snarbrattri hlíðinni. Þegar spurt er um það mál er svarið það að Sigurgeir Sigurdórsson, einn tengdasona Rauðsgilshjóna, fékk mikið dálæti á gilinu og tók upp hjá sér að gróðursetja hríslur í snarbrattanum um 1970. Áhorfandinn á hinum bakkanum tekur andköf af undrun þegar hann veltir fyrir sér hvernig maðurinn hafi getað athafnað sig við gróðursetninguna. En Sigurgeirslundur plumar sig prýðilega í snarbröttu gilinu þar sem hvönnin slútir og dumbrauð engjarós drýpur höfði.

Enn ég um Fellaflóann geng

Lundur Sigurgeirs í Rauðsgili.

Göngumaðurinn verður að velja um uppgönguleið í upphafi. Enginn hægðarleikur er að komast yfir gilið fyrr en uppi á hálendinu, ofan við Tröllafoss. Gangi menn að vestanverðu við gilið er það í landi Steindórsstaða. Yfir göngumannum rís sjálf Steindórsstaðaöxl. Að austanverðu er það fjallið Búrfell, rúmlega 400 metra hátt, sem er útvörðurinn. Þangað er kjörið að ganga líka þegar farið er upp með gilinu vestanverðu. Á göngunni upp með gilinu reikar hugurinn til Jóns Helgasonar prófessors sem fæddur var á Rauðsgili en starfaði sín fullorðinsár við Kaupmannahafnarháskóla. Jón skildi eftir sig mörg af fegurstu ljóðum Íslendinga. Áfangar er hvað þekktast þeirra en ljóði Á Rauðsgili kannast margir við. Það fjallar einmitt um gilið og hásléttuna, Fellaflóann, að baki Búrfells.

Á Rauðsgili

Enn ég um Fellaflóann geng,
finn eins og titring í gömlum streng,
hugann grunar hjá grassins rót
gamalt spor eftir lítinn fót.

Hugrökk teygist á háum legg
hvönnin fram yfir gljúfravegg,
dumbrauðu höfði um dægrin ljós
drúpir hin vota engjarós.

Löngum í æsku ég undi við
angandi hvamminn og gilsins nið,
ómur af fossum og flugastraum
fléttaðist síðan við hvern minn draum.

- Auglýsing -

Mjaðarjurt, hvað þú ert mild og skær,
mjög er ég feginn, systir kær,
aftur að hitta þig eina stund;
atvikin banna þó langan fund.

Handan við Okið er hafið grátt,
heiðarfugl stefnir í suðurátt,
langt mun hans flug áður dagur dvín,
drýgri er þó spölurinn heim til mín.

Rauðsgil Tröllafoss
Tröllafoss í klakaböndum. Mynd Reynir Traustason

Eftir því sem göngumaður kemur hærra í landið á göngu sinni sést meira af Okinu og rétt eins og Jón Helgason, veltir hann fyrir sér hvað sé handan þess. Stutta svarið er Kaldidalur sem skilur á milli Oks og Þórisjökuls. Svo er það Langjökull og hálendið í fjarskanum.

- Auglýsing -

Á göngunni kemur fólk að hverjum fossinum á fætur öðrum. Fyrstur er Laxfoss, síðan er það Bæjarfoss, Einiberjafoss, Ólafsfossar og Tröllafoss, svo einhverjir séu nefndir. Þegar Tröllafoss blasir við má heyra andköf frá þeim sem upplifir alla þá fegurð sem felst í drynjandi fossinum, gilinu og tröllunum sem standa vörð um alla fegurðina. Þá er ekki úr vegi að fara með ljóð Jóns Helgasonar og sjá hann fyrir sér sem barn í Fellaflóa þar sem gamalt spor eftir lítinn fót blasir við. Okið sést nú í allri sinni dýrð. Við hlið þess er Fanntófell, formfagurt og tignarlegt.

Ferðafélag Íslands hefur undir merkjum Fyrsta skrefsins, staðið fyrir gönguferðum undanfarin ár upp með Rauðsgili og á Búrfell þar sem félagið kom fyrir gestabók til minningar um hjónin á Búrfelli, Sigurstein Þorsteinsson og Jakobínu Jakobsdóttur. Þau hundruð göngumanna sem farið á vegum félagsins þessa leið eiga góðar minningar frá ferðunum.

Til að komast á þessar slóðir úr Reykjavík er ekið sem leið liggur um Hvalfjarðargöng og áleiðis í Borgarnes. Áður en komið er að Borgarfjarðarbrúnni er þverbeygt áleiðis upp Borgarfjörð. Ekið er um Kleppjárnsreyki og þaðan um Reykdælaveg, 517, fram dalinn. Við Steindórsstaði er haldið áfram eftir Auðsstaðavegi, 5150 að fjárrétt, skammt frá afleggjaranum að bænum Rauðsgili í Hálsasveit þar sem bílum er lagt og farið um vegslóða meðfram Rauðsgili. Leiðin er alls um 9 kílómetra leið og hækkun um 350 metrar.

Fólk þarf að vera vel skóað og jafnvel með legghlífar þar sem gengið er að hluta um mýrar í Fellaflóa. Enginn sem fer þessa leið við góðar aðstæður verður ósnortinn. Rauðsgilið kallar á sömu hughrif og urðu kveikjan að ljóði Jóns Helgasonar. Svæðið stendur svo sannarlega undir því að eiga eitt af fegurstu ljóðum íslenskrar tungu.

Myndbandið hér að ofan er tekið af Birgi Sigdórssyni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -